Árið 1972 hrapaði flugvél úr 33 þúsund feta hæð eftir að sprengja sprakk í farþegarými hennar. Ótrúlegt en satt en ein manneskja lifði flugslysið af, hin 22 ára bosníska flugfreyja Vesna Vulović.
Vesna átti ekki að vera í þessari vél en mistök voru gerð og nafna hennar, Vesna Nicolié, var send í flugið sem henni hafði verið ætlað. Okkar Vesna ásamt fleirum flaug til Kaupmannahafnar til að leysa af áhöfn sem átti að hvílast og flaug því með flugi 364 júgóslavneska félagsins JAT þann 26. janúar 1972. Flug vélarinnar var frá Stokkhólmi til Belgrad með viðkomu í Kaupmannahöfn og Sagreb. Vesna var alsæl með ruglinginn sem gaf henni tækifæri til þess að sjá Danmörku í fyrsta sinn.
Sprengja undir sæti
Enginn vissi af stórri sprengju sem hafði verið komið fyrir undir sæti rétt fyrir framan vinstri væng vélarinnar. Það gerðu hryðjuverkasamtökin Ustache, öfgahægri-nasistasamtök í Króatíu, sem voru á þeim tíma ábyrg fyrir 20 öðrum árásum.
Sprengjan sprakk þegar flugvélin var í 33.000 feta hæð yfir borginni Srbska-Kamenice. Vélin brotnaði í tvennt og hrapaði til jarðar með 28 farþegum og áhöfn. Hrapið tók þrjár ógnarlangar mínútur áður en flugvélin rakst á fjallstind og sprakk.
Þýskur maður var fyrstur á vettvang og fann Vesnu. Hún lá undir líki og hluti af þjónustuvagni hafði stungist inn í bakið á henni. Maðurinn hlúði að henni eftir bestu getu þar til frekari hjálp barst. Hún var flutt á sjúkrahús og í fyrstu var henni ekki hugað líf. Hún reyndist vera með þrjá brotna hryggjarliði, mikla höfuðáverka og var fótbrotin á báðum fótum.
Eftir að hafa legið í dái í þrjá daga, vaknaði hún og bað um sígarettu. Hún reyndist vera lömuð fyrir neðan mitti. Tveimur vikum seinna fékk hún loks að vita hvað hafði gerst, sjálf mundi hún ekkert eftir slysinu.
„Ég er ekki heppin“
Seinna gekkst Vesna undir skurðaðgerð þar sem tókst að gefa henni mátt í fæturna. Í september, eða tæpum átta mánuðum eftir slysið, var hún orðin spennt að komast aftur til vinnu.
Hún mundi ekkert eftir slysinu og slapp því við andlegar afleiðingar þess, eins og martraðir og áfallastreituröskun. Hún horfði á flugslysamyndir án þess að það snerti hana meira en aðra.
„…ef ég væri heppin hefði ég aldrei lent í þessu slysi.“
„Ég er ekki heppin þótt öllum finnist það, ef ég væri heppin hefði ég aldrei lent í þessu slysi,“ var haft eftir henni.
Árið 1985 komst Vesna í Guinnes-heimsmetabókina fyrir að hafa lifað af hæsta fall allra án fallhlífar. Vesna lést 23. desember 2016 í Belgrad, 66 ára gömul.