Lífsreynslusaga úr Vikunni
Þegar langþráður sonur bættist við fjölskylduna fundum við systurnar fjórar vel fyrir því. Látlaust eftirlæti foreldra og annarra ættingja hafði án efa einnig mikil áhrif á bróður minn og ekki til góðs. Hann hefur alla tíð vitað allt betur en aðrir og kunnað að ná sínu fram með samblandi af sjarma og frekju.
Mér þykir vænt um Kára bróður en geri mér fyllilega grein fyrir göllum hans. Hann var ofdekraður frá fæðingu og finnst hann vera guðsgjöf til mannkyns. Hann ætti ekki að koma nálægt peningamálum og fór fjárhagslega illa með foreldra okkar og minnstu munaði að þau misstu íbúð sína af hans völdum. Við systur gátum gripið inn í áður en illa fór. Samt sjá pabbi og mamma ekki sólina fyrir honum, hann var bara óheppinn, segja þau. Eiginkonur hans fyrrverandi eiga þó mesta samúð mína, þær áttu ekki sjö dagana sæla.
Sú fyrsta
Kári kynntist Maríu þegar þau voru bæði farin að nálgast þrítugt. Fram að því hafði hann baðað sig í aðdáun kvenna og átt óteljandi kærustur. María var líklega hæfilega áhugalaus því Kári linnti ekki látum fyrr en hún samþykkti að giftast honum. Hún var listakona sem hafði vakið nokkra athygli en hann hafði ekki enn ákveðið hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði „stór“. Eftir stúdentspróf fór hann í háskóla en átti erfitt með að finna fag við hæfi svo hann flosnaði upp eftir einhvern tíma.
Kári var í skemmtilegum vinahópi sem var nokkuð áberandi og nokkrir í hópnum áttu eftir að verða þekktir í þjóðfélaginu. Þarna voru myndlistarmenn, upprennandi stjórnmálafólk, tónlistarmenn, tilvonandi fjölmiðlafólk og fleiri og fleiri. Í gegnum hópinn kynntist hann Maríu.
Hjónaband þeirra varði í um áratug en undir það síðasta var það orðið erfitt. Þeim leið líklega best saman í útlöndum þar sem María var við nám en eftir að þau fluttu aftur heim til Íslands fór að halla undan fæti. Kári er með eindæmum ráðríkur og veit allt best, hann reyndi meira að segja að kenna Maríu sitt af hverju varðandi listina. Hann er vissulega fróður og vel lesinn og hafði án efa kynnt sér sitt af hverju um list, hann gat og getur haldið uppi sæmilega skynsamlegum samræðum um ansi margt. Hann hefur þó bara yfirborðsþekkingu þótt hann hljómi eins og hann viti bókstaflega allt um allt.
María sá um fjármálin, eða reyndi það, henni ofbauð hversu eyðslusamur Kári var. Þau lifðu hátt miðað við innkomuna en Kári hefur alltaf viljað berast á. Hann helst ekki lengi í hverju starfi og það er alveg stórmerkilegt hvað hann fær alltaf góða vinnu en líklega hefur óbilandi sjálfstraust hans heilmikið að segja um það.
„Hann girntist t.d. antíksófasett og sófaborð sem María hafði erft og neitaði að skrifa undir skilnaðarpappírana nema hann fengi þetta. Hann kvaðst hafa unnið fyrir henni á meðan hún var í námi …“
Á endanum gafst María upp á honum, bæði lífsstílnum og framkomu hans við hana. Skilnaður þeirra var erfiður og frekjan í bróður mínum kom fram í sinni verstu mynd. Hann girntist t.d. antíksófasett og sófaborð sem María hafði erft og neitaði að skrifa undir skilnaðarpappírana nema hann fengi þetta. Hann kvaðst hafa unnið fyrir henni á meðan hún var í námi, hann ætti því inni hjá henni sem var auðvitað algjört bull. Að endingu gafst María upp, sagði honum að hirða allt saman. Hún nennti ekki að standa í þessu. Hún hefur búið erlendis í mörg ár og gerir það gott, bæði í starfi og einkalífi.
Næsta kona
Næsta eiginkona Kára var líka listakona að mennt. Foreldrar hennar áttu og ráku stöndugt fyrirtæki og þar starfaði hún en vann að list sinni í frístundum. Ætlunin var þó alltaf að helga sig listinni. Sigrún var gullfalleg, eins og María, og afar hæfileikarík. Ég hef varla kynnst fyndnari og skemmtilegri manneskju en Sigrúnu. Hún var svo bjartsýn og lífsglöð og ekkert var henni ómögulegt.
Bróðir minn var um fertugt þegar þau giftu sig og hún tæplega þrítug, eða tólf árum yngri. Eftir um tvö ár fæddist þeim sonur, gullfalleg blanda af þeim báðum og ljúfur eins og mamman.
Ég var í talsvert miklu sambandi við Sigrúnu en þó tók ég ekki eftir breytingunum á henni því þær gerðust svo hægt. Eftir nokkur ár var lítið eftir af lífsglöðu og skemmtilegu stelpunni sem hafði gifst bróður mínum. Kannski er það bara eðlileg þróun að breytast með aldrinum og við það að eignast barn en eftir á að hyggja var ekkert eðlilegt við þetta. Bróðir minn braut hana í raun hægt og markvisst niður. Því sem hann féll fyrir í hennar fari reyndi hann að breyta, eins furðulegt og það hljómar. Stöðug gagnrýni hans um að hún ætti ekki að segja svona, vera svona, hugsa svona og svo framvegis, fór illa með hana og hún var líklega of ung og sveigjanleg til að láta þetta ekki á sig fá. Hún var löngu hætt að snerta á nokkru tengdu listinni, eins og hún hefði ekki lengur trú á sjálfri sér. Kári hefur iðulega talið sig vera mikinn jafnréttissinna en er þó óþreytandi við að hrútskýra málin fyrir konum.
„Stöðug gagnrýni hans um að hún ætti ekki að segja svona, vera svona, hugsa svona og svo framvegis, fór illa með hana.“
Sigrún mótmælti Kára aldrei á almannafæri þótt hann færi greinilega með einhverja vitleysu en ég veit að þeim varð oft sundurorða vegna fjármála. Hann vildi alltaf leika svo stóran karl. Þau fóru kannski fínt út að borða með vinahjónum og Kári heimtaði iðulega að borga fyrir alla sem var bara flottræfilsháttur því hann hafði ekki efni á því. Honum fannst skemmtilegra að verja peningunum í eitthvað slíkt og fela frekar heimilisreikningana. Þau virtust hafa það ágætt en það mátti ekkert út af bregða.
Þau voru gift í tólf ár og þegar þau skildu fór það fram í rólegheitum og lítið bar á frekju Kára í þetta sinn. Eflaust skipti miklu máli að nú var sonurinn kominn til sögunnar og ekki vildi hann fara illa með drenginn. Öllu var því skipt hnífjafnt. Ég veit að Kári hefði fengið forræði drengsins ef hann hefði kært sig um, því Kári fær alltaf það sem hann vill – en það hentaði ekki lífsstíl hans að vera einstæður faðir.
Kári fór fljótlega í samband við konu sem var á svipuðum aldri og hann. Hún þoldi ekki yfirganginn í honum svo þau rugluðu aldrei saman reytum.
Sigrún hefur blómstrað eftir skilnaðinn, breyst úr þeirri mús sem hún var orðin, í glöðu, frumlegu og hugmyndaríku konuna sem hún var áður en sambúðin með bróður mínum breytti henni. Hún er gift dásamlegum manni sem kann greinilega að meta hana eins og hún er.
Sú þriðja
Þriðja konan hans bróður míns, sem þá var orðinn rúmlega fimmtugur, heitir Ósk og var, eins og hinar fyrri, að nálgast þrítugt þegar þau kynntust.
Það er eins og Kári nái bara sambandi við yngri konur sem eru væntanlega mótanlegri en þær sem eru nær honum í aldri. Kári er unglegur, bæði í útliti og anda, og aldursmunurinn virðist engu skipta. Ég hef fundið hversu Kári hefur lítinn áhuga á að vera í samskiptum við t.d. okkur systurnar. Við látum hann heyra það ef okkur mislíkar en meira í stríðni sem hann þolir þó ekki sérlega vel. Hann hefur sótt í félagsskap barna okkar og virðist njóta sín betur með þeim en okkur. Fólk á hans aldri er aðeins í náðinni ef það er frægt eða mikið andans fólk og hann heldur góðu sambandi við gamla vinahópinn sinn.
„Ég er þakklát fyrir að ég fékk ekki sama uppeldi og Kári …“
Ósk var nýútskrifuð úr HÍ með masterspróf, klár og flott stelpa. Eftir tveggja ára hjónaband dreif Kári sig loks í háskóla, í sama fag og Ósk var menntuð í. Fag sem hann hafði aldrei sýnt nokkurn áhuga. Ég efast ekki um að hann sé löngu farinn að kenna henni fræðin … Hún virðist þó hamingjusöm og ekki víst að honum takist að stjórna henni jafnmikið og fyrri konunum. Sonur Kára fær heilbrigt uppeldi hjá móður sinni og ég vona að Kári breyti þar engu um. Feðgarnir hittast mikið en eru meira eins og vinir en feðgar. Eftir að Ósk kom til sögunnar fór drengurinn að fara aðra hverja helgi til þeirra, og oftar en það, en fram að því hittust feðgarnir bara þegar Kára hentaði.
Ég er þakklát fyrir að ég fékk ekki sama uppeldi og Kári og ég ól syni mína ekki upp í gengdarlausu eftirlæti eins og Kári fékk. Þeir fengu ekkert upp í hendurnar og taka engu sem sjálfsögðum hlut. Þeir eru miklir sómamenn og ég er mjög hreykin af þeim.