Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar rúta með 20 manns innanborðs fauk út af veginum á leið sinni austur á Hvammstanga um hádegisbil í dag.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, upplýsti að ekki hefðu orðið nein stórslys á fólki.
Slæmt veður er á norðanverðu landinu í dag og afar hvasst. Að sögn Davíðs eru björgunarsveitir í startholunum þar sem veður er hvað verst, svo hægt sé að kalla hópa út með litlum fyrirvara.
Björgunarsveit var kölluð út á slysstað og vann að því að koma fólki úr rútunni og á hótel í grenndinni.
„Við hvetjum fólk til þess að vera meðvitað um það að það er kominn vetur og það getur verið slæm færð. Það er mikilvægt að fylgjast með færð á vegum og veðurspám áður en haldið er af stað, sérstaklega hvað varðar ferðalög á milli landshluta,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is, en svipuð spá er fyrir morgundaginn og því mikilvægt að vera við öllu búinn.