- Auglýsing -
„Í stöðunni mæla fá rök gegn því að ríkisstjórnin haldi áfram með Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Á endasprettinum vann VG viðunandi varnarsigur í mjög þröngri stöðu. Lokabaráttan byggðist fyrst og fremst á Katrínu, og varnarsigurinn má því túlka sem persónulegan sigur hennar. VG lifði af samsteypustjórn með Sjálfstæðisflokknum og með miklum kosningasigri Framsóknar – sem byggðist eingöngu á félagslegum áherslum – verður VG lífið léttara í ríkisstjórninni og flokknum auðveldara að ná fram grunnáherslum sínum,“ segir Össur Skarphéðinsson og bætir við:
„Sjálfstæðisflokkurinn fékk næstverstu útkomu í sögu sinni. Hann er því ekki í aðstöðu til að krefjast eins eða neins. Ef beinið í nefi Sigurðar Inga er jafn þykkt og ég held, er ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi hugsanlega að gefa eftir eitthvert af þungavigtarráðuneytunum sem hann fer ennþá með.
Sigurður Ingi er klókur stjórnmálamaður. Hann veit mætavel að það voru félagslegar áherslur sem sprungu út í gegnum barnamálaráðherrann Ásmund Einar sem voru lykill að ótrúlegum endaspretti flokksins. Honum líður vel í núverandi stjórn og líkar vel að vinna bæði með Katrínu og Bjarna Benediktssyni. Hann er líka nógu klókur til að skilja að VG myndi aldrei fallast á áframhaldandi stjórnarþátttöku nema Katrín Jakobsdóttir haldi áfram sem forsætisráðherra.“
Össur segir að „Sigurður Ingi getur hins vegar notað nýtt afl Framsóknar til að krefjast þess að Framsókn fái sterkari ráðuneyti sem endurspegla nýja og miklu sterkari stöðu flokksins. Fyrir Framsókn væri skynsamlegast að sækjast eftir því að fá til sín aflstöð ríkisins, fjármálaráðuneytið, og að Sigurður Ingi verði sjálfur fjármálaráðherra.“
Einnig segir Össur að „framundan eru veltu- og vaxtatímar með mikilli tekjuaukningu ríkissjóðs. Með fjármálaráðuneytið undir sér getur Framsókn staðið undir væntingum nýrra kjósenda hennar um félagslegar úrbætur, og Sigurður Ingi tryggt auknar fjárveitingar, til dæmis til menntamála og málefna barna, að ógleymdum öryrkjum og eldri borgurum.
Hafi Sjálfstæðisflokkurinn ekki áhuga á slíkum býtum eiga Framsókn og VG einfaldlega annarra kosta völ. Við þær aðstæður kæmi upp ný staða þar sem reyndar eru meiri líkur á að VG og aðrir sættu sig við forystu Sigurðar Inga og Framsóknar fyrir slíkri ríkisstjórn.
Fyrir VG væri hins vegar óðs flokks æði að halda áfram í núverandi stjórn án þess að halda forystunni. Slíkt yrði niðurlæging fyrir flokkinn og Katrínu.“