- Auglýsing -
„Nú er sá tími að renna upp að stjórnmálaflokkar þurfa að stunda meiri sölumennsku en alla jafna. Í stað heiðarlegrar baráttu á markaðstorgi hugmyndanna eyða sumir stjórnarandstöðuflokkar, og ný framboð, allri sinni orku í óraunhæf yfirboð og hástökkskeppni á vinsældarvagna. Áberandi er einnig andúð og heift út í Sjálfstæðisflokkinn,“ skrifar Brynjar Níelsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, um kosningabaráttuna. Hann segir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins ástunda upphrópanir og rangfærslur.
„Stöðug reiði og öfund gerir menn óhamingjusama og veldur ójafnvægi í sálinni. Í slíku ástandi getur enginn stjórnað svo vel sé og allra síst landinu. Þjóðin stendur frammi fyrir því hvernig rétta eigi þjóðarskútuna af eftir mikið högg í faraldrinum. Hverjum treystir hún best til þess og hvaða stefna er líklegust til árangurs? Um það verður kosið í komandi kosningum,“ skrifar Brynjar.
Hann varar við fjölda smáflokka sem séu ekki líklegir til að stjórna af farsæld. Meirihlutinn í Reykjavæik sé sönnun þess.
„Telji menn að sósíalismi eða sósíölsk efnahagsstefna sé leiðin kjósa þeir einhvern af þessum fjölmörgu vinstri flokkum sem í boði eru. Það eru væntanlega sömu kjósendur og eru ánægðir með störf meirihlutans í Reykjavík seinustu áratugi eða fyrri vinstri stjórnir í landinu“.
Hann leggur áherslu að þrátt fyrir smæð Sjálfstæðisflokksins hafi sá flokkur tryggt velferð á Íslandi.
„Nú um stundir er Sjálfstæðisflokkurinn ekki sama breiðfylking og hann var og eru sjálfsagt ýmsar ástæður fyrir því. Hvað sem því líður er það leiðandi stjórn hans og stefna sem hefur fært þessa þjóð úr örbirgð í eitt mesta velferðarsamfélag heims á stuttum tíma,“ skrifar Brynjar.
Hann hefur áhyggjur af fylgishruni flokksins em hefur misst helming af fylgi sínu.
„Fylgi Sjálfstæðisflokksins hjá yngra fólki virðist vera í sögulegu lágmarki, sem er mikið áhyggjuefni. Sjálfur hefði ég haldið að mesta hagsmunamál ungs fólks, sem hefur menntað sig og er að stofna fjölskyldu og koma undir sig fótunum, væri fjölbreyttir atvinnumöguleikar og aukið frelsi og meiri ábyrgð“.
Hann segir að hvort sem okkur líkar betur eða verr bíði þjóðarinnar slæm kjör ef kosningarnar fara illa fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
„Slök útkoma Sjálfstæðisflokksins í kosningum er ávísun á vinstri stjórn. Við núverandi aðstæður í samfélaginu þarf umfram allt öfluga ríkisstjórn með trúverðuga stefnu en ekki upphlaupslýð sem er fastur í yfirboðum og sýndarmennsku“.