Eva Hauksdóttir lögmaður spyr „af hverju taka konur sig saman um að segja frá kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum í stað þess að kæra til lögreglu?“
Hún svarar því þannig:
„Af því að það er tilgangslaust fyrir fórnarlömb kynferðisbrota að leita réttar síns. Af því að samfélagið er gegnsýrt af nauðgunarmenningu og brotaþolum ekki trúað nema ef þær skipta tugum sem benda á sama þrjótinn. Af því brotaþolar búa við þöggun en gerendur hafa aftur á móti greiðan aðgang að fjölmiðlum. Af því að allt heila helvítis kerfið er handónýtt, lögin sniðin að hagsmunum feðraveldisins, lögreglan gerendavæn, ríkissaksóknari harðbrjósta möppudýr og dómarar upp til hópa nauðgaravinir.“
Og Eva gefur ekkert eftir, bætir við:
„Nauðganir eru ekki kærðar af því að brotaþolar upplifa aðra nauðgun af hálfu réttarvörslukerfisins. Kynferðisbrotamál eru ekkert rannsökuð heldur felld niður að geðþótta lögreglu. Nauðgarar eru nánast aldrei sakfelldir. Þá sjaldan að þeir eru sakfelldir fá þeir væga dóma, venjulega skilorðsbundna. Ef ódámurinn er á annað borð sakfelldur eru brotaþola skammtaðar svo nánasarlegar miskabætur að það tekur því varla einu sinni að reyna. Ofan á allt saman eiga brotaþolar svo á hættu að vera ákærðir og refsað fyrir rangar sakargiftir eða dæmdir til að greiða miskabætur vegna meiðyrða.“
Heldur áfram:
„Þetta er myndin sem dregin er upp. Sem betur fer stenst hún ekki skoðun. Ég ætla ekki að ræða meinta þöggun fjölmiðla og gerendasamúð almennings að sinni en bendi á nokkur atriði tengd réttarkerfinu.
Það er ekki rétt, sem oft er haldið fram, að dómar í kynferðisbrotamálum séu venjulega skilorðsbundnir. Það er sjaldgæft að dómar vegna kynferðisbrota séu að öllu leyti skilorðsbundnir, það er þá helst þegar um mjög væg brot er að ræða og gerandinn barnungur. Ég hef enga úttekt séð sem styður þá kenningu að skilorðsbundnir dómar séu algengari í þessum brotaflokki en öðrum.
Dómar vegna nauðgana hafa þyngst á síðustu áratugum. Algengur dómur fyrir nauðgun án líkamsmeiðinga er á bilinu 18-24 mánaða fangelsi. Hvort það telst hæfilegt er auðvitað matsatriði en sú hugmynd sem virðist algeng – að dæmdir nauðgarar fái nokkurra mánaða skilorðsbundna dóma – er ekki í takti við veruleikann.“
Eva bendir á að „miskabætur á Íslandi eru almennt lágar en í kynferðisbrotamálum eru þær með skárra móti. Margir rugla saman miskabótum og skaðabótum vegna fjártjóns og halda til dæmis að æra þess sem er rekinn úr starfi sé meira metin en áfall konu sem hefur verið nauðgað. Í slíkum tilvikum eru bætur starfsmannsins að verulegu leyti vegna launamissis. Venjulega er ekkert fjártjón í kynferðisbrotamálum og bæturnar því að öllu leyti vegna miska, hugmyndin um að nauðgun sé en öðrum misgjörðum ódýrari byggir þannig á misskilningi.
Brotaþolar eiga ekki á hættu að vera sakfelldir fyrir rangar sakargiftir þótt þeir leiti réttar síns. Í sakamálum er gengið út frá sakleysi sakbornings. Það er ákæruvaldið sem þarf að sanna að sá sem sætir rannsókn vegna rangra sakargifta hafi vísvitandi farið með ósannindi, til þess að með réttu sé hægt að sakfella hann.“
Hún segir að brotaþoli eigi heldur ekki á hættu að vera sakfelldur í meiðyrðamáli.
„Það stendur upp á stefnanda að sýna fram á að hann hafi í raun orðið fyrir ærumeiðingum og það telst ekki ærumeiðing að segja sannleikann. Ef orð stendur gegn orði og engar aðrar sannanir fyrir hendi er ekki með neinum rétti hægt að sakfella þann sem segist hafa orðið fyrir broti eða orðið vitni að því. Það er aftur á móti hægt að sakfella þann sem ekki var í góðri trú um sannleiksgildi orða sinna og það telst ekki góð trú í skilningi laga að trúa alltaf brotaþola eða trúa öllu illu upp á einhvern vegna orðspors hans eða vegna þess að hann er til rannsóknar hjá lögreglu. Stuðningsmenn brotaþola geta því átt sakfellingu á hættu en ekki brotaþoli sjálfur.“
Eva talar um kerfið sem brást.
„Hefur réttarkerfið brugðist þolendum kynferðisbrota? Svarið er því miður já. Þessar hugmyndir um hræðilega stöðu fórnarlamba kynferðisbrota eiga sér rót í veruleika sem er eldri kynslóðum í fersku minni. Viðhorf til ofbeldis hafa breyst mikið á einum mannsaldri og það á við um alla flokka ofbeldis. Það þótti venjulega ekki tilefni til lögreglurannsóknar, fyrir 60 árum, þótt maður nefbrotnaði í slagsmálum á sveitaballi. Starfsmanni datt ekki í hug að sækja rétt sinn þótt yfirmaðurinn niðurlægði hann og hefði í hótunum við hann. Einelti á skólalóðinni var ekki talið vandamál skólans og foreldrar máttu nota flengingar sem uppeldisaðferð. Biðraðakáf kallaði kannski á viðbrögðin „hættu þessu ógjóið þitt“ en dóninn var ekki rekinn úr vinnunni, hvað þá landsliðinu. Vitaskuld endurspeglaði réttarkerfið ríkjandi viðhorf til ofbeldis og kynferðisbrota.“
Eva færir í tal dæmi:
„Ömurlegt dæmi er dómur vegna hópnauðgunar sem framin var á Skagaströnd árið 1970. Unglingsstrákar tóku sig saman um að nauðga 15 ára stúlku, ekki reyndar í fyrsta sinn, en þetta var í fyrsta sinn sem ákæra var gefin út. Dómarinn velktist ekki í vafa um að nauðgun hefði sannarlega átt sér stað en þótti rétt að skilorðsbinda dóminn, ekki aðeins vegna aldurs sakborninga heldur líka á þeirri forsendu að piltarnir hefðu nauðgað stúlkunni svo oft áður að þeir hefðu litið á það sem „hversdagslegan atburð, sem hefði engin eftirköst.“ Einnig nefndi dómarinn að hann hefði heyrt „við rannsókn málsins af fullorðnu fólki, að vísu tengt þeim ákærðu, að stúlkan væri allra gagn, jafn drengja, sem fullorðinna“ en tók þó fram að það ætti ekki að hafa þýðingu hvort þolandinn hefði á sér óorð. Ekki fylgdu því neinar skýringar hvaða tilgangi þessi athugasemd í dómi átti þá að þjóna.“
Og Eva segir að „engan skyldi undra þótt konur sem bjuggu við þetta réttarástand hafi verið tregar til að kæra kynferðisbrot.
Heimild: Vísir