Sérkennilegt ljóst sást á himni yfir Þorlákshöfn, stuttu fyrir klukkan tíu í kvöld. Ljósið var sýnilegt í um það bil 5-7 mínútur á meðan það flaug norður yfir bæinn.
Rúv.is greindi fyrst frá þessu en það var Sandra Björk Ragnarsdóttir og maður hennar, bæði íbúar Þorlákshafnar, sem náðu myndbandi af fyrirbrigðinu og sendu það á fréttastofu Rúv. Segir Sandra Björk að ljósið hafi sést í um það bil 5 til 7 mínútur áður en það fór norður á bóginn og bakvið ský í áttina að Ingólfsfjalli.
Sandra Björk sagði í samtali við fréttamann Rúv að fyrirbærinu hafi ekki fylgt nein hljóð heldur hafi það svifið yfir himininn alsendis hljóðlaust. Hún sagðist ennfremur ekki viss hversu hátt ljósið var á himni en að það hafi horfið bakvið ský sem gefur einhverja vísbendingu um hæðina.Útiloka hjónin að dróni hafi verið þarna á ferð þar sem ljósið hafi verið það hátt á himni og þar að auki hafi engin blikkandi smáljós sést á hlutnum. Aukinheldur segja þau að þau geti útilokað halastjörnu því halastjörnur draga á eftir sér lýsandi slóða en þetta fyrirbæri hafi lýst á undan sér, eins og ljóskastari.
Fréttastofa Rúv hafði samband við sérfræðing Veðurstofu Íslands, Salóme Jórunni Bernharðsdóttur. Hún sagði að henni hefði borist svipuð tilkynning frá Vestmannaeyjum og samkvæmt lýsingu er þar um sama hlut að ræða.