Neytendur eiga að geta treyst því að vörur merktar íslenska fánanum séu í raun íslenskar.
Framleiðendur íslenskrar vöru eru gjarnir á að merkja hana íslenska þjóðfánanum til að undirstrika að hún sé í raun íslensk. Áður var þetta með öllu bannað en nú er heimilt að merkja vöruna með þessum hætti sé varan íslensk.
Varan þarf þó að vera framleidd á Íslandi úr íslensku hráefni en þó er heimilt að nota innflutt hráefni ef það er að mestu eða öllu leyti unnið hér heima. Þó má ekki nota aðflutta búvöru sem einnig er ræktuð hérlendis, t.a.m. kjöt, fisk, ull eða grænmeti.
Íslensk hönnun má bera fánann okkar þó hún sé framleidd erlendis en í þeim tilfellum þarf að koma fram hvar varan er framleidd.
Verði neytendur varir við misnotkun á notkun íslenska fánans sinnir Neytendastofa eftirliti með notkun hans í markaðssetningu og veitir jafnframt leyfi fyrir notkun hans í skráð vörumerki.