Þórdís og dóttir hennar eru algjörlega miður sín eftir að óprúttinn aðili stal kartöfluuppskeru þeirra í gær. Færslan logaði í kjölfarið
Þórdís skrifaði í gær skilaboð til einstaklingsins sem stal kartöfluuppskeru hennar og dóttur hennar, á Facebook grúppunni Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri. „Hey þú sem stalst kartefluuppskeru okkar þú ollir barninu mínu og mér miklum vonbrigðum þegar við mættum loksins til að taka upp karteflurnar, þarna lá gafall og verkfæri í beðinu og búið að taka upp allar karteflurnar. Ég vona að þær standi ekki í þér. Takk samt fyrir að skilja gulræturnar eftir.“
Margir brugðust ókvæða við þessari færslu og blótuðu þjófinum ákaft.
Guðmundur nokkur segir að þetta sé víðar svona. „Þetta virðist vera svona allsstaðar á Höfuðborgarsvæðinu, bæði í Elliðaárdalnum og Urriðaholtinu og allstaðar. Ekkert virðist fá að vera í friði.“
Sigrún vonar að kartöflurnar standi í þjófunum. „Þvílíkir aumingjar.“ Þóra hugsar í lausnum, „er ekkert hægt að láta setja upp myndavélar þarna? Sorglegt að ekkert fær að vera til friðs.“
Vilmundur hneikslast einnig yfir þjófinum. „Að stela frá barni er mesta ódæðisverk sem til er. Og sá sem gerir svona er með skítlegt eðli.“
Hörður kemur með nokkuð taktlausa athugasemd þar sem hann bendir Þórdísi á rétta stafsetningu á orðinu kartöflur. Hlýtur hann bágt fyrir hjá nokkrum fyrir vikið.