Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Ragney Líf: „Var oft spurð hvers vegna ég væri að æfa með félaginu af því að ég væri ekki fötluð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragney Líf Stefánsdóttir, sem er með CP-lömun sem hún segir að sé ekki sjáanleg í tilfelli sínu en háir henni þó mikið, hefur orðið fyrir ýmiss konar fordómum í gegnum árin. Ragney var viðmælandi í helgarviðtali Mannlífs.

Í viðtalinu talar Ragney meðal annars um fordóma, en hún segist hafa af og til orðið fyrir fordómum í gegnum tíðina vegna fötlunar sinnar og þá sérstaklega vegna þess að það sést ekki á henni að hún er með fötlun.

„Ég æfði lengi sund með Íþróttafélagi fatlaðra og var oft spurð hvers vegna ég væri að æfa með félaginu af því að ég væri ekki fötluð.

Fatlaðir einstaklingar hafa sumir sagt að ég sé með rosalega litla CP-lömun; það er þá strax gert lítið úr þessu. Ég ætlaði einu sinni að fara í ferð en sagðist svo ekki treysta mér af því að það átti að fara í fjallgöngu og sagði að ég væri með CP-lömun þótt það sæist ekki á mér og myndi ganga hægt og verða fljótt þreytt og þá benti einstaklingur mér á annan aðila sem væri að fara í ferðina sem væri með miklu meiri skerðingu en ég.

Ég hef heyrt um fleiri sem eru með „ósýnilegar“ hreyfihamlanir og fatlanir sem hafa mætt miklu skilningsleysi.“

Ragney segir að svona viðbröð – svona fordómar – hafi áður fyrr, sérstaklega á unglingsárunum, gert það að verkum að hún lokaði sig svolítið af og skammaðist sín fyrir að vera með fötlun.

- Auglýsing -

„Þetta hafði mjög slæm áhrif á mig áður fyrr en ég er núna orðin miklu sterkari og stolt af því að vera með þessa fötlun og er farin að nýta mér þetta til að gera mig sterkari. Ég er líka farin að opna augu annarra fyrir því að við erum alls konar.

Við erum bara einstaklingar fyrst og fremst. Fötlunin fylgir okkur alltaf, er hluti af okkur og gerir okkur að þeim sem við erum; allir þessir kostir, gallar og eiginleikar gera mig að mér. Fötlunin er hluti af mér og gerir mig að Ragney – manneskjunni sem Ragney er.

Ég vil að það að vera með fötlun sé ekki litið á eitthvað sem er öðruvísi heldur að okkur sé bara tekið eins og við erum. Samfélagið á ekki að búa til eitthvað tilbúið box eða ákveða fyrir fram hverjir séu í ákveðnum hópum heldur á samfélagið að aðlaga sig að þörfum hvers og eins en ekki við einstaklingarnir að aðlaga okkur að þörfum samfélagsins.“

- Auglýsing -

„Þetta hafði mjög slæm áhrif á mig áður fyrr en ég er núna orðin miklu sterkari og stolt af því að vera með þessa fötlun og er farin að nýta mér þetta til að gera mig sterkari.“

 

Helgarviðtal Mannlífs má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -