Í kjölfar mistaka við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi og endurtalningar í kjölfarið hafa margir enn á ný farið að velta fyrir sér kosningafyrirkomulaginu og vægi atkvæða eftir landshlutum.
Í hópnum Pírataspjallið 2 hefur orðið til einn slíkur þráður. Víðir byrjar umræðuna með upphafsinnleggi á þennan veg:
„Misjafnt vægi atkvæða er gott. Það er til að jafna vægi landsbyggðarinnar móti yfirráðum SV hornsins. Svo allir hafi eitthvað um stjórnun landsins að segja. Jákvæð mismunun.“
Ekki virðast allir sammála þessari greiningu Víðis.
Haraldur nokkur er afdráttarlaus í svari sínu: „Misjafnt vægi atkvæða er einfaldlega mannréttindabrot.“
Víðir spyr hann hvernig það geti verið. Hann segir jákvæða mismunum oft vera notaða til að jafna út misvægi.
„Íbúafjöldamisvægi? Fermetrastærðarmisvægi? Hvernig er hægt að réttlæta þetta?,“ spyr Helga.
Einar er sömuleiðis á öndverðum meiði við Víði:
„Mismunun er brot á jafnræðisreglunni. Eins þótt hún sé skreytt með jákvæðum orðum.“
Víðir stendur hinsvegar á sinni skoðun:
„Hvernig er hægt að réttlæta þetta?? Nú með því að gefa öllum landsmönnum færi á að hafa áhrif á stjórnun okkar lands. Ekki bara fjöldanum í Borginni. Þetta er ekki bara á Íslandi sem jákvæð mismunun er notuð. Í pólitík í fleiri löndum, vinnumarkaðinum, skattkerfum. Fullt af allskonar. Einmitt til að jafna hinar ýmsu stöður.“
„Nei, misjafnt vægi atkvæða er gróf mismunun og við ættum að kæra það til mannréttindadómstólsins! Og já ég myndi segja að lýðræðið sé fótum troðið ef það á að taka þessar kosningar gildar og hundsa lögin sem þarna voru brotin!,“ segir Guðrún.
Sigurður skýrir málið á eftirfarandi hátt:
„Misjafnt vægi atkvæða er slæmt. Ef öll atkvæði vega jafnt hafa allir jafnmikið um stjórnun landsins að segja, þ.e. hvernig á að stjórna landinu og hverjir eiga að gera það. Misvægi atkvæða skekkir þá mynd sem kosningar eiga að gefa af þjóðarviljanum þannig að líkur á að flokkar sem eiga meira fylgi í dreifbýli komist til valda eru auknar en líkur á að flokkar sem eigi meira fylgi í þéttbýli komist til valda eru minnkaðar. Því hefur stundum verið haldið fram til réttlætingar á misvæginu að kjósendur í dreifbýlinu hafi lakara aðgengi að stjórnsýslunni en kjósendur í þéttbýlinu, en það er varla rétt lengur, auk þess sem misvægið breytir engu um þetta aðgengi.“
Eins og kunnugt er orðið var það vegna mistaka við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi sem úrslit kosninganna breyttust, þegar töluverður tími var liðinn frá því að tilkynnt var um þau.
Með breyttum úrslitum var úti um þá sögulegu staðreynd að í fyrsta sinn yrðu konur í meirihluta á Alþingi og Ísland fyrsta landið í Evrópu sem fengi þann stimpil.
Eftir endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi eru karlar aftur orðnir fleiri á þingi, en það er til að mynda miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason sem kemst inn á þing sem jöfnunarþingmaður í Norðvesturkjördæmi.
Lenya Rún Taha Karim, sem komin var með sæti á þingi fyrir Pírata og hefði orðið yngsti þingmaður frá upphafi sem og fyrsta brúna manneskjan á Alþingi, er ein þeirra sem misstu sæti sitt við endurtalninguna.
Það er vegna misjafns vægis atkvæða eftir kjördæmum sem endurtalningin í Norðvestur hefur svona mikið að segja. Nú er meðal annars þetta misræmi í vægi atkvæða sem tekist er hart á um, reyndar ekki í fyrsta sinn.