Á morgun tekur Ísland á móti Þýskalandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli og hefst leikurinn klukkan 18:45.
Aðgerðahópurinn Öfgar, í samstarfi við forvarnahópinn Bleika fílinn, mun halda samstöðufund fyrir utan Laugardalsvöll; samstöðufundurinn byrjar klukkan 17:00.
Ljóst er að aðgerðahópurinn er ekki sáttur við Arnar Þór Viðarsson þjálfara íslenska karlalandsliðsins og segja Öfgar í yfirlýsingu sinni að „landsliðsþjálfari hefur fengið að halda uppi skaðlegri orðræðu og versnar hver blaðamannafundurinn sem er haldinn. Við þurfum að sýna að við erum að fylgjast með, við ætlum ekki að leyfa þessu að líðast og að við stöndum með þolendum. Nauðgunarmenning á enga samleið með knattspyrnu og til að útrýma henni þurfum við að vera réttu megin við línuna.“
Og enn fremur að „það er mikilvægt að við náum fjölda til að sýna þjóðinni að við líðum ekki þolendaskömmun og gerendameðvirkni; sýna að við fordæmum það að landsliðsþjálfari smætti reynslu þolenda og setji ábyrgðina á vitlausan stað.“