Það er ekki hægt að saka Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda og talsmann fyrirtækisins Gleðipinna, um að vera ekki vakandi í vinnunni.
Nýverið birti Mannlíf grein þar sem kom fram að Jóhannes, eða Jói eins og hann er yfirleitt kallaður, hafi lækkað verð á frönskum kartöflum hjá Aktu Taktu eftir að neytandi lét í ljós óánægju sína með skammtastærð og verð á Facebookhópnum Matartips, en Mannlíf vakti athygli á málinu.
Nú hefur Jói aftur látið til sín taka í samfélagsmiðlaumræðunni. Í Matartips birtist nýverið færsla frá ósáttum viðskiptavini veitingastaðarins Saffran. Saffran er, líkt og Aktu Taktu, í eigu Gleðipinna.
Í færslu sinni lýsir viðskiptavinurinn, sem heitir Svandís, óánægju með síðustu ferð sína á Saffran. Þar segist hún oft hafa sótt staðinn síðustu ár og alltaf fái hún sér það sama: kjúklingabökuna. Svandís segir kjúklingabökuna hafa verið sinn uppáhaldsmat og því hafi hún orðið fyrir sérlegum vonbrigðum með þetta skipti.
„Þeir eru búnir að bæta við beikonbitum og rauðlauk og magnið af kjúkling var ekki upp í nös á ketti, og alls ekki sama bragðið af honum. Svo var ekkert salat og hnetur og hvíta sósan ofan á. Og til að toppa allt, þá var barasta voða lítið bragð af henni. Ég var svöng og við vorum að fara í bíó þannig að ég bara át hana þegjandi og hljóðalaust. Ég hefði alveg eins geta búið þetta til sjálf,“ segir Svandís.
Ótal athugasemdir eru komnar undir færsluna og sitt sýnist hverjum.
Stefán nokkur er til dæmis á því að betur fari að ræða við staðinn áður en svona nokkuð er sett á samfélagsmiðla.
Margir eru á þeirri skoðun að gæðin á Saffran hafi dalað töluvert eftir að fyrirtækið Foodco eignaðist staðinn fyrir nokkrum árum síðan. Hinsvegar sameinuðust Gleðipinnar og Foodco árið 2019 og síðan þá hafa ýmsar breytingar verið gerðar á veitingastöðum í eigu fyrirtækisins.
Athygli vekur að líkt og var með færslu viðskiptavinar Aktu Taktu er Jói búinn að skrifa athugasemd við færslu Svandísar um Saffran:
Sæl Svandís
Takk kærlega fyrir innleggið. Mér þykir leitt að heyra að þú hafir orðið fyrir vonbrigðum með kjúklingabökuna. Í mars 2020 fórum við í breytingar á matseðlinum í samstarfi við Viktor og Hinrik hjá Lux veitingum (uppáhaldskokkarnir okkar í öllum heiminum).
Markmiðið var að auka gæði og bæta réttina. Vissulega eru ekki allir hrifnir af því þegar réttum er breytt. Varðandi kjúklingabökuna þá bættum við hreinum mozzarellaosti, beikonkurli og rauðlauki við en tókum salatið af. Það voru alls ekki allir hrifnir af því að fá það ofan á pizzuna. En að sama skapi þá eru allmargir sem sakna þess.
Þess vegna höfum við ákveðið, með þinni hjálp að bjóða framvegis okkar viðskiptavinum að bæta salatinu ofan á – frítt. Vonandi fellur það í góðan jarðveg hjá þér. Okkur finnst kjúklingabakan meira djúsí en hún var, en eins og ég nefndi, misjafn er mannanna smekkur.
Með vinsemd,
Jói Gleðipinnum
Óhætt er að segja að athugasemd Jóa hafi vakið jákvæð viðbrögð.
„Þetta er kallað að leysa málin!,“ segir Ingvar.
Ásta er líka ánægð:
„Æðislegt að sjá svona svar og þjónustulund til viðskiptavina. Vel gert.“