Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga við Landspítala Íslands neitar að svara spurningum Mannlífs um mál er snúa að ráðningu Skúla Gunnlaugssonar á spítalann en hann er nú rannsakaður af lögreglu fyrir alvarleg brot í starfi. Einnig var spurt um annan starfsmann sem grunaður er um manndráp á geðdeilt Landspítalans.
Mannlíf sendi nokkrar spurningar er varða ráðningu Skúla Gunnlaugssonar á Landspítalann en lögreglurannsókn á meintum alvarlegum brotum hans í starfi sem yfirlæknir á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, stendur nú yfir hjá lögreglunni. Alls hafa sex fjölskyldur kært Skúla en alvarlegustu brotin snúa um ábyrgð hans á dauða sjúklinga sinna. Hefur að minnsta kosti ein fjölskyldan kært hann fyrir manndráp af ásetningi.
Hér eru spurningarnar:
1. Hvernig samræmist það sjónarmiðum um öryggi sjúklinga og heiður læknastéttarinnar að læknir sé við störf sem grunaður er um að vera valdur að dauða sjúklinga sinna?
2. Nú er læknirinn víst við störf á Landspítalanum „undir eftirliti“, hvernig er því eftirliti háttað?
3. Þessari spurningu er kannski helst beint að hjúkrunarfræðideildinni, hvernig líður sjúklingum Skúla að vita að læknirinn sem meðhöndlar þá sé grunaður um svo alvarleg brot í starfi?
4. Fyrir nokkru kafnaði sjúklingur á geðdeild Landspítalans. Er starfsmaðurinn sem grunaður er um að hafa valdið dauða sjúklingsins, enn við störf hjá Landspítalanum, undir eftirliti eða án?
Í svari sínu segir Ólafur Baldursson að upplýsingalög kveði á um tiltekna upplýsingaskyldu stofnana um starfsmenn og störf þeirra. „Landspítali mun ekki tjá sig um verkefni og störf einstakra starfsmanna umfram það.“ Ólafur bætir við, „að öðru leyti er rétt að halda því til haga að spítalinn ber ábyrgð á starfsemi sinni, þar með talið einstökum starfsmönnum samkvæmt lögum.“
Honum var sem sagt í lófa lagt að svara en kaus að gera það ekki. Mannlíf hefur nú sent almennari spurningar til Ólafs og Landlæknis og bíður spennt eftir svörum.
Mannlíf mun á næstunni fjalla frekar um málið og mun þá meðal annars birta upplýsingar úr gögnum sem ekki hafa komið fyrir almenningssjónir áður.