Guðrún Hrund Sigurðardóttir, fyrrverandi ritstjóri og myndlistarmaður, lést á líknardeild Landspítalans 3. september 2021 eftir baráttu við krabbamein.
Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1981 og kennarapróf frá textíldeild kennaraháskólans 1985. Þá útskrifaðist hún sem fatahönnuður frá Københavns mode- og design skole 1989. Lengst af starfaði hún sem fatahönnuður og kennari en á árunum 2001-1012 var Guðrún Hrund blaðamaður, stílisti og síðar ritstjóri tímaritsins Gestgjafans. Hún þótti einstakur samstarfsmaður og naut vinsælda.
Allt til dánardags var Guðrún Hrund sjálfstætt starfandi myndlistarmaður. Nú síðast í gallerí Art67 á Laugavegi.
Margir minnast Guðrúnar Hrundar í minningargreinum. Dóttir hennar minnist móður sinnar á fallegan hátt. „Mamma var svo jarðbundin og gaf góð ráð. Öllu sem lífið lagði á mömmu mætti hún af jákvæðni og bjartsýni. Stundum fannst mér hún óhóflega bjartsýn en það var eflaust hennar leið til að komast í gegnum erfiðleika. Mamma lét veikindin aldrei stoppa sig í því sem hana langaði að gera. Allt fram á síðasta dag talaði hún um jólin og hvað hún ætlaði að gera með okkur. Engin uppgjöf eða neikvæðni. Það dýrmætasta sem mamma hefur gefið mér er vinátta okkar systkina. Það er ómetanlegt að eiga bróður sem er manns besti vinur. Enda spurði ég mömmu oft hvernig ég ætti að haga uppeldinu á stelpunum til að þær verði eins miklir vinir og við Lalli.“
Tengdadóttir Guðrúnar Hrundar minnist glæsilegrar tengdamóður. „Ég man svo skýrt daginn sem við hittumst fyrst, ég var svo stressuð en samt svo ótrúlega glöð. Þegar ég kynntist þér þá áttaði ég mig á því að tíminn skilgreinir ekki hversu mikið maður getur elskað einhvern. Hversu mikið maður getur dáðst að og virt einhvern. Svo komst þú mín kæra tengdamamma – svo glæsileg og svo einstök. Svo elegant og fínleg og viðhorf þitt til lífsins.“
Þá minnist bróðir hennar á hana einnig. „Ég kvaddi Guju í huganum og hún mig rúmri viku áður en hún fór. Það var ekki eiginleg kveðjustund því eins og ég sagði við hana: „Ég mun ekki kveðja þig því þú verður hjá okkur áfram.“ Minningarnar og áhrifin sem hún hafði á mig munu lifa með mér alla tíð.“
Mannlíf þakkar Guðrún samfylgd og vottar ættingjum hennar samúð.