Fyrrum starfsmaður sjódeildar Landhelgisgæslunnar lýsir í samtali við Mannlíf óæskilegri menningu innan skipa Gæslunnar.
Starfsmaðurinn fyrrverandi vill ekki koma undir nafni af ótta við að þekkjast. Sjálfur hætti hann vegna menningarinnar sem þar þrífst. „Drykkja og kynferðismál voru nánast daglegt brauð af allri áhöfninni, fyrir utan mig og góðan vin minn sem hætti einnig.“
Hvað varðar drykkju um borð segir maðurinn að hún hefði verið á allra vitorði. „Það var á allra vitorði drykkja um borð, bæði yfirmenn og undirmenn. Yfirmenn komu oft blindfullir eftir skoðun um borð í rússatogurunum t.d. Ég er viss um að Georg (Lárusson, forstjóri Gæslunnar) hafi vitað það, því kvörtun var send vegna þessa, jafnvel fleiri.“
Þá segir starfsmaðurinn að Thorben Lund eða Tobbi eins og hann kallar hann, sé „langt í frá því að vera sá versti.“ Tekur hann sem dæmi að samkynhneigður fyrrum stýrimaður hafi leitað á sig á sínum tíma og kemur með fleiri dæmi. „Konurnar, sem voru hásetar eða hjálparhellur í eldhúsi, voru endalaust að þukla á okkur (kannski uniformið, ég veit það ekki) og öfugt.“ Einnig segist starfsmaðurinn fyrrverandi aldrei hafa orðið vitni að karli leita á konu af fyrra bragði. „Ein hélt m.a við skipherra (sem er giftur) til að tryggja sjálfan sig. Hún varð þess valdandi t.d einu sinni að tveir vinnufélagar mínir gætu hafa látið lífið eða slasast illa.“
Að lokum ræðir starfsmaðurinn fyrrverandi mál skipherrans Thorben Lund sem nú er undir rannsókn vegna meints kynferðislegs áreitis á hendur tveggja kvenna sem starfa á varðskipinu Tý. „Það liggur miklu meira að baki en að Tobbi hafi brotið af sér kynferðislega. Ég hef heyrt frá núverandi starfsmanni að Tobbi hafi stöðvað stutt samband með viðkomandi konu, og því hafi verið kvartað. Ég get þó ekki fullyrt neitt því ég hef ekki talað við Tobba sjálfan.“