Síðustu ár hafa vinsældir svokallaðra augnháraseruma vaxið töluvert. Augnháraserum eru snyrtivörur í vökvaformi sem bornar eru á meðfram augnháralínunni. Þau eiga að vera þeim kostum gædd að geta lengt bæði og þykkt stutt og strjál augnhár.
Ekki virðist um neina snákaolíu vera að ræða. Ýmsar tegundir sýna gríðarlegan árangur og hafa vinsældir þeirra aukist í kjölfarið.
Vörurnar virka þannig að þær lengja náttúrulegan vaxtartíma augnháranna, sem gerir það að verkum að þau falla mun seinna og verða þar með töluvert lengri en áður.
Fyrsta augnháraserumið sem var þessum kostum gætt og bjó sannarlega yfir mælanlegri virkni var serumið Latisse. Latisse var búið til í Bandaríkjunum eftir að fyrirtækið sem framleiddi það, Allergan, komst að því að ein aukaverkun augndropa sem það framleiddi við gláku (Lumigan) var aukinn vöxtur og lengd augnhára sjúklinganna sem notuðu dropana.
Fyrirtækið tók því til við framleiðslu augnháraserumsins Latisse, sem innihélt sama virka efni og glákudroparnir. Þar sem Latisse var framleitt sem lyf þurfti Allergan að fá það samþykkt af Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA). Þegar það var í höfn bar fyrirtækinu skylda til þess að taka fram allar mögulegar aukaverkanir af seruminu eftir umtalsverðar prófanir, eins og á við um öll lyf.
Virka efnið í Latisse er eftirlíking af hormóninu prostaglandín. Eftirtaldar aukaverkanir geta komið fram við notkun á Latisse og koma til vegna virka efnissins:
Rauð augu, augnþurrkur (sem svo getur leitt til frekari vandamála), pirringur í augum, bólga í hornhimnu, litabreytingar á augnsvæðinu, aukning á brúnu litarefni í lithimnu augans, aukinn hárvöxtur í kringum augun (ef efnið berst reglulega í húðina umhverfis augnsvæðið).
Í kjölfar vinsælda Latisse fóru snyrtivöruframleiðendur að þróa sín eigin augnháraserum. Þau hafa hinsvegar almennt verið framleidd eingöngu sem snyrtivörur og því ekki farið í gegnum prófunarferli lyfjastofnana.
Þegar vel er að gáð eru þessi augnháraserum þó með samskonar virk innihaldsefni og Latisse; prostaglandínlíki.
Mörg þeirra eru seld hér á landi í hinum ýmsu verslunum. Dæmi um nokkur þeirra merkja sem seld eru á Íslandi eru:
Grandelash, Revitalash og iGlow.
Prostaglandínlíki, virku efnin í vörunum, eru skilgreind sem líffræðilega virk efni; þau hafa efnafræðileg áhrif á líkamann.
Önnur minna þekkt aukaverkun prostaglandínlíkja á augnsvæðið er breyting fitumyndunar í kringum augun. Fitufrumurnar geta minnkað, þannig að augun virðast sokkin. Ekki er þekkt hversu margir fá þessa aukaverkun, en hún virðist ekki vera algeng. Hún hefur sést við notkun á Latisse, en hefur líka verið rædd, en ekki formlega staðfest, af neytendum eftir notkun á öðrum augnháraserumum.
Í samtali við Mannlíf staðfestir Inga Ólafsdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfju, að allar þessar aukaverkanir geti sannarlega fylgt notkun augnháraseruma með prostaglandínlíkjum.
„Ég sjálf hef aldrei notað svona augnháraserum og ætla ekkert að vera að því,“ segir Inga.
Inga tekur fram að flestar aukaverkanirnar geti gengið til baka, sé notkun vörunnar hætt, en þær geri það þó ekki alltaf.
Hún segir að litabreytingar í lithimnu augans stafi af aukinni framleiðslu á melaníni, sem geti fylgt prostaglandínlíkjum, en melanín er litarefni húðar, hárs og augna okkar.
„Ég hef verið spurð hvort það sé sniðugt að nota þetta til að fá brúnni augu,“ segir Inga, en þegar hún er spurð hvert svar hennar hafi verið segist hún ekki hafa mælt sérstaklega með því. Það væru jú aðrar slæmar aukaverkanir sem gætu fylgt með.
Samkvæmt heimildum blaðamanns er ekki um að ræða heillitun á auganu. Litabreytingarnar geta birst á ólíkan hátt hjá fólki, til dæmis í formi brúnna flekkja á lithimnunni. Inga tekur undir þetta.
Inga tekur fram að alvarlegustu aukaverkanirnar séu sjaldgæfar. Hún segir einnig að þrátt fyrir að aukaverkanirnar geti sannarlega komið fram, sé magnið af virka efninu í umræddum augnháraserumum frekar lítið. Serumið sé líka ekki borið inn í augun, heldur meðfram efri augnháralínunni.
Ef efnið er notað rétt, á það því ekki að berast inn í augun í miklum mæli. Það er hinsvegar engin leið að tryggja það og eins og gefur að skilja er alltaf líklegt að eitthvað endi inni í augunum af vörum sem notaðar eru svo nálægt þeim. Auk þess hafa margar þessara aukaverkana áhrif á svæðið í kringum augun, eins og áður sagði.
Inga er sammála því að þrátt fyrir að aukaverkanirnar séu sjaldgæfar, sé þetta eitthvað sem neytendur þurfi að fá upplýsingar um.
Hjá þeim fjölmörgu verslunum sem selja ofantalin augnháraserum á Íslandi, er hvergi minnst á þau alvarlegu áhrif sem vörurnar geta haft.
Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: