„Bamba lampi og Pottery barn rúmteppi með 2 púðaverum,“ segir í fyrirsögn auglýsingar sem birtist á dögunum á sölusíðunni „Húsgögn til sölu – Furniture for sale“. Auglýsinguna birti Eva nokkur og við fyrstu sýn er þar ekkert óvenjulegt að sjá.
Eva bætir við:
„Lampinn fer á 5þ þar sem búið er að skrifa undir hann og teppi og koddaver 6500kr“
Lampinn sem um ræðir er sakleysislegt dádýr með stór og blíðleg augu frá framleiðandanum Heico. Þegar smellt er á myndina má þó sjá nokkuð óvænt sem fylgir lampanum í kaupbæti.
Undir lampann er búið að skrifa eftirfarandi skilaboð með stórum, svörtum stöfum:
„YOU SUCK AND I HATE YOU,“ sem þýðist nokkurn veginn á íslensku:
„ÞÚ ERT ÖMURLEGUR OG ÉG HATA ÞIG“.
Þetta verða að teljast óvenjuleg skilaboð á svo sætum og sakleysislegum bamba.
Í athugasemd undir auglýsinguna skrifar Eva:
„Geggjuð gjöf fyrir einhvern sem manni líkar ekki mjög vel við…“
Jón spyr að því sem líklega flestir eru að hugsa:
„Backstory?“ (íslenska: forsaga)
Eva hefur enn ekki upplýst um baksöguna, en lampinn hefur nú verið merktur sem seldur.
Það hefur því líklega einhver fundið sér verðugan óvin.