Héraðsdómur Reykjaness tók til aðalmeðferðar í máli Antons Kristins Þórarinssonar. Þar játaði Anton brot í tveimur liðum af þremur og var hann dæmdur til að greiða sekt upp á 175.000 krónur fyrir brot á vopna og fíkniefnalögum. Anton Kristinn var ákærður í sumar fyrir að eiga í fórum sínum rafstuðbyssu, þrjú rafmagnsvopn, kókaín og tóbaksblandað kannabisefni sem fannst við húsleit hjá Antoni árið 2019.
Upphaflega var hann kærður fyrir þrjá ákæruliði en saksóknari féll frá einni þeirra og var hann dæmdur fyrir þær tvær sem eftir stóðu. Var fallið frá þriðja ákæruliðnum þar sem meðsakborningur Antons játaði sök á þeim lið en alls voru þrír ákærðir með Antoni. Tveir þeirra sluppu við dóm þar sem Anton játaði á sig sökina.
Anton Kristinn var fyrr á árinu handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við Rauðagerðismálið en hefur nú verið tekinn af lista grunaðra í málinu.