Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Sólveig Anna: „Feðraveldið snýst um að arðræna, kúga og pína verkakonur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Feðraveldi íslenskrar nýfrjálshyggju snýst fyrst og fremst um að arðræna, kúga og pína verka og láglaunakonur.“

Svo segir í pistli Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gær.

Í pistlinum útskýrir Sólveig Anna merkingu svokallaðs feðraveldis í nútímasamfélagi. Hún segir nýfrjálshyggju hafa breytt femínisma og gert hann einstaklingsmiðaðan; samstaða kvenna allra stétta hafi með tilkomu nýfrjálshyggjunnar verið á bak og burt.

Sólveig Anna segir að í okkar flókna nútímasamfélagi sé nauðsynlegt að velta fyrir sér hvers konar „feðraveldi“ við búum í og hvaða afleiðingar það hefur í lífi okkar, eftir því hvaða hópum við tilheyrum. Í það minnsta sé það nauðsynlegt og áhugavert fyrir þá sem trúa á mikilvægi kvenfrelsisbaráttunnar.

„Á Íslandi er það svo að engar lagalegar hömlur eru til staðar sem gætu komið í veg fyrir að kona taki pláss/sæti ofarlega eða efst í stigveldum. Enda eru konur komnar í fjölmargar af mikilvægustu valdastöðum samfélagsins. Vissulega er menningarlegar hömlur eftir til að gera framabraut kvenna erfiðari en karla, en þær hverfa líka ein af annarri (séu viss skilyrði uppfyllt).

En þrátt fyrir þetta er þó enn notast við samfélagslegt stýrikerfi sem kalla má feðraveldi. Það kynbundna ofbeldi sem konur þurfa að þola í persónulegu lífi sínu og í opinberum rýmum, og sú sjúka þöggun sem fengið hefur að viðgangast um ýmis brot manna gegn konum er afleiðing feðraveldis.“

- Auglýsing -

Sólveig Anna segir að annað mikilvægt dæmi sem sanni að við búum í feðraveldi sé hugmynd um að vestrænt frelsi manna og kvenna eigi ekki síst að vera okkur sjáanlegt í fjöldaframleiddu klámi, „þar sem konur sem hópur (women as a class) hafi verið „leystar“ undan þeim sammannlegu „skorðum“ sem tilvist sálar og hjarta í líkama af holdi og blóði hafa sett homo sapiens, og Menn hafa fengið frelsið til að „njóta“ þessara hamskipta fyrirbærisins Konu.“

 

Sumar konur raunverulega frjálsar og aðrar raunverulega ófrjálsar

„Við búum semsagt inn í samfélagi sem er fullt af margskonar furðum og þversögnum. Samfélagi þar sem kven-frelsi og kven-kúgun blandast saman, þar sem sumar konur eru raunverulega frjálsar og aðrar konur eru raunverulega ófrjálsar.

- Auglýsing -

Þetta er samfélag mótað af gildum hins risavaxna og einstaklega árangursríka menningarstjórnunar-verkefni kapítalismans, því sem kallað er nýfrjálshyggja. Og það feðraveldi sem nú er við lýði er feðraveldi sem lifað getur í innilegu sambandi við nýfrjálshyggjuna.

Ein helsta ástæðan fyrir því að nýfrjálshyggjan er svo árangursríkt hugsana og hugmyndastjórnunartæki, þrátt fyrir alla ömurðina og allt óréttlætið sem raungerst hefur í „valdatíð“ hennar er hin einstaklingsmiðaða nálgun þegar kemur að „frelsi“.“

 

Auðveldara að fagna því að einstaka kona nái langt

Sólveig segir að annarrar bylgju femínismi tuttugustu aldarinnar hafi breyst með tilkomu nýfrjálshyggju.

„Stórkostleg hreyfing um kvenfrelsun, sem í fyrstu var róttæk og innihélt magnaðar útópískar hugmyndir um möguleika kvenna til að ákveða reglurnar um eigin tilveru breyttist; miðlæg hugmynd baráttunnar um samstöðu kvenna þvert á stétt og bakgrunn hvarf, og inn í femínismann kom í hennar stað einstaklingshyggja nýfrjálshyggjunnar.

Krafan um samstöðu hvarf, dýrkun á sigrum einstakra kvenna inn í kapítalismanum kom í staðinn. Það er erfitt að berjast fyrir róttækum breytingum á risavöxnum samfélagslegum skala ( hvað þá „útópíu“…), það er auðveldara að fagna því að einstaka kona nái langt.“

Sólveig segir þessa fullyrðingu sína auðsannaða. Hún segir lítið hafa batnað í lífi kvenna sem vinni við hin hefðbundnu „kvennastörf“ og hafi ekki sérstaka menntun. Þær séu kerfinu algjörlega ómissandi, en þrátt fyrir það séu þær bersýnilega minnst virði af öllum á vinnumarkaði.

„Þær eru, þrátt fyrir að nú hafi í töluverðan tíma ýmsar konur stjórnað ýmsu og haft ýmis völd, enn ofur-arðrændar og með slíkum þrótti að sífellt fleiri úr þeirra stétt lifa við fátækt og heilsu þeirra hrakar hratt eftir að þær ná miðjum aldri, bæði andlegri og líkamlegri.

Þær valdakonur sem stjórnað hafa fyrirtækjum eða pólitík hafa ekki sýnt áhuga á að koma þessum kynsystrum sínum til aðstoðar; sá þáttur, það innihaldsefni sem samkvæmt femínismanum gerir stöðu láglaunakvenna sérstaklega slæma (þær eru konur að vinna sögulega vanmetin kvennastörf) býr ekki til neina sjáanlega löngun hátt settra kvenna til að sanna að „Konur eru konum bestar“ í samskiptum við láglauna og verkakonur.“

 

Kapítalisminn þarf á ódýru kven-vinnuafli að halda

„Hvers vegna gerist ekkert slíkt? Vegna þess að það er tabú í kapítalismanum að frelsa konur undan arðráni.

Kapítalisminn þarf á ódýru kven-vinnuafli að halda til að geta rekið umönnunarkerfin sem gera verðmætaframleiðsluna mögulega, en framleiða þó engin „verðmæti“ sjálf.

Á Íslandi er það eitt helsta og á endanum langmikilvægasta hlutverk sveitarfélaganna, hins opinbera, að bjóða atvinnulífinu upp á aðgang að konum á útsöluverði til að gæta barna og annast gamalt fólk, án þess að atvinnulífið axli nokkra ábyrgð á að fjármagna stofnanirnar þar sem þessi vinna fer fram.

Óforskömmuð atlaga hálauna-konunnar Aldísar Hafsteinsdóttur gegn ómissandi starfsfólki sveitarfélaganna, mest láglaunakonum í umönnunarstörfum er einstaklega góð dæmisaga; Aldís telur að versta bölvun sem hægt er að hugsa sér sé að borga kven-vinnuaflinu laun og sýnir með framferði sínu (hvað eftir annað) að láglaunakonur geta aldrei treyst á það að kona í stjórnunarstöðu muni nota völdin sín til að bæta þeirra hag, sérstaklega ekki ef það kostar. Það er nákvæmlega engin samfélagsleg, kvenréttindaleg krafa um að hálauna-konurnar noti platformin sín og völdin til að liðsinna láglaunakonunum.“

 

Samfélagsleg sátt um að halda láglaunakonum föngnum

„Semsagt: Öllum konum er nú frjálst að spreyta sig á því að komast áfram framabraut viðskiptalífsins eða stjórnmálanna. Og engin kona sem „nær langt“ skuldar þeim konum sem fátækar eru, kúgaðar, arðrændar, nokkurn skapaðan hlut.

Engin feminísk krafa um samstöðu háttsettra kvenna með lágt settum konum er til staðar. Aðeins mestu brjálæðingarnir, félagslegir endurframleiðslu-marxistar og rad-femmur, láta sér detta til hugar að setja fram slíka kröfu.

Það er samfélagsleg sátt um að „ófaglærðar“ konur, konur sem vinna við að skúra, passa börn, hjálpa gömlu fólki eigi ekkert betra skilið en það að lifa í efnahagslegri kúgun, fangar hinnar þrotlausu biðar efir mánaðarmótum, fangar húsnæðismarkaðar, fangar ömurlegra sambanda sem þær geta ekki sloppið úr, fangar þeirrar óhamingju sem fylgir því að geta ekki veitt afkvæmum sínum það sem önnur börn fá. Fangar þessarar gömlu og grjóthörðu reglu feðraveldisins; allt það sem kellingar hafa gert í gegnum tíðina er einskis virði og bókstaflega galið að ætlast til þess að valdastéttin, peningaleg og pólitísk, eigi að axla nokkra ábyrgð á að tilvistar-skilyrðum Konunnar sem kyndir ofninn.

Sú óþolandi gella á að halda áfram að vinna verk sín hljóð og ekki trufla stjórana, hvort sem þeir eru karlar eða með eggjastokka og leg eins og hún.

Semsagt: Feðraveldi íslenskrar nýfrjálshyggju snýst fyrst og fremst um að arðræna, kúga og pína verka og láglaunakonur.

Þær eiga ekkert inni hjá neinum. Engan pening og enga samstöðu. Sweet nothing indeed. Samstaða með þeim kostar of mikið. Bæði fjárhagslega og líka í persónulegum, pólitískum skilingi; hátt settar konur í valdakerfinu verða að sýna að þær skilji að efnahagsleg frelsun láglaunakvenna er tabú.

Það er próf sem þær verða að standast. Geri þær það eru þeim allir vegir færir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -