Skurðaðgerðir gegn offitu minnka líkur þeirra sem eru með sykursýki 2 á hjartabilun og gáttatifi og fólk deyr síður. Þetta er meðal niðurstaðna í doktorsritgerð Guðrúnar Þuríðar Höskuldsdóttur við Gautaborgarháskóla, sem er sérfræðilæknir á offitu- og sykursýkismiðstöð Sahlgrenska.
Hún segir afar mikilvægt að auka árangur lyfjameðferða við offitu og nefnir að 40 prósent minni líkur voru á innlögn á sjúkrahús vegna gáttatifs og yfir 70 prósent minni vegna hjartabilunar í hópi þeirra sem höfðu farið í skurðaðgerð vegna offitu, og höfðu ekki þekkta hjartabilun eða gáttatif fyrir, en meðal þeirra sem ekki höfðu farið í skurðaðgerð.
„Þessar innlagnir voru þá túlkaðar sem nýgreind hjartabilun eða gáttaflökt á þessu níu ára tímabili sem einstaklingunum var fylgt eftir,“ nefnir hún og einnig að mun lægri dánartíðni hafi verið hjá þeim sem hafi haft þekkta hjartabilun fyrir aðgerð miðað við þá sem höfðu ekki farið í aðgerð.
„Þessi hópur einstaklinga með þekkta hjartabilun var þó aðeins lítið úrtak úr heildarhópnum þar sem almennt er ekki mælt með offituaðgerðum á þeim sem þannig standa. Því þarf að rannsaka þetta frekar. Hér er enginn íslenskur læknanemi í grunnnámi en margir læknar í sérnámi. Það er svo gott sem Íslendingur í hverri undirgrein á lyflækningasviðinu og við getum alltaf hringt í hvert annað.“
Guðrún nefnir að rannsóknarhópur hennar hafi skoðað áhrif magahjáveituaðgerða á einstaklinga með týpu 1 sykursýki, og að „það hefur ekki verið skoðað að ráði áður þar sem meðferðin við offitu einstaklinga með sykursýki 1 er mjög flókin. Við sjáum að aðgerðir hafa mjög góð áhrif þegar kemur að hjarta- og æðasjúkdómum, sérstaklega heilablóðföllum og hjartabilun. Áhrifin virðast sambærileg á þennan hóp og þann sem er með sykursýki 2 en hætta er þó á að einstaklingar með sykursýki 1 þrói með sér alvarlega aukaverkun,“ því ef magn insúlíns í kerfinu „er ekki rétt byrjar það að brjóta niður fitu og mynda sýrð efni í blóðinu, sem er lífshættulegt og því þarf að íhuga stöðuna vel og hafa sykursýkisteymi með í ráðum til að koma í veg fyrir það.“
Guðrún bendir á „aukna hættu á ofneyslu áfengis og fíkniefna eftir skurðaðgerðir. Fólk finnur meiri áhrif en áður. Þá virðist hætta á geðrænum fylgikvillum einnig aukast. Andleg áhrif eftir offituaðgerð eru ekki alltaf til hins betra heldur getur vanlíðan aukist mikið.“
Og bætir við:
„En við sáum ekki tölfræðilegan mun þegar kom að geðheilsu og sjálfsvígstilraunum í þessum hópi. En það er þekkt sem alvarlegur fylgikvilli af offituaðgerðum.“
Færir einnig í tal að það þarf alltaf að vera val hvers og eins að fara í aðgerð eða ekki, enda sé ljóst sé að árangur lyfjameðferðar og aðgerða hafi verið ólíkur; flestir þeirra 1000 sem fóru í magahjáveitu- eða magaermisaðgerð og þau fylgdu í tvö ár hafi lést um 50 prósent af þyngd umfram líkamsþyngdarstuðulinn – BMI-gildin – eða komist undir BMI 30.
„Meðalþyngdartapið var 9 prósent hjá þeim sem voru í lyfjameðferðarhópnum,“ segir Guðrún og að vill breyta því og sjá betri árangur lyfjameðferða, en margt þurfi að skoða því eftirlit með lyfjameðferðunum sé ófullnægjandi og lyfin eru ekki niðurgreidd, þannig að fólk heldur oft ekki lyfjameðferðina út:
„Ég get nánast talið á fingrum annarrar handar þá sem enn voru á lyfjum að tveimur árum liðnum,“ segir Guðrún og heldur áfram:
„Þá höfðu einstaklingarnir farið í gegnum tólf mánaða ferlið hjá okkur og þurftu eftir það að treysta á sjálfa sig til að halda þyngdinni niðri. Við treystum á að heilsugæslurnar fylgi fólki eftir en þær hafa ekki bolmagn til þess. En við getum ekki sinnt því og það er vandamál.“
Guðrún bendir á að fólk sem taki lyfin berjist, ólíkt þeim sem fari í skurðaðgerð, við að líkami þeirra kalli aftur á að safna upp orkunni sem hann átti:
„Þegar fólk léttist mikið eykur líkaminn framleiðslu á hormónum sem auka áhugann á mat. Hungurtilfinningin magnast upp þegar matur sé aftur kynntur til leiks eftir allt að þriggja mánaða duftmeðferð og mikilvægt að taka lyf til að minnka hungrið og vinna á móti þessum hormónaáhrifum sem verði ekki við skurðaðgerðir. En vandinn við lyfjameðferðina er að hún er dýr og aðeins niðurgreidd fyrir þá sem hafa þróað með sér sykursýki 2. Lyfin þurfi jafnvel að nota til frambúðar en sjaldnast fá einstaklingarnir þau til lengri tíma. Eftirleikurinn er þeim því erfiður, en þrátt fyrir þennan mismunandi árangur er mikilvægt að bjóða fleiri kosti en skurðaðgerðir; þótt þær séu árangursríkar eru þær ekki hættulausar og henta ekki öllum. Ný lyf hafa verið þróuð sem gætu komið á markað fljótlega,“ og með þeim „getum við betur boðið upp á eins árangursríka meðferð og fæst með skurðaðgerðum.“
Nú í framhaldinu hefur Guðrún mestan áhuga á að gera meðferðarformin utan skurðaðgerðanna betri „þannig að þau valdi langvarandi þyngdartapi,“ og leggur áherslu á að þau á offitumóttökunni sjái ekki mun á aukaverkunum eða fylgikvillum eftir skurðaðgerðirnar eða meðferðina.
„Við teljum að það sé meðal annars vegna þess að allir einstaklingar sem fá tilvísun til okkar fá fræðslu um báða meðferðarmöguleika. Beiðnir þeirra sem óska eftir skurðmeðferð fara svo fyrir fund þar sem lyflæknir og skurðlæknir skoða hverja beiðni fyrir sig og leggja mat á það hvort skurðmeðferð sé heppilegur kostur. Mér finnst erfið tilhugsun að við séum alltaf að meðhöndla sjúkdóma en vinnum ekki að því að fyrirbyggja þá,“ en sérgreinin heilli enda framfarir þar miklar; sérstaklega þegar litið er til sykursýki 1; í insúlínpumpum og blóðsykursmælum. Einnig í sykursýki 2.
„Þar er lyfjaþróunin hröð og langflestir þeirra sem njóta þjónustu offitumóttökunnar hafa mætt miklum fordómum í heilbrigðiskerfinu. Viðmótið hefur verið leiðinlegt og leitt að heyra það. Fólk hefur nefnt að því finnist því í fyrsta sinn vera mætt af virðingu á offitumóttökunni,“ segir Guðrún og bætir við:
„Það er dásamlegt að útskrifa einstaklinga með breytta og bætta líðan og geta sýnt fólki breytingar á blóðþrýstingi, blóðfitu og -sykri og þá sé jafnvel búið að draga úr annarri lyfjanotkun. Margir hugsa um offitumeðferðir út frá útliti. Margir einblína á að vera í eðlilegri þyngd en í rauninni er allt þyngdartap af hinu góða. Útskýra þarf mikilvægi þess að setja sér markmið sem hægt er að ná; annars er svo auðvelt að gefast upp. Þyngdartap upp á 5 til 10 prósent hefur mikið að segja.“
Heimild: Læknablaðið