Guðbjörg Sigríður Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 3. júní 1980. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Kópavogi þann 25. september síðastliðinn aðeins 41 árs að aldri. Guðbjörg lætur eftir sig eina dóttur, Ivy Öldu Guðbjargardóttur, 19 ára.
Guðbjörg gekk í Snælandsskóla á yngri árum en þaðan fór hún í Fjölbrautaskólann við Ármúla þar sem hún lauk stúdentsprófi. Guðbjörg vann í menntamálaráðuneytinu sem móttökuritari til ársins 2002, en sama ár eignaðist hún dóttur sína, Ivy.
Guðbjörg lauk diplómu í fjármálum og reikningshaldi en árið 2006 lauk hún námi í lögreglufræðum. Guðbjörg starfaði sem lögregluþjónn í tíu ár.
Jóhanna systir Guðbjargar minnist hennar fallega í minningagrein í morgunblaðinu í dag. Ljóst er að þær systur hafi verið afar samrýndar.
„Þetta líf er svo ósanngjarnt og sérstaklega á þessari stundu, aðeins 41 árs í blóma lífsins ertu tekin frá okkur,“ skrifar Jóhanna og heldur áfram:
„Ósjaldan áttum við það til að senda skilaboð á sömu sekúndu með sömu hugmyndum eða þegar við spjölluðum að segja sama hlutinn.“
„Frá því ég fæddist passaðir þú upp á mig og stóðst þig svo vel í stórusysturhlutverkinu. Þegar ég lenti í einelti í grunnskóla þá tókst þú málin í þínar hendur, sama hversu stór og sterkur eineltisseggurinn var þá lét hann mig vera eftir að þú gekkst í málin. Ég leit alltaf svo upp til þín, var svo stolt að eiga stóra systur í sama grunnskóla en eðlilega þótti þér pirrandi að litla dýrið væri að reyna að troða sér með. Eftir menntaskóla breyttist það og urðum við óaðskiljanlegar og eyddi ég ófáum stundum með þér og Ivy sem er mér svo dýrmætt.“
Þá rifjar Jóhanna upp minningar milli þeirra systra og skrifar að lokum:
„Ég mun gera mitt besta til að hjálpa Ivy Öldu og ég veit að öll fjölskyldan mun hjálpa mér í því. Minning þín lifir í hjörtum okkar og í Ivy.
Hvíl í friði elsku systir og vinkona, ég mun sakna þín mikið.“
Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda