Ofantalið kemur fram á vef landlæknis og þar segir einnig að nægt framboð sé af bóluefni Pfizer fyrir bæði örvunarbólusetningu skilgreindra forgangshópa og grunnbólusetningu þeirra sem ekki hafa enn fengið bólusetningu.
Á vef landlæknis er vísað til þess að í Svíþjóð hafi Moderna eingöngu verið notað fyrir fólk sem er fætt fyrir 1991; bæði í Noregi og Danmörku er mælt með að Pfizer-bóluefnið sé frekar notað en Moderna, fyrir börn á aldrinum 12 til 17 ára. Á Íslandi hefur eingöngu verið notast við bóluefni Pfizer fyrir börn.
„Moderna bóluefni hefur undanfarna tvo mánuði nær eingöngu verið notað við örvunarbólusetningar eftir Janssen bóluefni, og eftir tveggja skammta bólusetningar aldraðra og ónæmisbældra. Örfáir einstaklingar hafa fengið seinni skammt grunnbólusetningar sem hófst með Moderna,“ segir á vef landlæknis.
Meira en tuttugu þúsund Íslendingar eru fullbólusettir með bóluefni Moderna, samkvæmt yfirliti á vefsíðunni covid.is.