Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést í gær á heimili sínu við Marbakkabraut í Kópavogi, 83 ára að aldri, eftir baráttu við afleiðingar heilaslags snemma á þessu ári. Morgunblaðið greinir frá.
Styrmir fæddist í Reykjavík hinn 27. mars 1938. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Styrmir gaf sig mjög að félagsstörfum og var varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sat jafnframt í auðlindanefnd.
Styrmir starfaði mestalla starfsævi sína á Morgunblaðinu. Hann fór raunar fyrst að skrifa í blaðið að staðaldri tvítugur að aldri. Hann hóf svo störf á ritstjórn sem blaðamaður árið 1965. Hann varð aðstoðarritstjóri 1971 og var ráðinn ritstjóri 1972. Þar starfaði hann allar götur síðan og náði 43 ára farsælum ferli á blaðinu.
Styrmir lét þó ekki af ritstörfum og virkri þátttöku í þjóðmálaumræðu eftir að hann hvarf úr ritstjórastóli Morgunblaðsins. Eftir hann liggja og allnokkrar bækur, allar um stjórnmálasögu landsins nema ein, Ómunatíð, sem er fjölskyldusaga um geðsjúkdóm eiginkonu hans og vakti mikla athygli.
Illugi Jökulsson rithöfundur er einn þeirra sem minnast Styrmis með fallegri kveðju á Facebook. „Um pólitískt starf Styrmis Gunnarssonar má margt segja og ég vona að stórmerkum blaðamannaferli hans sem ritstjóra Morgunblaðsins verði gerð viðhlítandi skil. Og hann var skemmtilegur maður, það veit ég jafnvel af okkar litlu kynnum. En mikilvægast er hverri manneskju að reynast vel og dyggilega sínum nánustu og það veit ég að Styrmir gerði sannarlega og setti framar öllu í lífi sínu,“ segir Illugi.
Styrmir lét sig þjóðmálaumræðu miklu varða og átti trúnaðarmenn þvert á allar flokkslínur, þrátt fyrir að skoðanir hans færu alla tíð að mestu saman við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Frægt varð þegar hann kallaði valdastétt landsins „djúpríki“ og opnaði sig um íslenskt samfélag fyrir rannsóknarnefnd Alþingis eftir hrun:
„Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“