Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mun samkvæmt heimildum Mannlífs funda með stjórn KSÍ, sem sagði af sér í gærkvöld, í dag, enda telur hún afar brýnt að brugðist verði við nýliðnum atburðum innan samtakanna og tekið verði af festu á málefnum KSÍ.
Lilja Dögg hefur látið eftir sér hafa að grundvallarbreyting verði að eiga sér stað innan KSÍ eftir að fjölmargar ábendingar komu fram um ofbeldi landsliðsmanna og þöggun stjórnar KSÍ um þau, en eins og alþjóð veit sagði Guðni Bergsson af sér sem formaður KSÍ eftir að hafa sagt ósatt í viðtali á RÚV.
Hún hefur sagt að öll slík mál verði að vera uppi á borðum og að henni þyki afar sérkennilegt að landsliðsmenn geri þagnarskyldusamninga við þolendur en haldi ótrauðir áfram að spila með sínum félagsliðum en þó sérstaklega landsliðinu.
Samkvæmt sömu heimildum Mannlífs mun Lilja Dögg ræða stöðu Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ, en hart hefur verið lagt að Klöru að segja af sér, enda hefur hún verið lykilstarfsmaður KSÍ í um 20 ár. Klara hefur sagt að hún muni ekki segja af sér.
Búast má við að Lilja Dögg tjái sig í kvöld, eða á morgun um fundinn sem fram fer síðdegis.