Skipherrann sem leystur hefur verið frá störfum tímabundið hjá Landhelgisgæslunni heitir Thorben Jósef Lund. Rannsókn er hafin innan Gæslunnar á meintri kynferðislegri áreitni skipherrans gagnvart tveimur konum sem vinna um borð í varðskipinu Tý.
Thorben tók við skipherrastöðu sinni á Tý ásamt öðrum skipherra í fyrra en alls eru þrír skipherrar við störf hjá Gæslunni. Ekki hefur Landhelgisgæslan viljað staðfesta að Thorben sé hinn meinti brotamaður og þannig losa hina skipherrana úr snörunni en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs er það Thorben sem hefur verið leystur frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir.
Sjá einnig: Frétt Mannlífs veldur usla hjá Landhelgisgæslunni – Skipherra Týs sendur í leyfi
Blaðamaður Mannlífs spurði forsvarsmenn stéttarfélaga bæði meintra þolenda og meints brotamanns um viðbrögð við fréttum um málið en báðir aðilar neituðu að tjá sig. Formaður stéttarfélags þolendanna sagði þó að félagið fordæmdi allt ofbeldi, kynferðislegt sem og annað ofbeldi.
Ekki hefur tekist að ná sambandi við Thorben Lund né aðra skipherra Landhelgisgæslunnar við gerð þessarar fréttar.
Sjá einnig: Segja konur áreittar og niðurlægðar á skipum Landhelgisgæslunnar