Jarðskjálfti að stærð 3,5 reið yfir klukkan 16:14 nú síðdegis og fannst víða á suðvesturhorninu. Skjálftinn varð 1,3 kílómetra suðsuðvestur af Keili.
Tíðir jarðskjálftar hafa verið á svæðinu síðustu daga. Samkvæmt Veðurstofunni hafa sjö jarðskjálftar stærri en 3 á Richter-kvarðanum orðið í nágrenni við Keili síðustu 48 klukkustundir.
Innan sama tímaramma hafa orðið 23 skjálftar á bili 2 til 3 að stærð. Stærstu skjálftarnir síðustu 48 klukkustundir, utan þessa sem áðan varð vart, urðu í fyrradag og í gær, en þeir voru 3,3 og 3,4 að stærð.