Hættustigi var lýst yfir í gær á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum en von er á mikilli úrkomu á svæðinu.
Ákvörðunin var tekin í samráði milli ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Austurlandi.
Unnið var að því að opna fjöldahjálparstöð í Herðubreið sem er opin öllum íbúum svæðisins.
Björn Ingimarsson, sveitastjóri Múlaþings sagði í viðtali við Mbl að miklu máli skipti að fólk vissi að engar áhættur yrðu teknar.
„Það sem skiptir máli er að fólk sé meðvitað um það að við erum ekki að taka neina áhættu, það er rýmt frekar fyrr en seinna,“
Stefnt er að því að endurmeta stöðuna eftir næstu helgi og sérfræðingar komi til með að fara yfir málin með íbúum. Þangað til verði engin áhætta tekin.
„Á meðan það er einhver óvissa þá erum við ekkert að taka neina áhættu,“ sagði Björn sveitastjóri.
Fleiri mælar séu á svæðinu en áður og eru mælingarnar því orðnar nákvæmari. Ekki sé komin reynsla á það hvenær þurfi að rýma svæðið og hvenær ekki.
„Síðan skulum við ætla að reynslan leiði í ljós hvenær þess þurfi og hvenær ekki í framtíðinni.“