Geðlæknum á Íslandi heldur áfram að fækka, og nú stendur geðþjónusta Landspítala frammi fyrir þeim vanda að geðlæknum hefur fækkað mikið á undanförnum árum. Staðan nú er þannig að þar sem áður voru mönnuð 30 stöðugildi eru núna 22 geðlæknar í færri en 20 stöðugildum.
Þetta segir Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans í samtalið við Læknablaðið:
„Ástæðan er meðal annars sú að innan heilsugæslunnar hefur verið komið á fót geðheilsuteymum og ráðnir þangað fjölmargir geðlæknar á mjög skömmum tíma. Einnig útskrifum við ekki nógu marga sérfræðinga í geðlækningum. Það er því bráður skortur á geðlæknum. Búnar hafa verið til nýjar stöður í heilsugæslunni í geðlækningum án þess að kannað hafi verið hvort mannauðurinn sé fyrir hendi. Það hefur bitnað á Landspítalanum og nú vantar okkur sérfræðinga til starfa. Það hefur ekki verið horft á heildarmyndina og þetta á við um stöður geðlækna og hjúkrunarfræðinga og annarra fagstétta.“
Eftir því sem Nanna segir munu á næstu árum fáir ljúka sérfræðinámi í geðlækningum, líklega ekki nema tveir til þrír á næstu tveimur árum.
„En það eru fleiri á fyrsta og öðru ári núna en verið hefur áður. Þetta er öflugur hópur sem lofar góðu en það líða nokkur ár áður en við fáum fleiri sérfræðinga. Ég minni líka á að á næstu árum munu nokkrir sérfræðingar hætta vegna aldurs svo það verður áfram þörf á fleiri læknum og þessi þróun sýnir að verkefnum geðlækna fer stöðugt fjölgandi.
En ljóst er að við þurfum að draga saman þjónustuna og færa verkefni til heilsugæslunnar. Enda eru teymin þar mun betur mönnuð heldur en flest teymi geðþjónustu Landspítala. En til framtíðar þurfum við að eiga samtal við yfirvöld um hvernig við ráðum fram úr þessum skorti á sérfræðingum og öðrum fagstéttum enda má uppbygging á einu sviði ekki verða til þess að vandamál skapist á öðrum sviðum.“