Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrönn Traustadóttir, ætlaði aldrei að feta í fótspor móður sinnar en lífið hagaði því þannig til að Hrönn vinnur við listir í dag, ásamt því að kenna öðrum teikningu, litafræði og hönnun við Tækniskólann.

Hrönn er einkadóttir Fríðar Ólafsdóttur, fatahönnuðar og sérfræðings í íslenska þjóðbúningnum, en Fríður kenndi einnig textílmennt við Kennaraháskóla Íslands. Hrönn hefur því fetað í fótspor móður sinnar en auðvitað einnig farið sínar eigin leiðir í lífinu sem hefur verið mjög viðburðaríkt.

Ólst upp í listrænum jarðvegi

Fyrstu tvö árin ólst Hrönn upp í Kópavogi, þá flutti hún ásamt móður sinni og föður til Berlínar en þangað fóru foreldrar hennar í nám.

„Mamma var að fara í fatahönnun og pabbi, Trausti Valsson, í arkitektúr. Seinna sérhæfði mamma sig í íslenska þjóðbúningnum og kenndi við Kennó og pabbi varð prófessor í skipulagsfræðum. Ég er einkabarn foreldra minna sem skildu en síðar eignaðist pabbi aðra dóttur þannig að við systurnar erum samfeðra,“ segir Hrönn sem býður blaðamanni upp á blátt blómate. Róandi fagurblátt tevatnið passar vel við stemninguna sem Hrönn er búin að skapa í fallegri aðstöðu sem hún nefnir Lífsstöðina og er staðsett í miðborg Reykjavíkur. Litir skipa stóran sess í lífi Hrannar sem klæðist litríkum fallegum fötum og skreytir umhverfi sitt í miðborginni með litum. Þarna er lítil aðstaða fyrir jóga og heilun þar sem gong-hljóðfærið skipar stóran sess.

„Blár litur er róandi fyrir okkur. Heima á Selfossi er efri hæðin öll máluð í bláum tónum. Það er engin tilviljun að María mey var í bláum kufli eða að Rafael erkiengill lækni með bláum lit. Himinblár litur hefur góð áhrif á okkur. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á litum og get lesið í litatóna. Það er gott að hafa marga liti heima hjá okkur. Börn þurfa lita örvun þegar þau fæðast, það er partur af þroska barnsins. Þess vegna svo mikilvægt að umkringja börn allskonar skærum litum. Það er ekki gott fyrir neinn að klæðast svörtum lit alla daga. Við þurfum fleiri liti, bæði börn og fullorðnir því þeir næra sálina okkar,“ segir Hrönn sem deilir með lesendum Vikunnar allskonar fróðleik í eftirfarandi viðtali sem fram fór á dögunum í blíðskaparveðri.

Konur verða að stíga fram núna

- Auglýsing -

Já, lífið hefur leitt Hrönn áfram til sjálfsþekkingar í gegnum áföll og ákvarðanir um að snúa áföllum í sigur.

„Undanfarin ár hef ég verið að læra heilunaraðferðir með jóga. Ég hef stundað nám í HAF Yoga í vatni, Reiki heilun og Yoga Nidra ásamt því að þjálfast í notkun gongs- ásláttarhljóðfæris sem hefur ótrúlega djúp heilunaráhrif fyrir taugakerfið og líkamann í heild sinni. Ég var einmitt að klára fimm daga þjálfun í hljóðheilun með mjög færum erlendum gong-meisturum sem komu hingað til lands. Gong er hljóðfæri friðar og ljóss, það hjálpar til við að heila heiminn okkar og auka frið. Gong-meistararnir sögðu að tími kvenna væri komin, þær yrðu að stíga fram og hjálpa til við heilun jarðarinnar. Konur verða að hætta að halda aftur af sér. Þeir sögðu tímana núna fram til ársins 2025 vera umbrotatíma.

„Konur skipta miklu máli í þessari uppbyggingu sem fram undan er á jörðunni.“

Andlega þenkjandi fólk er að tengjast betur því þörfin er núna fyrir þessar hógværu sálir að stíga inn í mátt sinn og valdefla sig. Konur skipta miklu máli í þessari uppbyggingu sem fram undan er á jörðunni. Umburðarlyndi verður að aukast fyrir fólki sem er ólíkt okkur sjálfum, allir verða að vera sveigjanlegir í viðhorfum sínum því fjölbreytileiki er af hinu góða.

- Auglýsing -

Gamli tíminn er að hverfa og ný jörð er að fæðast. Mér fannst mjög merkilegt að hlusta á þessa menn og læra af þeim. Ég finn að ég er ein af þessum konum sem eiga að vera sýnilegar en við erum miklu fleiri. Konur þurfa að opna fyrir þá hæfileika sem þær búa yfir og nota þá mannkynið til framdráttar. Tími eigingirni og græðgi er liðinn. Nú verðum við að vinna saman að betri jörð, lækna umhverfi okkar og bæta samskipti okkar á milli,“ segir Hrönn með áherslu og maður finnur kraftinn þegar hún talar, að henni er alvara. Tíminn er núna, ekki á morgun.

Áföll leiddu hana í heilun

Hrönn er að fara í sumarfrí frá lifibrauði sínu sem er kennsla við Tækniskólann og langar að stíga skrefið núna með það sem hjarta hennar þráir en það er að hjálpa öðrum. Hrönn hefur þjálfað sig í margskonar heilunaraðferðum í gegnum árin, sem voru fyrst og fremst til þess að hjálpa henni sjálfri í upphafi. Hún hafði lent í tveimur bílslysum sem ollu henni miklum áverkum og hún var mörg ár að vinna úr.

Í Lífsstöðinni býður Hrönn upp á Reiki heilun, Gong-hljóðheilun og slökun, Yoga Nidra, Litameðferð og Slow Yoga en HAF Yoga fer fram annars staðar í vatni.

Á þrítugsaldri þurfti hún að leita sér hjálpar á Reykjalundi. Óhefðbundnar leiðir hafa einnig gert heilmikið fyrir hana ásamt þeirri læknishjálp sem hún hefur fengið frá læknum á árunum eftir bílslysin. Þessi áföll opnuðu fyrir áhuga hennar á fleiri leiðum til lækninga. Lífsstöðin er einmitt svoleiðis staður, þar sem Hrönn ætlar að opna dyrnar fyrir þeim sem eru að leita að vellíðan. Í Lífsstöðinni býður Hrönn upp á Reiki heilun, Gong-hljóðheilun og slökun, Yoga Nidra, Litameðferð og Slow Yoga en HAF Yoga fer fram annars staðar í vatni.

Alltaf verið næm á fólk og dýr

Við gefum Hrönn orðið um leið og við biðjum hana um að rifja upp æviskeið sitt:
„Ég hef alltaf verið næm og amma Hrefna, móðuramma mín, var það einnig. Við vorum alltaf mjög góðar vinkonur á meðan hún lifði. Ég bjó ásamt foreldrum mínum í Berlín frá tveggja til sjö ára aldurs en þá sagðist ég vilja fara heim til ömmu Hrefnu og afa í Kópavogi og fékk það. Þegar ég var fimm ára fékk ég heilahimnubólgu, þá stödd í Danmörku og líkurnar á bata voru  ekki góðar. Mamma mátti bara heimsækja mig og hringdi í ömmu á Íslandi til að biðja um hjálp. Amma talaði meðal annars við Einar á Einarsstöðum og sagði mömmu daginn eftir að hinir og þessir læknar að handan, hefðu farið inn til mín, að þeir hafi farið þarna inn ganginn og lýsti umhverfinu þar sem ég lá. Hún fékk þau skilaboð að ég myndi læknast og verða heil. Þetta fékk ég að heyra seinna frá ömmu en það tíðkaðist ekki að tala um svona hluti. Við amma skildum vel hvor aðra.

Ég var send í sveit í sjö sumur eftir að ég flutti heim til Íslands. Það fannst mér gaman og langaði að verða bóndi því mér leið svo vel í sveitinni. Ég hef alltaf verið nátengd dýrum, gat talað hesta og hunda til og fékk hundinn á bænum til að gera hluti sem engin annar gat. Þetta fannst fólkinu á bænum merkilegt. En lífið var ekki bara dans á rósum því ég var með mótþróa á unglingsárum og ætlaði ekki að vera skapandi eins og mamma mín. Ég ætlaði að verða sálfræðingur því ég var sú sem aðrir leituðu til og var oft að hjálpa vinum mínum og fannst þess vegna skynsamlegt að ég yrði sálfræðingur.

Ég var mjög oft beðin um að kíkja í tarotspil fyrir vini mína og síðar tók ég alla sálfræðikúrsa í menntó sem ég gat. Eftir menntaskólann ákvað ég samt að starf sálfræðings væri líklega allt of erfitt fyrir mig. Mér fannst ég líka farin að taka svo mikið inn á mig. Þarna er ég farin að smakka áfengi og varnir mínar veiktust við það en það þarf að passa sig á þessu þegar maður er næmur. Mig langaði ekki lengur í þetta andlega og fór til Heidelberg í Þýskalandi í listasögu við háskólann þar. Mamma og fósturpabbi minn voru nokkur ár þarna úti og ég var mikið í kringum þau.

Mér fannst það ákveðið öryggi fyrir mig. Svo veiktist ég upp úr þurru og varð rosalega veik. Ég horaðist niður og læknar vissu ekki hvað var að gerast og ég hélt að ég væri komin með magakrabba. Ég hringdi í ömmu sem sagði mér að koma heim í ömmumat sem ég gerði og var lengi heima hjá ömmu á Íslandi. Ég fór aftur út til Þýskalands þegar ég var orðin hraust og dvaldi þá til 25 ára aldurs í Þýskalandi.“

Fór að vinna hjá RÚV

„Eftir að ég kom heim aftur þá fékk ég vinnu á RÚV í búningadeild og við að útbúa auglýsingar. Það var skemmtilegt starf og síðan var ég aðstoðarkona Helgu Stefáns með búningana í kvikmyndinni Svo á jörðu sem á himni. Allt voða gaman nema að þegar við vorum við tökur á Höfn í Hornafirði þá lenti ég í slæmu bílslysi og fór illa í bakinu því ég fékk ekki þá aðhlynningu sem ég þurfti strax eftir slysið. Læknir gaf mér deyfilyf og ég sá stjörnur en hélt áfram að vinna. Við vorum á leið upp á Vatnajökul í tökur og ég var aftan á snjósleða sem hossaði á ísnum.

Hrönn Traustadóttir.

Þetta var svakalega vont og ég henti mér af sleðanum en maðurinn tók ekki eftir því. Ég gerði þetta viljandi því mér var svo illt í bakinu og gat ekki hossast meir. Þeir fóru svo að leita að mér og fundu mig liggjandi á ísnum en ég var svo kvalin að ég gat ekki talað. Þegar sjúkrabíllinn kom fékk ég fimm morfínsprautur en ekki dugði minna til að slá á sársauka minn. Ég er send til Reykjavíkur og í kjölfarið lögð inn á Reykjalund þar sem ég fór í endurhæfingu í þrjá mánuði.“

Ítalía heillaði Hrönn í hönnunarnám

„Þarna er ég orðin 26 ára gömul og nýbúin í endurhæfingu á Reykjalundi. Á þessum tíma fór ég að spá hvað ég ætti að læra sem ég myndi finna mig í og fékk sendan ofboðslega fallegan bækling frá einum besta hönnunarskóla í Mílanó á Ítalíu, Marangoni, sem enginn Íslendingur hafði þá stundað nám við. Það var mjög strangt inntökupróf í þennan skóla og erfitt að fá lán frá LÍN til að stunda nám við skólann. Ég þurfti að fá alla pappíra frá skólanum og senda til LÍN til að námið yrði lánshæft en fyrst fór ég til Flórens og lærði ítölsku í þrjá mánuði. Ég dvaldi síðan í sjö ár í Mílanó.

Á miðri leið í náminu skipti ég um hest í ánni og lærði Trend-hönnun sem mér fannst ótrúlega spennandi nám og finnst enn. Þarna var ég komin í nám sem tók á straumum og stefnum í hönnun á heimsvísu í framtíðinni. Þarna vorum við að áætla tískustrauma á fatnaði, bílum, kremi, ilmvatni, pólitík, tónlist og miklu fleira. Mér fannst þetta stórkostlegt nám en það eru ráðgjafar innan stórra fyrirtækja sem eru með svona Trend-hönnuði á snærum sínum,“ segir Hrönn uppveðruð þegar hún lýsir þessum stórkostlega hönnunarháskóla á Ítalíu.

Ástin bankar upp á

Námsferðin til Ítalíu varð örlagarík því Hrönn eignast ítalskan kærasta og á með honum son. „Við slitum samvistum og ég var um stund einstæð móðir á Ítalíu sem var erfitt og því ákvað ég að fara heim til Íslands. Mig langaði samt ekkert að stoppa lengi heima og vildi frekar halda áfram til Los Angeles og fara þar í nám í teiknimyndagerð, brellum og tækni. Fósturpabbi minn jarðtengdi mig og benti mér á að skapa öryggi fyrir mig og son minn með föstum mánaðartekjum. Ég hélt áfram í búningabransanum um tíma en svo um haustið 1998 sótti ég um kennarastarf á mínu sviði við Iðnskólann í Reykjavík og fékk,“ segir Hrönn sposk og maður fær á tilfinninguna að einhver sæt saga sé í uppsiglingu.

„Við vorum fjórtán nýir kennarar ráðnir við Iðnskólann þetta haust og ég fann að ég var ánægð þarna. Þegar líða tók að jólum var haldið jólaball fyrir kennarana og ég ætlaði ekki að nenna en ég var eiginlega rekin á þessa skemmtun af systur minni. Þannig að það var í eina skiptið sem ég fór ein á ball. Þar kom til mín maður sem spurði hvort ég vildi dansa – ég spurði hvort hann væri maki einhvers því ég hafði ekki séð þennan mann áður. Við byrjuðum þá víst bæði um haustið að kenna við Iðnskólann án þess að ég hefði hugmynd um að hann væri þarna. Þetta kvöld á jólaballinu var ankerið sett niður af mér og Tomma sem er eiginmaður minn í dag. Það var samt ekkert létt hjá okkur Tómasi Jónssyni í byrjun sambandsins því hann Tommi minn var einstæður faðir þá með dóttur með downs-heilkenni. Að auki var hann tvífráskilinn sem þótti ekki gott afspurnar.

„Það var samt ekkert létt hjá okkur Tómasi Jónssyni í byrjun sambandsins því hann Tommi minn var einstæður faðir þá með dóttur með downs-heilkenni. Að auki var hann tvífráskilinn sem þótti ekki gott afspurnar.“

Allir í kringum mig spurðu hvort ég væri ekki frekar á leiðinni til LA í frekara nám, hvað ég væri að gera með honum. Fólk hafði verulegar áhyggjur af mér með einstæðum föður sem átti þrjár dætur og að ein þeirra væri þroskaheft. Ástin batt okkur saman og við fluttum inn hvort með sitt barnið á Njarðargötu, í hús sem hafði verið byggt af systrum ömmu minnar úr föðurætt og fjölskyldum þeirra. Ég hélt áfram að kenna við Iðnskólann, sótti um sem sviðsstjóri hönnunarsviðs skólans og stýrði því starfi í átta ár. Í dag kennum við hjónin enn í skólanum,“ segir Hrönn.

Svo liðu árin. Hrönn og Tomma langaði að eignast barn saman en það gekk ekki. Þau ákváðu eftir þriggja ára mislukkaðar hormónameðferðir og glasafrjóvgun að ættleiða barn frá Kína. Það tók önnur þrjú ár og gekk ekki snurðulaust heldur því yfirvöldum fannst þau eiga nóg af börnum. Þau sóttu aftur um ættleiðingu og eiga í dag tólf ára stúlku sem heitir Harpa.
„Við ættleiddum lítið tíu mánaða gamalt stúlkubarn frá Kína sem heitir Harpa Hua Zi Tómasdóttir. Þegar við sóttum hana loks til Kína þá var hún svo lítil að við þurftum að klæða hana í stærð 62/68 af ungbarnafötum. Hún var í bleikum bómullargalla þegar við sáum hana fyrst með límmiða framan á sér þar sem nafnið hennar stóð Hua Zi sem þýðir fallegt blóm á kínversku. Hún er einstaklega ljúf og glöð stúlka með marga hæfileika, meðal annars í badminton og tónlist. Við erum með hana eina hjá okkur heima í dag því sonur minn er fullorðinn maður, kominn með eigin fjölskyldu og dóttir Tomma fór til móður sinnar rétt áður en hún varð átján ára og býr þar,“ segir Hrönn.

Ævintýri í Hrísey

Þau hjónin búa í dag á Selfossi rétt við Ölfusá og keyra til höfuðborgarinnar í vinnu en þau eiga griðastað í Hrísey. Þar er hús sem kom upp í hendurnar á þeim má segja fyrir átján árum en hjónin eru greinilega óhrædd við að stökkva á tækifærin þegar þau gefast.

„Við leigðum okkur hús í eina viku í Hrísey sumarið 2001, vorum bæði að koma þangað í fyrsta sinn og leið strax vel á eyjunni. Það er einstök orka þarna fyrir norðan. Eftir vikudvöl vildum við ekki fara alveg strax heim aftur og spurðumst fyrir hvort hægt væri að leigja aðra íbúð í nokkra daga. Þannig kynnumst við honum Geira sem býr þarna allt árið um kring ásamt öðrum tæplega tvö hundruð íbúum eyjunnar. Þegar komið var að heimferð þá kom Geiri til okkar, bankaði á dyrnar og bauðst til að sýna okkur hús suður í ey sem síðar kom í ljós að var erfðabú en bróðir hans hafði búið þar en hann lést fyrr um vorið. Við löbbum með Geira að gömlu húsi og förum inn.

„Vá hvað þetta er æðislegt,“ sagði ég og hreifst strax af öllu þarna inni og gat ekki leynt hrifningu minni. Þegar Geiri sá hversu hrifin ég var þá spurði hann hvort við værum ekki svona ungt fólk sem breytir öllu innanstokks en við svöruðum því neitandi og sögðum að svona ætti húsið að vera. Við keyptum húsið í júlí það ár og er í dag uppáhaldsstaður fjölskyldunnar. Okkur Tomma fannst húsið mjög sjarmerandi í upphafi en í fyrra ræddum við við Geira, sem er níræður núna og góður fjölskylduvinur, að við yrðum að uppfæra húsið og endurnýja eftir öll þessi ár. Þær framkvæmdir standa yfir núna. Við eigum margar góðar minningar í tengslum við Hrísey og eigum góða vini á staðnum. Þessi eyja og samfélagið hefur haft svo mikil áhrif á okkur að þarna viljum við Tommi verða gömul.

Í Hrísey á hjarta mitt heima og því vil ég láta dreifa öskunni minni í hafið í kringum eyjuna þegar að því kemur. Hrísey er yndislegur staður og þarna langar mig í sumar að bjóða upp á HAF Yoga í vatni og Gong-slökun. Það er einstök orka fyrir norðan og mér er sagt að þarna sé græn orkusúla. Í Hrísey fer ég til að næra sálina mína og hlaða mig og veit að það gildir um fleiri. Það er skrýtið að ég hef búið hér og þar um jörðina, í Heidelberg, Berlín, Flórens, Mílanó, París, Odense, Dortmund og San Fransisco en vinninginn hefur litla eyjan Hrísey og þar líður mér best. Þetta er besti staður í heimi. Svo elska ég að sjá hvað ástvinum mínum líður vel þarna,“ segir Hrönn og brosir.

Konur ekki lengur brenndar á báli

Hrönn hefur mikinn áhuga á andlegum málefnum og hittir stundum næmt fólk sem horfir í gegnum hana og segir henni hvað sé fram undan. Eina slíka konu hitti hún fyrr á þessu ári sem sagði við Hrönn að hún hefði einstakan næmleika sem henni bæri að nota. Tíðarandinn væri svoleiðis að hún þyrfti ekki að óttast að koma fram því konur væru ekki lengur brenndar á báli þótt þær sinntu andlegum málum. Konan sagði að Hrönn þyrfti að virkja hæfileika sína en þora fyrst að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri næm og ætti ekki að hunsa þessi skilaboð.

„Já, það er skrýtið að segja það upphátt en mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota. Konan sagði að ég væri, ásamt fleirum, komin til að biðja fyrir heiminum. Ég yrði að virkja hæfileika mína og mætti ekki berjast á móti þessu í sjálfri mér. Við fæðumst öll með hæfileika en við þurfum að þróa þá og þjálfa. Við megum ekki hunsa meðfædda hæfileika okkar því þá verðum við vansæl.

„Já, það er skrýtið að segja það upphátt en mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota.“

Við verðum að hlusta á hjartað okkar og leyfa því að ráða för en þar er röddin sem leiðir okkur á réttan veg í lífinu. Ég fann hvað ég hafði gott af því að fara í gegnum kennaranám í HAF Yoga en þar opnuðust allar rásir í mér. Þarna er núvitund í kjarna sínum en í vatninu förum við djúpt inn í innri vöðva okkar og nærum sálina í leiðinni. Vatn er heilandi og er eitt af því sem hefur hjálpað mér að ná góðum líkamlegum bata eftir bílslysin. Ég hef verið í rosalega mikilli sjálfsvinnu eftir þessi áföll en þau hafa kennt mér margt og leitt mig á góðan stað í lífi mínu, stað sem mig langar að leyfa öðrum einnig að upplifa,“ segir Hrönn hlýlega að lokum.

 

Texti / Marta Eiríksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -