„Maður á ekki orð,“ sagði Karl Gauti Hjaltason nú í morgun í viðtali við Mannlíf.
Þar var hann spurður út í atburðarásina sem átti sér stað í Norðvesturkjördæmi.
Atkvæðin voru talin aftur sem breytti úrslitum kosningana töluvert. Auk þess var ekki farið eftir lögum þegar kom að kjörseðlum en voru atkvæðin ekki innsigluð heldur geymd í læstu herbergi.
Ekki er vitað hversu margir gætu hafa haft aðgang að herberginu.
„Það er ekki verið að innsigla gögnin, þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum,“sagði Karl Gauti og hefur hann margar spurningar varðandi atburðarásina.
Hann spyr sig hvort haldinn hafi verið fundur, og hvenær hann hafi farið fram. Hverjir hafi setið þann fund ef hann fór fram og hvers vegna lokatölur hafi verið gefnar út.
„Þetta hlýtur að verða kært, þetta er óásættanlegt að svona gerist,“sagði Karl og bætti við að þetta væri gríðarlega alvarlegt, fyrir lýðræðið.
Þá sagði hann ekki nóg að menn skiptist á yfirlýsingum um atburðarrásina heldur þyrfti lögreglan að rannsaka málið.
„Lögreglan þarf náttúrulega að upplýsa atburðarrásina í þessu máli, það er alveg augljóst“.