Tvenn ný mótmælaverk hafa verið sett upp í Hafnarfirði og ekki enn verið tekin niður. Á verkunum eru slagorð er varða nýja stjórnarskrá Íslands.
Myndlistartvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson standa fyrir verkunum í samstarfi við Töfrateymið. Fyrr á árinu var sagt frá því í Mannlífi að verk eftir þau hafi verið tekið niður að beiðni Sjálfstæðiskonunnar Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Verkið hékk utan á menningar- og listamiðstöðinni Hafnarborg og kallaði eftir nýrri stjórnarskrá. Annað verkanna stendur fyrir ofan undirgöng við Sólvangsveg en hitt er við braggarústunum við enda Herjólfsgötunnar.
Sjá einnig: Meiri ritskoðun í Hafnarfirði en Kúbu – Sjálfstæðiskona lét fjarlæga listaverk
Þau Libia Castro og Ólafur Ólafsson voru valin myndlistarmenn ársins á Íslensku myndlistarverðlaununum 25. febrúar á þessu ári. Töfrateymið er hópur ólíkra tónskálda, innlendra og erlendra, tónlistarfólks, samtaka, aðgerðarsinna og almennra borgara. Sjá nánar hér.
Nú verður spennandi að sjá hversu lengi þessi verk fá að vera uppi en þetta yrði ekki í fyrsta skiptið sem listaverk tengt nýrri stjórnarskrá yrði ritskoðað af yfirvöldum. Það vakti mikla athygli þegar stjórnvöld háþrýstiþvoðu vegglistaverk þar sem stóð: „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ á sínum tíma en endaði sú ritskoðun í Áramótaskaupinu.