Fram kom í hádegisfréttum RÚV í dag að flestir hefðu nýtt Ferðagjöf stjórnvalda á veitingastöðum, eða um helmingur þeirra sem nýttu hana.
Ferðagjöfin rann út á miðnætti og í gærkvöld myndaðist örtröð víða við veitingastaði og bensíndælur.
Á miðvikudaginn, þegar síðustu tölur voru uppfærðar, áttu enn rúm 32 þúsund eftir að leysa út Ferðagjöfina. Þá voru það þessir staðir sem tekið höfðu við hæstu upphæðunum í formi ferðaávísana:
- N1 – Þjónustumiðstöð
- Olíuverzlun Íslands ehf.
- Sky Lagoon ehf.
- KFC ehf.
- Flugleiðahótel hf. (Icelandair Hotels)
- Tix Miðasala ehf.
- Flyover Iceland ehf.
- Pizza-Pizza ehf.
- Hlöllabátar
- Icelandair ehf.
Sigmar Vilhjálmsson, eigandi Hlöllabáta, Barion og Minigarðsins, sagði að biðröð hefði myndast alla leið út á götu fyrir utan staði hans í gærkvöld, en alls leystu 2.250 manns út sína ferðaávísun á stöðunum eða á netinu í gær. Sigmar bauð viðskiptavinum að kaupa 9000 króna gjafabréf, 3000 krónur á hvern staðanna þriggja, fyrir 5000 króna Ferðagjöfina. Með því gat fólk fengið gjafabréfið á um það bil 55 prósenta afslætti.