Eins og Mannlíf greindi frá í gær er málið sem varðar sölu Hafnarfjarðarbæjar á hlut sínum í HS Veitum enn ekki útkljáð.
Minnihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur beitt sér af krafti gegn sölunni og telja hana einfaldlega ólöglega. Eins og greint var frá í gær þá telur minnihlutinn „afgreiðslu málsins ekki hafa verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og málsmeðferðin því ólögleg og ákvörðun um sölu ógildanleg.“
Minnihlutinn í Hafnarfirði er orðinn óþreyjufullur að fá svar við erindi sínu sem það sendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og telur það skyldu ráðuneytisins „að bregðast við þessari ábendingu með því að hefja frumkvæðisrannsókn á málinu skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, enda er um alvarlegt brot á lögunum að ræða sem varðar mjög mikilvæga hagsmuni bæjarbúa í sveitarfélaginu.“
Í apríl síðastliðnum sendi minnihlutinn bréf til ráðuneytisins þar sem kemur fram að „þann 5. nóvember 2020 sendu undirrituð erindi til ráðuneytisins þar sem vakin var athygli á vinnubrögðum sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks viðhafði við ákvarðanatöku varðandi sölu á hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í fyrirtækinu HS veitum hf.“
Enn fremur að „við teljum það skyldu ráðuneytisins að bregðast við þessari ábendingu með því að hefja frumkvæðisrannsókn á málinu skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, enda er um alvarlegt brot á lögunum að ræða sem varðar mjög mikilvæga hagsmuni bæjarbúa í sveitarfélaginu. Nú eru liðnir rúmir 5 mánuðir síðan erindið var sent og engin svör hafa borist við því, né heldur hefur orðið vart við að nokkurri rannsókn hafi verið beint að þeim sem stóðu fyrir sölunni á HS veitum. Svo virðist sem ráðuneytinu þyki þetta léttvægt mál sem ekki er þörf á að sinna, en málið er svo sannarlega ekki léttvægt.“
Er minnihlutinn því ósáttur við að afgreiðsla málsins taki svo langan tíma í ráðuneytinu, og vill fá svör um þetta mikilvæga mál:
„Það varðar mjög mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Um er að ræða gríðarlega mikilvæga innviði sveitarfélagsins sem skipta miklu máli fyrir hvern einasta bæjarbúa. Það að farið sé framhjá eðlilegum og lögbundnum málsmeðferðarreglum við ráðstöfun slíkra verðmæta er mjög alvarlegur hlutur. Því hljótum við að gera kröfu um að málinu verði sinnt og að ráðuneytið ræki það eftirlitshlutverk sem því er falið samkvæmt sveitarstjórnarlögum.“
Minnihlutinn bendir á að það sé „ákvæði um málshraða í 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Í öðru lagi er kveðið á um að leita skuli umsagna við fyrsta hentugleika, en svo virðist sem ekki hafi enn verið leitað umsagna um þetta mál, a.m.k. hefur ekkert slíkt erindi verið lagt fram í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Í þriðja lagi er skylt að tilkynna skuli ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla muni tefjast, en engin slík tilkynning hefur borist. Það virðist því sem ráðuneytið hafi ekki gætt að lögbundnum reglum varðandi málshraða. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu málsins og skýringum á töfum, að öðrum kosti verður ekki hjá því komist að leita til Umboðsmanns Alþingis og kvarta yfir broti á málshraðareglu stjórnsýslulaga.“
Hér má sjá bréf minnihlutans í Hafnarfirði:
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið Sölvhólsgötu 7 101 Reykjavík Hafnarfirði 12. april 2021 Erindi varðandi sölu Hafnarfjarðarkaupstaðar á hlut sínum í HS veitum hf.
Þann 5. nóvember 2020 sendu undirrituð erindi til ráðuneytisins þar sem vakin var athygli á vinnubrögðum sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks viðhafði við ákvarðanatöku varðandi sölu á hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í fyrirtækinu HS veitum hf. Eins og nánar kom fram í nefndu bréfi teljum við afgreiðslu málsins ekki hafa verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og málsmeðferðin því ólögleg og ákvörðun um sölu ógildanleg. Við teljum það skyldu ráðuneytisins að bregðast við þessari ábendingu með því að hefja frumkvæðisrannsókn á málinu skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga, enda er um alvarlegt brot á lögunum að ræða sem varðar mjög mikilvæga hagsmuni bæjarbúa í sveitarfélaginu. Nú eru liðnir rúmir 5 mánuðir síðan erindið var sent og engin svör hafa borist við því, né heldur hefur orðið vart við að nokkurri rannsókn hafi verið beint að þeim sem stóðu fyrir sölunni á HS veitum. Svo virðist sem ráðuneytinu þyki þetta léttvægt mál sem ekki er þörf á að sinna, en málið er svo sannarlega ekki léttvægt. Það varðar mjög mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Um er að ræða gríðarlega mikilvæga innviði sveitarfélagsins sem skipta miklu máli fyrir hvern einasta bæjarbúa. Það að farið sé framhjá eðlilegum og lögbundnum málsmeðferðarreglum við ráðstöfun slíkra verðmæta er mjög alvarlegur hlutur. Því hljótum við að gera kröfu um að málinu verði sinnt og að ráðuneytið ræki það eftirlitshlutverk sem því er falið samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Bent er á ákvæði um málshraða í 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Í öðru lagi er kveðið á um að leyta skuli umsagna við fyrsta hentugleika, en svo virðist sem ekki hafi enn verið leitað umsagna um þetta mál, a.m.k. hefur ekkert slíkt erindi verið lagt fram í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Í þriðja lagi er skylt að tilkynna skuli ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla muni tefjast, en engin slík tilkynning hefur borist. Það virðist því sem ráðuneytið hafi ekki gætt að lögbundnum reglum varðandi málshraða. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu málsins og skýringum á töfum eigi síðar en 19. apríl nk. Að öðrum kosti verður ekki hjá því komist að leita til Umboðsmanns Alþingis og kvarta yfir broti á málshraðareglu stjórnsýslulaga. Kær kveðja Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Árni Rúnar Þorvaldsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingar.