Einstaklingar fæddir 2003 eða fyrr eiga rétt á 5000 krónum í formi ferðagjafar sem nota má hjá ýmsum ferðaþjónustufyrirtækjum. Ferðagjöfin er sótt á https://island.is/ferdagjof og nýtt með iOS eða Android appi sem ber einfaldlega heitið Ferðagjöf.
Ferðagjöfin er liður í því að efla ferðaþjónustu, nú þegar heimsfaraldur kórónaveiru geysar.
Mörg okkar gætu litið svo á að það taki því ekki að sækja ferðagjöfina þar sem við ætluðum alls ekki að fara í reiðtúr á hestaleigu eða hvalaskoðun og við getum bara alveg séð norðurljósin sjálf án þess að láta rútu skutla okkur upp í Heiðmörk.
Hinsvegar er það svo að ýmis fyrirtæki bjóða vörur og þjónustu sem kosta inn við þessar 5000 krónur!
Frítt út að borða!
Helstu skyndibitastaðir taka við ferðagjöfinni. Til dæmis taka KFC, Subway, Serrano, Sbarro, American Style og Dominos við gjöfinni auk ýmissa annara skyndibita- og veitingastaða víðsvegar um landið. Það er margt verra en að fá veglega máltíð frítt!
Frítt í bíó!
Smárabíó og Háskólabíó taka bæði við ferðagjöfinni. Ef þú kaupir miða fyrir einn á tæpar 2000 krónur gefur augaleið að þú getur splæst í bíópopp, gos og slikkerí fyrir 3000 krónur.
Farðu á djammið!
Fjölmarga bari og skemmtistaði víða um landið má finna í appinu. Láttu ríkisstjórnina bjóða þér upp á drykk – eða tvo!
Taktu Bensín!
Olíufélögin N1 og Olís taka við ferðagjöfinni. Ferðagjöfin jafngildir um það bil 20 lítrum af bensíni og knýr meðal fólksbíl rúma 200 kílómetra í innanbæjarakstri.
Láttu keyra þig!
Leigubílastöðin Hreyfill tekur við gjöfinni. 5000 krónur jafngilda um 15 kílómetrum með startgjaldinu inniföldu sem þýðir rúntur frá miðbænum upp í Mosó.
Og margt, margt, margt fleira!
Kíktu á heimasíðuna Ferdalag.is en þar geturðu séð nánar hvað er í boði fyrir handhafa ferðagjafarinnar.
Það gæti þó verið snjallt að hringja á undan sér; þó það komi ekki fram í appinu gæti verið að söluaðilarnir hafi sett fyrirvara um notkun ferðagjafarinnar.