Kári Stefánsson sagði í viðtali við TV 2 að sennilega muni Kórónaveiran ekki stökkbreytast í verra afbrigði en Delta afbrigðið sem leikið hefur heiminn grátt í sumar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV 2 en þar heldur Kári því fram að fólk þurfi ekki að óttast. „Ég held að Delta-afbrigðið verði mest smitandi afbrigði sem við munum sjá. Við ættum ekki að hafa áhyggjur af því að kórónuveiran eigi eftir að stökkbreytast og þróast í enn meira smitandi afbrigði en það,“ Þá vonast Kári að vísindamenn muni ná að búa til bóluefni sem eru enn betri en þau sem nú eru notuð. Þau komi í veg fyrir alvarleg veikindi en koma ekki í veg fyrir að fólk smitist. „Við þurfum svoleiðis bóluefni. Heppnist það getum við kvatt þessa veiru fyrir fullt og allt.“
Í umfjöllun sjónvarpstöðvarinnar er Ísland sagt sennilega eina landið í veröldinni þar sem jákvæð sýni hafi öll verið raðgreind. Því búi Íslensk erfðagreinin yfir þýðingarmiklum upplýsingum um þróun veirunna sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Kári segist halda að veiran hafi nú þegar stökkbreyst 50 milljón sinnum og það muni halda áfram. „Það eru líkur á að við fáum afbrigði sem séu jafn smitandi og Delta en ekki eins skaðvænleg. Markmið vírusa er bara að smitast en skaða hýsilinn sem minnst. Þeir vilja aðeins lifa af.“