Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Hallsteinn íþróttastjórnandi: „KSÍ núna í kjörstöðu til að stokka spilin upp á nýtt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallsteinn Arnarson hefur lokið meistaranámi (EMBA gráðu) í íþróttastjórnun (e. sports management). Í viðtali við Mannlíf ræðir Hallsteinn, sem lék áður fótbolta með Víkingi en þó lengst af með FH, um stöðu mála hjá KSÍ, námið sitt og fleira.

Hvað finnst þér um KSÍ málið?

Mín gagnrýni er á faglegu og málefnalegu nótunum. Ég hef verið gagnrýninn á hvernig æðstu stjórnendur KSÍ brugðust fyrst við í þessu máli. Nú veit ég ekki hvort þeir studdust við utanaðkomandi ráðgjöf, en mér fannst viðbrögð þeirra í fyrri yfirlýsingunni klaufaleg, illa ígrunduð, úr takti við samfélagsumræðuna go senda köld skilaboð til þolenda kynferðisbrota og aðstandenda þeirra. Maður veit ekki hvort þetta hafi verið einróma skoðun allra meðlima stjórnarinnar, en í svona erfiðum og flóknum málum, sérstaklega í umhverfinu sem við búum við í dag, verður að sýna þolendum nærgætni, samkennd, skilning og virðingu. Auk þess gerir samfélagið auknar kröfur til fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka um gegnsæi, vönduð vinnubrögð, nútíma stjórnarhætti og svo framvegis.

Áran yfir KSÍ hefur ekki verið góð í talsverðan tíma og mikið um orðróm um eitthvað slæmt.

Já, sögur um þessi meintu ofbeldismál hafa mallað undir yfirborðinu í mjög langan tíma, í fjölda ára. Ég var búinn að heyra eitthvað af þessum sögusögnum sem nú hafa komið fram og mikið er um fjallað. Þær urðu útbreiddari og stigmögnuðust með tímanum, voru í raun tifandi tímasprengja. Ég neita að trúa því að æðstu stjórnendur sambandsins hafi ekkert heyrt og vitað um þessi mál, eflaust vissu sum þeirra meira en önnur, en þau höfðu allavega nægan tíma til að gera eitthvað meira í málunum.

Hefur KSÍ brugðist rétt við varðandi orðróminn um ofbeldi landsliðsmanna?

- Auglýsing -

Mér finnst skrýtið að stjórnin hafi ekki kannað málin betur sjálf eða fengið óháðan aðila til að skoða þau ofan í kjölinn áður en þau komu fram með yfirlýsinguna, þó það hefði komið seint og eftir að Hanna Björg sagðist hafa gögn í höndunum sem studdu málstað þolenda. En ég veit svo sem ekkert um hvað fór fram innanhúss hjá KSÍ, kannski fór einhver slík vinna þar fram, en svona lítur þetta bara út fyrir mér horft að utan.

Þetta snýst ekki bara um hver er vondur og hver er góður, heldur frekar viðbrögð og úrvinnnslu. Ertu sammála því?

Stjórnendurnir hjá sambandinu eru ekki vont fólk og ég er ekki að dæma það sem persónur. Það gera allir mistök og sum eru dýrari en önnur. Að mínu mati vantaði þarna ákveðna sérþekkingu og hæfni til að geta tekið öðruvísi og betur á málunum og úr urðu afdrifarík mistök. Eftir að málin fóru á flug í fjölmiðlum, ákvað stjórnin loks að kanna þau nánar og væntanlega líka önnur tengd mál. Í framhaldinu sáu þau að sér og báðust afsökunar. Seinni yfirlýsing stjórnarinnar var fín, þar fann maður að minnsta kosti fyrir meiri auðmýkt og einlægni. Einnig kom þar fram að stjórnin hefði áður haft takmarkaðar upplýsingar. Það sýnir skýrt hversu mikilvægt það er í hraða upplýsingasamfélaginu að tryggja að maður hafi undir höndum öll helstu og rétt gögn til að geta tekið réttar ákvarðanir.

- Auglýsing -

Það er varla hægt að ætlast til af stjórnendum í íþróttastarfi að þeir séu sérfræðingar í kynferðisbrota- og ofbeldismálum, eða hvað?

Hafa ber í huga að ÍSÍ hefur fjallað mikið um Metoo byltinguna og hvernig bregðast skuli við í málum er snúa að áreitni, einelti, kynferðisbrotum og öðru ofbeldi í skipulögðu íþrótta- og æsku-lýðsstarfi. Hjá ÍSÍ starfar samskiptaráðgjafi, sem er sérfræðingur íslenska ríkisins í þess háttar málum.

Ef ég skil þetta rétt þá geta eða jafnvel eiga íþróttaeiningar hérlendis að vísa ábendingum og kvörtunum um meint brot sem kunna að koma upp hjá þeim til ráðgjafans og þar eiga þolendur að fá aðstoð með sín mál. En mér skilst líka að það sé ekki nema rúmt ár síðan samskiptaráðgjafinn hóf störf, þannig að ég veit ekki hvernig svona mál voru meðhöndluð fyrir þann tíma og hvort þolendur hafi verið sáttir við þá hjálp sem þeir fengu þá frá íþróttahreyfingunni. Sé grunur um möguleg lögbrot, er væntanlega æskilegast að tilkynna þau lögregluyfirvöldum.

Ég vil taka það alveg skýrt fram hér, eins og ég hef gert áður, að ég er alls ekki að gagnrýna allt starfsfólk KSÍ. Þar er almennt fólk að skila góðu starfi, m.a. nágranni minn sem ég veit að er fagmaður í alla staði. Formaðurinn gerði vissulega sín mistök, en mér heyrist að þessi mál sem um er rætt hafi átt sér stað fyrir hans tíma hjá KSÍ.

Hvers vegna ákvaðst þú að skella þér í meistaranám í íþróttastjórnun?

Það er smá saga á bak við það. Ég hætti að spila fótbolta með FH árið 2000. Þegar ég lít til baka og ber saman stöðu knattspyrnu- og íþróttamála hér á landi þá og nú er ljóst að framfarir hafa átt sér stað á ákveðnum sviðum. Líklega eru íþróttamennirnir okkar heilt yfir betri tæknilega og í betra líkamlegu formi, þjálfararnir eru með betri menntun og færari í sínu starfi og aðstaða til að iðka og keppa í íþróttum, sérstaklega knattspyrnu, er betri. Ennþá hallar þó á nokkrar íþróttagreinar, til dæmis frjálsíþróttir, varðandi aðstöðumálin.

Þurfum að gera meiri kröfur til stjórnenda

En þá komum við að stjórnendunum í íþróttastarfinu. Þar hefur ríkt, að mér finnst, ákveðin stöðnun í langan tíma á sama tíma og umfangið í íþróttastarfsemi hefur aukist verulega og starfsumhverfið breyst mikið. Þá á ég við að við verðum að gera meiri kröfur til stjórnenda um að þeir hafi faglega þekkingu og hæfni til að stýra íþróttastarfi. Ég tel og hef bent á að þetta sé mikill veikleiki í íþróttahreyfingunni almennt hér á landi og að mínu mati kom þessi vöntun á sérþekkingu a.m.k. að einhverju leyti fram hjá stjórnendum í KSÍ málinu.

Eftir að hafa starfað í fjármálageiranum hérlendis í um 20 ár, ákvað ég að hefja meistaranám í íþrótta-stjórnun (e. sports management) við Real Madrid Graduate School-Universidad Europea. Mig langaði að sækja mér sérfræðiþekkingu í stjórnun á íþróttasviði í gegnum nám sem væri í hæsta gæðaflokki og nota síðan þá þekkingu til að koma með nýjar hugmyndir og vinnubrögð inn í íslenskt íþróttalíf.

Fljótlega eftir að ég byrjaði í meistaranáminu varð mér ljóst hversu langt á eftir við erum hér heima varðandi stjórnendaþáttinn í íþróttastarfsemi. Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd að umsvif og umhverfi íþróttanna hefur breyst svo mikið á síðustu árum að það kallar á aukna sérþekkingu. Því þurfum við að fá fleira fagfólk í stjórnendastöður á sviði iþróttanna, sérstaklega í þær stöður sem krefjast mikillar sérhæfingar.

Hvað læra nemendur í íþróttastjórnun?

Nemendur í meistaranámi í íþróttastjórnun byrja á að læra allt það sama og kennt er í hefðbundnu EMBA stjórnenda- og viðskiptanámi, s.s. um fjármál, markaðsfræði, mannauðsmál, mannvirki, samskipti, stjórnun, og margt fleira; það er grunnurinn, en síðan læra þeir sérstaklega um flestallt sem viðkemur þessum málum og stjórnun almennt í íþróttastarfi. Það er svo margt sem er öðruvísi í íþróttunum en í heimi viðskiptanna. Þegar nemendur útskrifast skilja þeir vel eðli og starfsumhverfi íþróttanna og eru því vel undirbúnir fyrir leiðtoga- og stjórnunarstöður á þeim vettvangi. Ég get bætt því við að í náminu mínu var meðal annars fjallað um áreitni, einelti, andlegt og líkamlegt ofbeldi og aðra óæskilega hegðun í íþróttatengdri starfsemi.

 Hvernig er þessum málum háttað í öðrum löndum?

Ég þekki ágætlega til þessara mála erlendis því ég er virkur meðlimur í nokkrum leiðandi íþróttafag-samtökum á heimsvísu. Í mörgum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum er oft gerð sú krafa til lykilstjórnenda í íþróttastarfsemi að þeir hafi lokið háskólanámi í íþróttastjórnun, helst á meistarastigi. Til að mynda er talið æskilegt að íþróttastjórar (e. athletic directors) við bandaríska háskóla, sem stýra íþróttastarfi skólanna, hafi meistaragráðu í íþróttastjórnun. Utan landsteina Íslands er einfaldlega lögð ríkari áhersla á að íþróttastjórnendur búi yfir sérfræðiþekkingu á því sviði.

Að lokum, hvað viltu sjá gerast í framhaldinu hjá KSÍ?

Ég vil nú alls ekki tala eins og ég hafi öll svörin á hreinu, því fer fjarri. En ég held að það væri gott að menn hafi a.m.k. nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi þarf að útkljá með einhverjum hætti þessi útistandandi mál þannig að mögulega náist meiri sátt milli þolenda og gerenda. Hluti af því hlýtur að vera að fleiri gerendur axli ábyrgð og viðurkenni mistök sín. Það verður að setja málin í réttan farveg svo starfsmenn sambandsins geti einbeitt sér að þeirri miklu vinnu sem er framundan.

Í annan stað og þessu tengt er að það verður að gefa starfsfólkinu, þ.m.t. landsliðsþjálfurunum, frið til að geta sinnt að fullu vinnu sinni. Hlúa þarf vel að öllum starfsmönnum sambandsins og ráða inn fleiri starfskrafta telji menn þörf á því, sérstaklega fólk með menntun og/eða faglega þekkingu sem nýtist vel á sviði íþrótta.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna er að breyta ásýnd eða yfirbragði sambandsins til hins betra. Að menn skynji að vinnustaðurinn sé ferskur og lifandi, einkennist af góðum starfsanda og þar sem starfsmenn aðlaga sig fljótt og fumlaust að breytingum í samfélaginu, fylgjast vel með því sem er að gerast erlendis og eru snöggir að innleiða nýjar hugmyndir, bestu vinnubrögð og tækninýjungar.

Er KSÍ stofnun, og ef svo er, er sú stofnun orðin steingeld?

KSÍ hefur haft þann stimpil á sér, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að vera stofnun. Menn tala gjarnan um KSÍ “batteríið.” Að þar gangi hlutirnir hægt fyrir sig, og svo framvegis. Hvort sem það er rétt eða rangt, hefur maður heyrt að þetta sé upplifun fólks af samskiptum sínum við sambandið og sú ímynd af sambandinu sem greipt er í huga margra.

Í lokin vil ég segja að þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona stór áföll skella með þunga á íþrótta-sambandi eða íþróttaeiningu og sennilega ekki það síðasta. Krísum fylgja líka tækifæri og ég held að KSÍ sé núna í kjörstöðu til að stokka spilin upp á nýtt. Það mun taka sinn tíma fyrir sambandið að endurheimta traust og trúverðugleika, en með því að vinna vel í sínum málum næstu misseri getur knattspyrnusambandið síðar verið stolt af starfinu og mögulega verið öðrum gott fordæmi.

 

Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -