Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á erfitt eftir að rúmlega helmingur þingflokks hans hvarf út í buskann og eftir stendur þriggja manna þingflokkur þar sem sjö sátu áður. Miðflokkurinn fékk rúmlega 5 prósenta fylgi og rétt skreið yfir þau landamæri lífs og dauða sem færa flokkum þingsæti. Frægt var þegar Sigmundur var felldur af stóli formanns Framsóknarflokksins og hann rauk á brott af fundinum í fússi. Sigurður Ingi Jóhannsson tók þá við flokknum og vann núna stórsigur. Svipað er uppi á teningnum núna. Sigmundur hafði boðað komu sína í Silfrið en afboðaði sig á seinustu stundu í stað þess að taka ósigri sínum með sóma.
Afhroð Miðflokksins er ekki síst rakið til framgöngu flokksmanna og tveggja þingmanna Flokks fólksins á Klausturbarnum þar sem þeir voru að niðurlægja mann og annan í ölæði, sumir hverjir.