Helgi nokkur var ekki par hrifinn af þjónustunni sem hann fékk á skyndibitastaðnum Pizzan nýverið. Honum finnst hann einfaldlega hafa verið illa svikinn á staðnum.
Helgi gerir upplifun sína að umtalsefni í fjölmennum hópi matgæðinga á Facebook, Matartips. Þar segir hann:
„VÖRUSVIK. Pantaði 16 tommu pizzu á Pizzan. Sótti hana og sá strax að hún var engar 16 tommur. Þegar ég fann að þessu við yfirmann sagði hann ÞETTA ERU 16 tommur og ekkert röfl. Sló á hana tommustokk þegar ég kom heim og hún reyndist 13 tommur. Það sem sagt vantaði 50% uppá að hún væri það sem ég borgaði fyrir. Hafa aðrir svipaða reynslu af PIZZAN?“
Fjölmargir úr hópnum lýsa yfir óánægju sinni með þessa frásögn Helga. Emma nokkur virðist hafa lent í svipuðu hjá Pizzunni. „Ok vá gott að vita að ég er ekki sú eina sem hefur mælt pizzu. Fjölskyldan pantaði nokkrar frá Pizzunni um daginn og allar komu þær pínulitlar og voru því ekki nægur matur,“ segir Emma.