Framsóknarflokkurinn hefur síðustu ár glímt við nokkur fjárhagsvandræði, sem einnig á við um fleiri stjórnmálaflokka. Það er hinsvegar úrlausn þeirra vandræða, veðsetning og lántökur, sem vekja sérstaka athygli í tilfelli flokksins. Skuldir flokksins hafa verið færðar á silfurfati á milli banka án þess að sýnilegt sé hvaða rök eru þar að baki fyrir lánadrottnana.
Samkvæmt gögnum sem Mannlíf hefur undir höndum er slóð skulda- og lánamála Framsóknarflokksins sérkennileg. Athygli vekur að lánin sem Framsókn hefur fengið frá innlendum viðskiptabönkum er úr öllu samhengi við fyrirgreiðslur sem stjórnmálaflokkar njóta almennt í íslensku bankakerfi.
Í skjölunum má sjá að Arion banki tók yfir lán Framsóknarflokksins frá Kviku banka og Sparisjóði Austurlands árið 2019. Ekki er auðvelt að koma auga á haldbær rök fyrir þeirri ákvörðun út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.
Stuttu áður en Arion banki tók Framsóknarflokkinn upp á arma sína, fékk flokkurinn annað lán upp á 15 milljónir frá Sparisjóði Austurlands. Lánstíminn náði ekki heilum mánuði áður en Arion banki tók lánið yfir ásamt láninu frá Kviku banka. Slíkt verður að teljast í besta falli óvenjulegt.
Það er ein tenging milli Kviku banka og Arion banka sem vekur sérstaka athygli. Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason starfaði hjá hvorum bankanum um sig einmitt þegar umræddir bankar skrifuðu upp á lán fyrir Framsóknarflokkinn. Ásgeir Helgi er bróðir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í núverandi ríkisstjórn. Hann var yfir fyrirtækjasviði Kviku banka frá árinu 2015 fram til ársins 2019. Frá 2019 hefur hann sinnt starfi aðstoðarbankastjóra Arionbanka og verið framkvæmdastjóra fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs.
Lánsupphæðirnar eru háar og kjörin góð. Þegar Arion banki tekur skuldir Framsóknar við Kviku banka og Sparisjóð Austurlands yfir er það gert með 70 milljón króna láni bankans til flokksins, á þriðja veðrétti. Það er sérstakt að stór viðskiptabanki eins og Arion banki sætti sig við að lána svo háa fjárhæð á svo lágan veðrétt. Það er svo einungis nokkrum dögum síðar að gefið er út umboð til veðsetningar eignar félags í meirihlutaeign Framsóknarflokksins, á fasteign að Hverfisgötu 33, þar sem flokkurinn hafði aðsetur lengi vel.
Arion banki tók yfir lán frá Kviku
Málið er sérstakt meðal annars vegna þess að lausnin sem Framsóknarflokkurinn hefur fengið, fyrst frá Kviku banka árið 2017 og svo með yfirtöku lánsins frá Arion banka árið 2019, er eins og áður sagði úr samræmi við þá stefnu sem gengur og gerist hjá viðskiptabönkunum og svo vegna þess að lánakjörin eru sérlega hagstæð og bankinn einungis með þriðja veðrétt.
Tímalínan:
2017 – Veðskuldabréf fyrir Framsóknarflokkinn er gefið út af Kviku banka í júní árið 2017.
2018 – Þann 15 febrúar árið 2018 var gefin út yfirlýsing vegna viðauka, sem gaf Einari Gunnari Einarssyni, þáverandi framkvæmdarstjóra Framsóknarflokksins, fullt umboð fyrir hönd flokksins til að skuldbinda hann fyrir 50 milljón króna skuldabréfi hjá Kviku banka.
2019 – Tilkynnt er um að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason hafi verið ráðinn aðstoðarbankastjóri Arion banka þann 8. júlí 2019.
2019 – Sparisjóður Austurlands veitir Framsóknarflokknum lán upp á 15 milljónir króna á 4. veðrétti þann. 25. nóvember 2019. Sparisjóður Austurlands var þá á eftir ALF sparisjóði, sem var á 1. og 2. veðrétti og Kviku banka á 3. veðrétti. Þetta lán Sparisjóðs Austurlands stóð einungis í nokkra daga, áður en Arion banki gerði lánið upp við sparisjóðinn.
2019 – Stjórn Framsóknarflokksins veitir Helga Hauki Haukssyni fullt og ótakmarkað umboð til að stofna til lánaviðskipta við Arion banka þann 19. desember 2019.
2019 – Arion banki veitir Framsóknarflokknum 70 milljón króna lán á 3. veðrétti. Framsóknarflokkurinn gerir með því láni upp skuld flokksins við Kviku banka og Sparisjóð Austurlands.
2019 – Stjórn Skúlagarðs ehf., félags sem Framsóknarflokkurinn á meirihluta í, gefur út umboð til veðsetningar vegna lántöku, þar sem Helga Hauki Haukssyni er veitt fullt og ótakmarkað umboð til að veðsetja eign Skúlagarðs að Hverfisgötu 33 vegna lánaviðskipta Framsóknarflokksins við Arion banka.
Erfitt er að skýra ákvörðun Arion banka að taka yfir skuldir Framsóknarflokksins við Kviku banka út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. Síðustu ár hefur vilji viðskiptabankanna til að lána stjórnmálaflokkum verið takmarkaður, samkvæmt heimildum Mannlífs. Sömuleiðis er það ráðgáta hver ástæða lánsins frá Sparisjóði Austurlands var. Það er aukasnúningur sem erfitt er að sjá viðskiptaleg rök fyrir, enda var lánið gert upp af Arion banka minna en mánuði síðar.
Ekki náðist í Helga Hauk Hauksson, framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, við vinnslu fréttarinnar.