Reynir Torfason fæddist á Ísafirði 1. nóvember 1939. Hann lést 13. september sl. 81 árs að aldri. Reynir fór ungur til sjós. Fimmtán ára var hann hjálparkokkur á síðutogaranum Gylli frá Flateyri og stundaði síðar allar helstu veiðar sem stundaðar eru hér við land. Hann var skipstjóri á eigin bátum 1970-83 en bátar hans hétu báðir Sæunn ÍS 25. Reynir var svo skipstjóri á bátum annarra 1983-88. Hann var verkstjóri við Ísafjarðarhöfn 1988-98 en seinna beitningamaður á Björg Hauks ÍS. Reynir stundaði myndlist frá 1988 og hélt fjölda myndlistarsýninga. Hann var ritari stjórnar Sjómannafélags Ísfirðinga í átján ár, og ritari Hugins, félags bátaeigenda á Ísafirði, á annan áratug.
Eiginkona Reynis er Gígja Sigríður Tómasdóttir, f. á Stóru-Giljá Húnavatnssýslu 29.4. 1941, fyrrverandi starfsmaður Heilbrigðisstofnunar ísafjarðarbæjar. Gígja lést 17 september 2017. Sonur Gígju og fóstursonur Reynis er Ómar Traustason, f. 8.6.1957 . Kona hans er Sigurbjörg Jóhannsdóttir, f, 7.7. 1969 og eiga þau þrjú börn, Önnu Vilborgu, f. 19.7.1990, Gunnar Ágúst, f. 2.9.1993, og Ólöfu Margréti, f. 3.1.1997. Sonur Ómars er Friðrik. f. 11 ágúst 1980. Fóstursonur Reynis og Gígju er Þórður Kristinn Andrésson, f. 18.2. 1967, d. 9.7. 1996 en dóttir hans er Ragna Sólveig, f. 21.10. 1994.
Systkini Reynis eru Runólfur Ingibjörn Kristinn Torfason, f. 29.5. 1941, d. 3.5.1975, sjómaður á Ísafirði; Ólína Salóme Torfadóttir, f. 20.11. 1942, fyrrverandi hjúkrunarforstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, búsett í Reykjavík; Guðbjörg Rannveig Torfadóttir, f. 4.6. 1944, verkakona og húsmóðir í Reykjavík en áður í Grindavík; Matthildur Torfadóttir, f. 14.6. 1947, fyrrverandi starfsmaður á hjúkrunarheimili, búsett í Njarðvík en áður í Bolungarvík; Ásthildur Torfadóttir, f. 14.6. 1947, fyrrverandi húsmóðir í Súðavíki; Magni Viðar Torfason, f. 5.4. 1952, sjómaður Ísafirði, d. 5. des. 2005 .
Hann gat verið stríðinn. Þið munið góðlátlegt brosið sem náði til augnanna þegar hann var í því stuðinu. Þar sem ég stend hérna að hans frumkvæði sé ég hann fyrir mér, kumrandi yfir seinustu stríðninni. Sjálfur er ég stoltur af þessu hlutverki í jarðarför hans og að fá að kveðja hann hinstu kveðju með þessum hætti. Minna má það ekki vera að leiðarlokum.
„Ólína systir mín lagði hart að mér að halda veisluna. Hún benti réttilega á að eðlilegt væri að fólk hittist oftar en við jarðarfarir,“ sagði Reynir Torfason, listmálari og sjómaður, í viðtali við DV þegar hann hélt upp upp á sextugsafmæli sitt fyrir rúmum 20 árum síðan. Það er til dæmis um skarpan húmor Reynis og Gígju að í umræddu afmæli var mynd af afmælisbarninu ásamt logandi kerti, rétt eins og í jarðarförum.
Ég kynntist Reyni Torfasyni fyrst í kringum 1970 þegar ég sveik Sjálfstæðisflokkinn og gerðist kommúnisti um stundarsakir. Þá voru haldnir sellufundir á Ísafirði til að þjappa fólki saman. Reynir var helsti hugmyndafræðingur hópsins og við lutum við fótskör hans. Hann var okkar byltingarleiðtogi. Svo hætti ég í samtökunum og skilaði mér aftur í Sjálfstæðisflokkinn. Þá liðu fimm ár þar til leiðir okkar lágu aftur saman. Örlagadísirnar höguðu því þannig að ég kynntist frænku hans, Halldóru Jónsdóttur. Við tókum saman og ákváðum að trúlofa okkur. Reynir lánaði okkur fyrir hringunum og það hófst vinátta sem stóð til dauðadags hans. Á heimili okkar Dóru var hann Reynir frændi. Hann var auðvitað frændi barna minna en líka frændi minn og stórvinur. Ég get sagt að leiðarlokum að aldrei bar skugga á vináttu okkar.
Reynir var stundum kallaður hinn Rauði. Viðurnefninu réð háraliturinn en einnig óhagganlegar stjórnmálaskoðanir hans. Hann vildi alla tíð sjá jöfnuð í samfélaginu og hann trúði á fegurri heim með því að halda kapítalistunum niðri. Honum hafði ekki tekist að kristna mig sem kommúnista og við ræddum oft málin en það kastaðist aldrei í kekki þótt báðir hafi verið miklir skapmenn. Vináttan yfirskyggði allt annað.
Reynir var margbrotinn maður. Þótt máltækið segi að góður sé sá sem genginn er þá fer ekkert á milli mála að hann var afburðamaður í hvívetna.Hann var sannur vinur vina sinna og kletturinn í lífi margra. Þegar nákominn ættingi hans gekk í gegnum hjónaskilnað lánaði hann hiklaust og af fyrra bragði veð í húsinu sínu til að viðkomandi gæti keypt sér íbúð. Hann naut virðingar sem myndlistamaður og honum hlaust sá heiður að vera bæjarlistamaður Ísafjarðar eitt ár. Hann skilur eftir sig fjöldann allan af sínum fallegu verkum sem öll eru minnisvarði um mann sem var heill í því sem hann gerði. Reynir stundaði lengi sjó á Sæunni ÍS sem hann átti sjálfur. Svo einkennilegt sem það var þá var kommúnistinn jafnframt kapítalisti,. Ég stríddi honum stundum og spurði hann eitt sinn út í þessa þversögn og hann sagði mér að hann hefði alltaf greitt hæstu skiptaprósentuna og umfram samninga. Það var rétt hjá honum. Meðan hann stundaði sjómennsku var hann í því af lífi og sál. Hann var það sem við köllum jaxl á sjónum. Sterkur og öflugur skipstjóri sem barðist við óvægin náttúruöfl með steittan hnefa og sigraði. Hann skilaði skipi sínu og áhöfn heilli í höfn þegar ferlinum lauk. Seinna eftir að hann kom í land var hann lengi hafnarstarfsmaður, verkstjóri, og einn sá allra samviskusamasti. Samkvæmur sjálfum sér þá hætti hann í því starfi vegna þess að honum mislíkaði. Í nokkur ár starfaði hann við beitningu og málaði jöfnum höndum á meðan hann hafði heilsu til.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort listagyðjan hefði ekki átt að hafa stærri sess í lífi hans. Sjómennskan og seinna starfið á höfninni tóku of mikinn skerf og tíminn sem hann hafði aflögu fyrir listina var of knappur. Við Reynir áttum eitt sinn saman nokkra góða daga í Ömmuhúsi á Flateyri. Ég vann að smásögum og hann teiknaði myndir eftir sögunum. Þessar dagar eru enn ferskir í huga mér. Manni leiddist ekki eitt andartak í nærveru hans. Afrakstur þeirrar vinnu kom á prenti í tímaritinu Úrvali og seinna í bókinni Þorpið sem svaf. Seinasta teikningin sem Reynir gerði er einmitt í þeirri bók. Þá var hann orðinn sárveikur og átti nóg með að komast í gegnum dagana.
Við Reynir ræddum stundum um brennivínsbölið og voru sammála um að koma Bakkusi fyrir kattarnef. Hann hafði skaðað báða of mikið. Við vorum báðir því marki brenndir að vilja mikið af öllu. Það var gott að hlæja með honum og það var gott að kjökra við öxl hans.
Við hittumst ótal oft í gegnum tíðina og vinaböndin héldu. Reynir og Gígja stóðu okkur fjölskyldunni eins nærri og foreldrar væru. Og þau voru óaðskiljanleg í lífinu og gjarnan nefnd í sömu andrá. Bæði trúðu þau á jöfnuð í lífinu og börðust fyrir því málefni hlið við hlið. Þegar Gígja dó fyrir fjórum árum hélt Reynir í hendina á henni þegar hún kvaddi. Ekkert varð eins eftir að hún fór og maður fékk á tilfinninguna að hann vildi sjálfur fara fljótlega á eftir henni. Í sextugsafmælinu forðum sagðist Reynir myndu halda veglega upp á afmæli sín hér eftir á fimm ára fresti. Hann stóð nokkurn veginn við það.
Áttræðisafmælið hans á Hlíf var fjölsótt, Þá tók ég viðtal við hann um líf og dauða. Hann sagðist vilja fá að lifa í eitt ár enn til geta gengið frá ýmsum málum. Sú von rættist og hann fékk hálft annað ár áður en hann kvaddi þennan jarðneska heim. Hann skipulagði jarðarför sína og sagði Ólínu, systur sinni, hvernig allt ætti að vera. Síðsumars heimsótti ég Reyni sem oftar. Hann hafði verið sárveikur mánuðina á undan og var orðinn saddur lífdaga. Þegar ég kom til hans var hann hress og kátur, mér til mikillar gleði. Hann var komin á ný lyf. Ég spurði hvort hann vildi koma í bíltúr og hann samþykkti það og bjó sig upp. Sá grunur læddist að mér að þetta yrðu okkar seinustu samverustundir. Við komum við í sjoppu og ég keypti appelsín og súkkulaði, minnugur þess að Reynir var alla tíð mikið fyrir sælgæti. Við ókum sem leið lá um Breiðafjarðargöng og yfir í Önundarfjörð og þaðan um Gemlufallsheiði. Það var um nóg að tala. Stefnan hafði verið sett á Dýrafjarðargöng og í Dynjandisvog. Ég vildi að nafni fengi að sjá fegursta foss landsins einu sinn enn. Skyndilega blasti fossinn við, Við stöðvuðum á bílastæðinu. Reynir maulaði súkkulaði með salthnetubragði og drakk appelsín með himneska fegurðina fyrir framan okkur. Ég hafði áhyggjur af úthaldi hans þegar við héldum heimleiðis. Hann brosti og sagðist njóta hverrar mínútu. Það fór svo eins og mig grunaði. Þetta varð okkar seinasti fundur.
Nokkrum dögum áður en hann dó hringdi hann í mig til að ítreka að vinátta okkar væri varanleg, hvernig svo sem fjölskylduhagir breyttust. Við yrðum alltaf vinir. Þessa daga var mikið um að vera hjá honum. Hann endurnýjaði ökuskírteinið sitt og hringdi í vini og vandamenn til að spjalla. Þrátt fyrir dauðadóminn var engin uppgjöf hjá mínum manni. Hann vonaðist til að lifa kosningarnar til að geta kosið sósíalista. Það varð ekki, en ég get upplýst að átta manns, hið minnsta, kusu sósíalista, honum til heiðurs og í kveðjuskyni. Sjálfur ætla ég ekkert að segja um það hvað ég kaus en á kjörstað í Njarðvík birtist systir hans, skyndilega. Ég leit á það sem skilaboð að handan. En svo rann upp stundin. Hann lagði af stað yfir landamæri lífs og dauða. Lungnabólga og skömmu síðar var hann allur. Reynir frændi var farinn. Og þannig endaði það. Hér er nafni í sinni hinstu för á vit hins torráðna. Hvert sem leið hans liggur er ég sannfærður um að honum farnast vel. Hann á að baki æviferil sem er til sóma. Hann var alla tíð sannur og heill. Góða ferð, nafni. Ég bið að heilsa Lenín ef þú hittir hann.
Reynir Traustason