Tveir jarðskjálftar yfir 3 að stærð mældust milli klukkan ellefu og tólf í gærkvöldi.
Skjálftarnir áttu upptök sín á hafi úti, undan Reykjanestá.
Sá fyrri varð um klukkan 23.00 og mældist 3,3 að stærð. Upptök skjálftans voru um það bil 7,5 kílómetra vestur af Reykjanestá.
Seinni skjálftinn mældist 3,2 að stærð klukkan 23.48. Upptökin voru á svipuðum slóðum, eða nálægt landi.
Hrinan sem hófst suðvestur af Keili 27. september hefur heldur betur gert vart við sig. Kemur fram á heimasíðu Veðurstofunnar að 18 skjálftar yfir stærð 3 hafi orðið síðan þá, sá stærsti 4,2 að stærð.
Auk þeirra hafi mælst um það bil 10.000 minni skjálftar á svæðinu á aðeins sautján dögum.