Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi ráðgjafi Samherja í Namibíu og einn af sjö aðilum með réttarsöðu sakbornings í rannsókn embættis sérstaks saksóknara á Namibíumálinu, fór túr með togaranum Blæng Nk sem er í eigu Síldarvinnslunnar í september síðastliðnum.
Þetta kemur fram í frétt hjá Stundinni.
Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er sömuleiðis stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Komið hefur fram að Jón Óttar hafi átt í samskiptum við mútuþegana í Namibíumálinu þegar hann starfaði fyrir Samherja. Samkvæmt málsgögnum vildi Jón Óttar leyna greiðslunum til umræddra aðila.
Fram hefur komið að Jón Óttar áreitti Helga Seljan, blaðamann RÚV, yfir langan tíma í fyrra. Það er hann sagður hafa gert sem hluta af störfum sínum fyrir Samherja. Eins og kunnugt er hefur Helgi Seljan fjallað töluvert um Samherja síðustu ár, meðal annars um Namibíumálið. Hann hefur þannig orðið sér úti um mikinn óvin í Þorsteini Má Baldvinssyni.
Ástæðan fyrir því að það kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir að Jón Óttar hafi farið á sjóinn með togara Síldarvinnslunnar er að í byrjun september sagði nýráðinn upplýsingafulltrúi Samherja, Karl Eskill Pálsson, að fyrirtækið gæti ekki svarað fyrir aðkomu Jóns Óttars að rannsókn Namibíumálsins þar sem hann væri ekki starfsmaður fyrirtækisins.
Túr Jóns Óttars með Blæng sýnir hinsvegar að hann hefur nýverið með einum eða öðrum hætti starfað fyrir Samherja eða tengda aðila.