Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Skandalar stjórnmálamanna fyrr og síðar: – Grænar baunir, lögbann og ölvunarakstur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ýmis mál virðast ávallt skjóta upp kollinum í aðdraganda kosninga. Sum þeirra er hægt að flokka sem hneyksli; skandala sem jafnvel geta haft áhrif á úrslit kosninga. Alltaf virðist eitthvað vera um svokallaðar pólitískar smjörklípur, önnur mál varða alvarlegar uppljóstranir og sum eru nánast kómísk. Hér á eftir verður farið yfir nokkur hneykslismál sem eiga það sameiginlegt að hafa komið upp nálægt kosningum.

 

Samfylkingin Kristrún
Kristrún Frostadóttir

Kaupaukagreiðslur Kristrúnar Frostadóttur – grunsamlegt eða pólitísk smjörklípa?

Nú nokkrum dögum fyrir kosningarnar haustið 2021 birtist pistill í Viðskiptablaðinu þar sem því er haldið fram að Kristrún Frostadóttir, vonarstjarna og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður hafi fengið tugi milljóna úr kaupaukagreiðslum hjá Kviku banka, en Kristrún var aðalhagfræðingur bankans þar til hún ákvað nýverið að snúa sér að stjórnmálum og fara í framboð. Viðskiptablaðið setti þar fjárfestingu Kristrúnar í Kviku banka í samhengi við rannsókn Fjármálaeftirlitsins á Kaupaukakerfi Kviku.

Kristrún hefur vísað þessum málatilbúnaði öllum til föðurhúsanna.

Hún hefur gefið frá sér yfirlýsingu þess efnis að um sé að ræða fjárfestingu í Kviku banka sem öllu starfsfólki þar hafi boðist að taka þátt í á sínum tíma. Hennar fjárfesting hafi verið gerð með eigin sparifé og hún hafi falið í sér áhættu eins og aðrar fjárfestingar. Hefðu hlutabréf í Kviku banka staðið í stað eða lækkað hefðu hún og maður hennar tapað peningunum. Kvika hafi hinsvegar vaxið á þeim árum sem hún starfaði þar og fjárfestingin því reynst gjöful. Kristrún áréttar í yfirlýsingu vegna málsins að hún hafi ekki fengið krónu í kaupaukagreiðslu frá Kviku banka og að fjárfesting hennar komi rannsókn Fjármálaeftirlitsins á kaupaukagreiðslum Kviku ekkert við.

- Auglýsing -

Um sé að ræða bragð frá Viðskiptablaðinu og Morgunblaðinu og líklega samantekin ráð til að koma höggi á hana.

„Síðast þegar ég vissi mega fleiri en Sjálfstæðismenn taka þátt á hlutabréfamarkaði,“ segir Kristrún í yfirlýsingu sinni.

 

- Auglýsing -
Steingrímur Hermannsson

Steingrímur og grænu baunirnir

Árið 1987 var Steingrímur Hermannsson formaður Framsóknarflokksins, alþingismaður og framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs. Þetta sama ár, fyrir Alþingiskosningar, keypti Steingrímur grænar baunir ásamt öðru matarkyns fyrir Surtseyjarfélagið, sem hann gegndi formennsku í. Reikningur vegna þessara kaupa fannst svo í bókhaldi Rannsóknaráðs, en þar voru grænu baunirnar skráðar sem viðhald á bifreið Rannsóknaráðs.

Mál þetta er gjarnan afgreitt sem stormur í vatnsglasi, jafnvel dálítið kómískur stormur. Það sem fylgir þó ekki alltaf sögunni er að ýmsir höfðu sett út á fjármál Rannsóknaráðs á meðan Steingrímur var framkvæmdastjóri þess. Fjárútlátin þóttu óeðlilega mikil og fjöldi utanlandsferða sem greiddar voru af Rannsóknaráði úr hófi. Þetta skrifaði Þorsteinn Sæmundsson til dæmis töluvert um árið 1971. Ríkisendurskoðun gerði einnig athugasemdir við fjárreiður Rannsóknaráðs vegna ársins 1969 á fjórtán blaðsíðum.

Steingrímur Hermannsson kallaði grænubaunamálið „ótrúlega lélegt pólitískt klámhögg“.

 

Mynd/skjáskot: RÚV

Lögbann Stundarinnar

Þann 16. október árið 2017 samþykkti Sýslumaðurinn í Reykjavík að leggja lögbann á umfjallanir Stundarinnar. Þetta átti við um viðskipti Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Það var þrotabú Glitnis sem krafðist lögbannsins, en þetta var einungis um tveimur vikum fyrir komandi Alþingiskosningar.

Fréttir Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar og samskipti hans við Glitni í aðdraganda hrunsins voru unnin af fjölmiðlinum upp úr gögnum sem bárust innan úr Glitni, í samstarfi við Reykjavík Media og breska blaðið Guardian.

Fjallað var um hvernig Bjarni hafi selt allar eignir sínar, fyrir rúmlega 50 milljónir króna, í Sjóði 9 í Glitni dagana 2. – 6. október árið 2008 og með því komið í veg fyrir að hann tapaði peningum í bankahruninu dagana á eftir. Sömuleiðis hafi hann upplýst framkvæmdastjóra hjá Glitni um vinnu Fjármálaeftirlitsins í hruninu. Einnig björguðu ættingjar Bjarna háum fjárhæðum með sama hætti.

Á þessum tíma var Bjarni alþingismaður og hafði því aðgang að upplýsingum um stöðu Glitnis, en hann hafði setið fundi um slæma stöðu bankans og fjármálakerfisins. Sömuleiðis hafi Bjarni selt hlutabréf sín í Glitni í febrúar 2008 – en salan hófst einungis tveimur dögum eftir að hann fundaði með bankastjóra Glitnis.

Glitnir HoldCo krafðist þess að Stundinni yrði gert að afhenda gögn sem umfjöllun miðilsins byggði á, láta af umfjöllun sinni og eyða öllum fréttum sem birst höfðu um málið á vef fjölmiðilsins. Glitnir HoldCo tilkynnti Fjármálaeftirlitinu einnig um brot á bankaleynd með fréttaflutningnum.

Það var ekki fyrr en 22. mars árið 2019 að málinu lauk með fullnaðarsigri Stundarinnar og Reykjavík Media fyrir Hæstarétti.

 

Birgir Dýrfjörð

Alþýðuflokkurinn leggur ekki til atlögu

Mannlíf sló á þráðinn til Birgis Dýrfjörð. Birgir er ýmsum kunnugur, en hann er meðlimur í flokksstjórn og stjórn fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík, fyrrum varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, meðlimur í Alþýðuflokknum um árabil og formaður Ungra jafnaðarmanna á árum áður. Hann lumaði meðal annars á sögu úr bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði frá árinu 1958.

Birgir lýsir því að það hafi verið mikill hiti í kosningunum og Sjálfstæðisflokkurinn sótt mjög fast að. Mjótt var á munum milli Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Birgir segir frá því hvernig efsti maður á lista hjá Sjálfstæðisflokknum hafi rekið verslun í bænum á þessum tíma.

„Og síðan kemur það upp að menn þykjast hafa sönnur fyrir því að verslunin hafi stolið undan söluskatti. Þá var ekki vaskurinn kominn, kerfi sem passar sig sjálft, og menn töldu að það væri hægt að leggja á borðið að hann hafi stolið undan söluskatti,“ segir Birgir.

Ef þetta hefði reynst satt hefði það vitanlega farið mjög illa með kosningabaráttu Sjálfstæðismanna, hefði málið ratað til almennings. Birgir segir að sennilega hafi þetta verið á miðvikudegi eða fimmtudegi fyrir kosningar.

„Bara rétt ofan í kosningar og hefði þá farið í blað og verið borið í hvert hús í bænum í Hafnarfirði,“ segir Birgir.

Birgir lýsir því hvernig hann hafi á þessum tíma verið formaður Ungra jafnaðarmanna og því verið staddur á fundi þar sem verið var að leggja lokahönd á síðustu atriðin fyrir kosningarnar. Alþýðublaðið í Hafnarfirði hafi átt að koma út annað hvort daginn eftir eða einum degi síðar – semsagt eins nálægt kosningum og hægt var. Hann segir þá mál verslunareigandans og forystumanns Sjálfstæðisflokksins í bænum hafa komið upp. Á fundinum hafi Emil Jónsson, foringi Alþýðuflokksins, verið staddur og hann hafi farið að spyrja út í málið. Emil hafi viljað vita hvenær blaðið og þar með fréttin ætti að koma út og fékk það svar að einn dagur yrði á milli útgáfu blaðsins og kosninganna.

„Og þá segir Emil: „við getum ekki birt þetta“ og það hrukku nú eiginlega allir við. Hvað veldur? „Maðurinn hefur enga möguleika á að svara fyrir sig. Þetta er svo stutt. Við getum ekki birt þetta,“ sagði hann. Þetta situr svolítið í mér. Ég bar mikla virðingu fyrir Emil, mjög mikla, og hafði dálítið mikið saman við hann að sælda. En ég varð fyrir ógurlegum vonbrigðum þarna eins og allir hinir. Þarna gátum við tekið helvítis íhaldið í nefið,“ segir Birgir og hlær.

„Heyrðu þá kemur bara yfirforinginn og segir: „Við getum ekki birt þetta. Bara getum það ekki. Maðurinn hefur engin tækifæri til að svara fyrir sig.“ Þetta var svona öfugur skandall.“

Svo fór að Alþýðuflokkurinn fékk 40,7 prósent fylgi í sveitarstjórnarkosningunum, á móti 41,9 prósenti Sjálfstæðisflokksins.

 

Mynd / Hallur Karlsson

Eyþór Arnalds ók á staur

Árið 2006 var Eyþór Arnalds efstur á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg. Í maí sendi Eyþór frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist mundu draga sig út úr kosningabaráttunni. Ástæðan var sú að nóttina áður hafði hann verið tekinn fyrir ölvunarakstur. Eyþór sagði að næði hann kjöri í Árborg myndi hann taka sér frí frá störfum sem bæjarfulltrúi meðan á máli hans stæði. Hann ætlaði sér einnig að fara í áfengismeðferð.

Eyþór svaraði fyrirspurnum fréttamanna á þann veg að hann hafi verið í sextugsafmæli þar sem hann hafi drukkið vín með mat. Síðan hafi hann ekið á staur. Eyþór sagðist þá hafa vikið úr bílstjórasætinu og farþeginn tekið við akstrinum. Lögreglan hafi svo stöðvað þau í Ártúnsbrekku. Þegar lögreglan stöðvaði þau kvaðst Eyþór ekki hafa náð að tilkynna atvikið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu höfðu Eyþór og unnusta hans bæði verið ölvuð. Eftir að hafa ekið á staurinn hafi þau flúið af vettvangi en vegna tilkynningar vegfaranda hafi þau náðst í Ártúnsbrekku. Eyþór var sagður hafa gist fangageymslur en að honum hafi verið sleppt morguninn eftir þegar játning lá fyrir.

 

Ágúst Ólafur Ágústsson

Ágúst Ólafur og uppstillinganefndin

Í byrjun þessa kosningaárs, 2021, urðu nokkrar deilur innan Samfylkingarinnar um uppröðun á lista flokksins. Deilurnar snerust um veru Ágústs Ólafs Ágústssonar þingmanns á lista flokksins fyrir komandi kosningar.

Ágúst Ólafur sóttist eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík-Suður. Uppstillinganefnd flokksins ákvað að verða ekki við ósk hans og veita honum ekki baráttusæti á lista, eftir að hafa greitt um það atkvæði – fjögur atkvæði á móti þremur. Í kjölfarið ákvað Ágúst Ólafur að taka sér ekki sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar.

Ágúst Ólafur fór í desember árið 2019 í tveggja mánaða ólaunað leyfi frá þingstörfum eftir að hafa verið veitt áminning af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar. Áminningin var veitt eftir að blaðakonan Bára Huld Beck upplýsti nefndina um kynferðislega áreitni og niðurlægingu sem hún varð fyrir af hendi Ágústs Ólafs.

Ágúst Ólafur lengdi leyfið að tveimur mánuðum liðnum og sótti áfengismeðferð hjá SÁÁ.

Töluvert ósætti blossaði upp innan stjórnar Samfylkingarinnar vegna útskúfunar Ágústs Ólafs. Sumir vildu meina að þarna færi flokkurinn illa að ráði sínu, því fylgi hans hefði mælst mjög gott í Reykjavík-suður undir stjórn Ágústs Ólafs, í skoðanakönnun Gallup. Aðrir voru á því að í ljósi fyrrnefnds máls ætti hann ekki heima svo ofarlega á lista flokksins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -