„Rosaleg hækkun á núðlum í Bónus Reykjanesbæ. Hefur hækkað úr kr. 37 í kr. 55 sem gerir 49% hækkun. Takk fyrir Bónus,“ segir Ómar í færslu sinni í hópnum Vertu á verði- eftirlit með verðlagi.
Nokkuð hefur borið á verðhækkunum í kjörbúðum síðustu misseri og neytendur benda reglulega á það hvernig innkaupakarfan sé farin að éta upp veskið, líka í búðum sem eiga að heita þær ódýrustu í verðlagskönnunum.
Þessi hækkun á núðlum verður að teljast lýsandi dæmi, því þó svo núðlurnar geti seint talist dýrar er hækkunin ákaflega mikil í prósentum. Þarna væri hægt að tala um núðluvísitölu.
„Já hef tekið eftir þessu, færð orðið engar núðlur undir 50 kr (var að kaupa þetta á 18 og 21 kr fyrir ekki svo löngu),“ segir Fríða í athugasemd undir færslu Ómars.
Arnar spáir alheimskreppu í athugasemd sinni:
„Takk fyrir Bónus? Èg held að þið ættuð að kanna aðeins hvað er að gerast í heiminum. Það eru allar matvörur að fara hækka allhressilega næstu mánuði og flutningskostnaður er alveg að tífaldast í verði. Kæmi mér bara ekkert á óvart að alheimskreppa gæti orðið ef þetta heldur svona áfram.“
„Verðhækkanir hjá Bónus sem er okkar matvöruverslun hefur valdið okkur meiri erfiðleikum fyrir rekstur heimilisins en okkur óraði fyrir. Þvílík vonbrigði,“ segir Paul.
Kristín bendir á fleiri hækkanir hjá Bónus:
„Það hefur allt hækkað í Bónus. Kaffið mitt hækkaði frá 549 kr í 659 kr á þessu ári.“
Einar tengir þetta við gjaldmiðilinn:
„Ömurlegt að vera með þessa ónýtu krónu. Þetta er bara það sem koma skal. Svona hefur þetta verið í áratugi.“
„Sá þetta í dag og ég kaupi núðlur í hverri viku finnst þetta orðið geðveiki,“ segir Hugrún.