Mbl.is greindi frá því rétt fyrir miðnætti að Grímseyjarkirkja væri brunnin til grunna. Ekki tókst að bjarga neinum verðmætum úr kirkjunni fyrir brunann.
Samkvæmt fréttinni staðfesti aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra, Kolbrún Björg Jónsdóttir, þessar fréttir. Engum varð meint af.
Kirkjan var timburhús og því mikill eldsmatur. „Þetta er auðvitað timburhús og það er vöktun á húsinu. Þeir áttu aldrei möguleika á að bjarga þessu. Það versta er afstaðið og svo kemur að rannsókn þar sem málin verða rannsökuð frekar,“ sagði Kolbrún í viðtali við mbl.is.
Nú er unnið að því að slökkva í glóðum á svæðinu. Ekki er vitað um eldsupptökin og að sögn lögreglunnar er ekki vitað til þess að einhver hafi verið í kirkjunni þegar eldurinn kviknaði.
Kirkjan var byggð 1867 en stækkuð og endurbætt árið 1932. Altaristaflan var gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og var eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci.