Guðmund Felix Grétarsson þarf vart að kynna. Hann vann hug og hjörtu landsmanna með ótrúlegri seiglu sinni og baráttuanda, þegar hann lagði upp í þá vegferð að fá nýja handleggi grædda á sig.
Guðmundur Felix missti báða handleggi sína í alvarlegu vinnuslysi árið 1998. Hann starfaði sem rafvirki og var að gera við háspennulínu, en virðist hafa farið upp í rangan staur og snert línu sem straumur hafði ekki verið tekinn af.
Hann féll átta metra niður úr staurnum og brotnaði á þremur stöðum í hryggnum, brákaðist í hálsliðum, rifbeinin losnuðu frá hryggjarsúlunni og það kviknaði í höndunum á honum. Guðmundur Felix komst ekki til fullrar meðvitundar fyrr en um þremur mánuðum eftir slysið.
Hann er fyrsti maður í heimi til að fá grædda á sig handleggi við axlir.
Nú eru níu mánuðir síðan hann gekkst undir handleggjaágræðsluna í Frakklandi og batinn hefur gengið vonum framar.
Þegar blaðamaður spyr, segist Guðmundur Felix alls ekki vera orðinn þreyttur á áhuga landans á honum og máli hans. Hann segir að þegar hann hafi sett nýjasta myndbandið sitt inn á samfélagsmiðla hafi sídegis sama dag, þegar Guðmundur kom heim úr endurhæfingu, verið komnar yfir 200 athugasemdir á færsluna.
„Það er gaman að sjá hvað fólk stendur við bakið á manni.“
Guðmundur Felix segir mikinn stuðning fólginn í því.
„Þetta hefur stundum verið einmanalegt ferðalag, svo það er voða gaman að þessu.“
Undraverður árangur
Guðmundi Felix hefur gengið vel í endurhæfingunni sem tók við eftir aðgerðina. Sá árangur sem hefur náðst á þessum níu mánuðum er mun meiri en spár gerðu ráð fyrir. Guðmundur Felix hefur til dæmis náð að hreyfa fingurna, en það er eitthvað sem búist var við að tæki í kringum tvö ár. Aðspurður hvort ekki sé um undraverðan árangur að ræða, segir hann að svo sé að vissu leyti.
„Sko, miðað við það sem við bjuggumst við, en þegar það er verið að gera eitthvað í fyrsta skipti þá veit í rauninni enginn við hverju er að búast. Það er svona eitthvað meðaltal að taugar vaxi millimetra á dag. Ef einhver missir til dæmis handlegg í slysi og hann er settur aftur á, þá er þessi millimetri á dag alveg í gangi.“
Guðmundur Felix segir að í hans tilfelli sé dæmið aðeins öðruvísi, þar sem græddir voru á hann gjafahandleggir frá öðrum einstaklingi.
„Ég er á svona ónæmisbælandi lyfjum. Ég er á þremur mismunandi lyfjum og eitt af þessum lyfjum örvar taugavöxt.“
Fólk sem fær ágræddan útlim frá annarri manneskju þarf alltaf að fara á slík ónæmisbælandi lyf. Það er til þess að koma í veg fyrir að líkaminn hafni útlimnum.
Guðmundur Felix segir lyfin þó hafa sína stóru ókosti.
„Þetta er helvítis viðbjóður, þetta lyf. Aukaverkanirnar eru bara eins og Biblían á þykkt. En ein aukaverkunin er sú að þetta örvar taugavöxt.“
Hann segir að sú aukaverkun, örvun taugavaxtar, sé greinilega mjög sterk í hans tilfelli.
Meðal aukaverkana sem fylgja ónæmisbælandi lyfjum liggur í orðinu: þau veikja ónæmiskerfið. Fólk getur því verið afar útsett fyrir öllum mögulegum og ómögulegum umgangspestum og sýkingum. Guðmundur Felix segist þurfa að fara varlega til að koma í veg fyrir að hann fái slíkar sýkingar.
„Það er nú gallinn við þetta. Reyndar var ástæðan fyrir því að ég fékk já-ið frá teyminu á sínum tíma sú að ég var á þessum lyfjum hvort eð er, af því að ég fór í lifrarskipti tvisvar sinnum árið 2002.
Ef ég hefði ekki verið á þeim hefðu þeir líklega ekki tekið áhættuna og farið út í óvissuna með því að setja einhvern á þessi lyf.
En ég er búinn að fá fjórar Covid-bólusetningar og er ekki ennþá kominn með mótefni. Það er bara nánast ekkert ónæmiskerfi.
Í dag eru skammtarnir að vísu talsvert hærri en þeir verða kannski in the long run. Þeir eru líka mikið hærri en þeir voru áður, bara eftir lifrarskiptin. Það á eftir að lækka skammtana þegar ég er kominn aðeins lengra í ferlinu.“
Guðmundur Felix mun þó þurfa að vera á ónæmisbælandi lyfjum alla ævi.
„Á meðan þú ert með líkamspart eða líffæri frá annarri manneskju þá mun ónæmiskerfið ráðast á það, nema þú sért á þessum lyfjum.
Hvítu blóðkornin líta bara á þetta sem aðskotahlut, sem þetta í rauninni er, þannig að það þarf að halda þeim í skefjum. Því miður geta þau þá misst framhjá sér ýmsa aðra kvilla.“
Með líf og starfsheiður að veði
Hann segir lækna sína vera afar ánægða með þróun mála hjá honum.
„Ég hitti tvo af þeim sem eru yfir þessu teymi í síðustu viku og sýndi þeim puttahreyfingarnar. Þeir skríktu bara eins og smákrakkar og tóku upp vídjó. Fannst þetta alveg frábært.
Þeir náttúrulega voru svolítið að leggja starfsheiðurinn að veði, að þetta gengi upp. Þetta var ekkert allsstaðar vel liðið og mætti svolítilli mótstöðu á mörgum stöðum, en þeir ákváðu að veðja á mig.
Þetta er gott fyrir orðsporið ef þetta heppnast vel, en ef þetta hefði farið illa þá hefði það bara lent illa á þeim líka.“
Guðmundur Felix var þó ekki síður að taka áhættu sjálfur, með lífið að veði.
„Ég ákvað það fyrir löngu bara og hef einhvern veginn aldrei kvikað frá því. Það hefur aldrei verið nokkur vafi í mínum huga að þetta myndi ganga upp.“
Fór langt niður og leiddist út í neyslu
Þegar hann er spurður hvaðan þessi einstaki andi hans og jákvæðni komi, segist hann í rauninni ekki vita það. Hann segir þó að þetta hafi ekki alltaf verið svona.
„Þegar ég lenti í slysinu fór ég rosalega langt niður, í mikla neyslu og vitleysu. Svo kom bara tímapunktur hjá mér þar sem ég var bara á grafarbakkanum og það var annað hvort að gera eitthvað eða halda bara áfram í sjálfsvorkunn.
Ég áttaði mig einhvern veginn á því að ástæðan fyrir því að mér leið illa var ekki út af slysinu. Það var bara út af því að ég vildi ekki sætta mig við það.
Um leið og maður áttar sig á því að allur manns sársauki er ekki út af aðstæðum, heldur út af því að maður er að streitast á móti, þá bara einhvern veginn breytist allt. Þannig að ég hætti að streitast á móti lífinu.
Ég sá bara að ég var að valda sjálfum mér óþarfa armæðu með því að ströggla svona og tók bara lífinu eins og það er. Þá eru alveg ótrúlegustu hlutir sem maður kemur í veg fyrir, ef maður er ekki að eyða allri orkunni í að velta sér upp úr smáatriðum.“
Þegar Guðmundur Felix gat sætt sig við hlutina og lífið eins og það var, gat hann fundið drifkraftinn til að gera breytingar.
„Breyta því sem ég get breytt og sætta mig við það sem ég get ekki breytt.“
Sér ekki eftir neinu
Talið berst að lifrarskiptunum sem Guðmundur Felix þurfti að gangast undir árið 2002.
„Lifrin varð fyrir skaða í slysinu. Það var rosalega mikill frumudauði í líkamanum og líkaminn þarf einhvern veginn að losa sig við það. Svo það fór í gegnum lifrina og stíflaði hana.
Þegar það uppgötvaðist voru gallgangarnir sem eru alla jafna millimetri á þykkt orðnir sentímetri á þykkt. Fullir af einhverri drullu bara. Það var skrapað út úr henni og hún svo bara náði sér aldrei.
Ég náttúrulega hjálpaði henni ekki.“
Þar á Guðmundur Felix við neysluna, sem setti aukaálag á lifrina sem þegar var veikburða. Neyslan var hans leið og eina bjargráð til að komast í gegnum dagana, eftir slysið. Hann segist þó ekki sjá eftir neinu þegar hann lítur yfir farinn veg.
„Ég sé ekki eftir neinu. Það er nefnilega þannig einhvern veginn, að það er ótrúlegt hvernig lífið raðast upp. Mér fannst ekkert gaman þegar ég þurfti að fara í lifrarskipti, það var rosalega erfitt.
Það var skipt um lifur í mér tvisvar sinnum á sama sumrinu. Þetta var rosalega erfiður tími, en þegar ég lít til baka… þetta er ástæðan fyrir því að ég er með hendur í dag. Þannig að þó maður sjái eitthvað í augnablikinu sem slæmt, þá í rauninni veit maður ekkert hvort hlutirnir séu slæmir eða ekki.
Það eina sem maður veit er að maður vill að þetta sé öðruvísi. Það eru ótrúlegustu hlutir sem gerast og svo bara þegar fram líða stundir getur það orðið til blessunar. Það eina sem maður veit er að maður hefur skoðanir á öllu. Ef maður lætur þær aðeins til hliðar og leyfir þessu bara að rúlla einhvern veginn, þá gerast alveg ótrúlega skemmtilegir hlutir.“
Nánast verkjalaus
Guðmundur Felix er í stífri endurhæfingu frá níu á morgnana til hálf fjögur á daginn, alla daga.
„Núna er svona níu mánaða tékk og þá er ég til fimm. Þá bætist það ofan á allt prógrammið – endalaus próf og mælingar. Þannig að það fer öll orka bara í þetta.“
Hann segir að þó þetta sé vissulega mjög mikið og dagarnir langir, þá hafi þetta verið mun erfiðara fyrstu sjö mánuðina.
„Ég var bara alltaf þreyttur og alltaf með verki. Í dag þarf ég ekkert að leggja mig þegar ég kem heim og ég er svona nánast verkjalaus. Það koma svona móment kannski einu sinni, tvisvar, þrisvar í viku. En að öllu jöfnu þá er ég bara verkjalaus. Það munar alveg svakalega um það.“
Stuðningur skiptir öllu
Guðmundur Felix og eiginkona hans, Sylwia Gretarsson Nowakowska, búa saman í Lyon. Móðir hans, Guðlaug Ingvadóttir, býr á hæðinni fyrir ofan þau.
„Þær sjá um að hjálpa mér með það sem ég þarf hjálp með.“
Hann flutti til Frakklands árið 2013, til þess að bíða eftir aðgerðinni. Biðin varð nokkuð lengri en til stóð í fyrstu og því hefur hann nú búið þar ytra í átta ár. Móðir hans flutti með honum. Hann segir gott stuðningsnet skipta öllu máli.
„Ég myndi ekki gera neitt af þessu án þess. Bara aldrei. Það að mamma mín flutti með mér út til þess að ég gæti elt þennan draum er ástæðan fyrir því að ég gat gert þetta. Ég kynntist ekki konunni minni fyrr en ég var búinn að búa hér í á milli eitt og tvö ár. Mamma er búin að vera kletturinn minn í gegnum þetta allt saman. Það er allt hægt ef maður á góða að.“
Þegar Guðmundur Felix er spurður út í framtíðina segir hann að næstu mánuðir verði með sama móti og verið hefur. Endurhæfingin haldi áfram samkvæmt stífu plani.
„Þó ég sé kominn með þann árangur sem ég er kominn með þá er ég ekkert að gera neitt með höndunum ennþá, þannig lagað. Það eru allavega tvö ár, í þessari endurhæfingu. Jafnvel að einhverju leyti alveg í þrjú ár. Þeir sögðu mér að eftir þrjú ár sjáum við endanlegan árangur. Það geta orðið einhverjar framfarir eftir þrjú ár, en það hægir mikið á þeim.
Það skiptir alveg gríðarlegu máli að á meðan þessar framfarir eru þá sé ég með fagfólk sem hjálpar mér. Eins og núna, allar hreyfingar sem maður gerir, þegar maður er ekki með virka vöðva þá byrjar maður að nota aðra vöðva til þess að hjálpa sér. Það er alveg stórhættulegt, vegna þess að þá ná réttu vöðvarnir aldrei að þroskast og verða það sem þeir þurfa að vera.
Ég hef ekki hugmynd um hvaða vöðvi er hvað. Ég bara geri það sem ég get. Að hafa fólk sem getur bankað í mann og bara: „Nei, nei, slakaðu aðeins á. Hættu að nota öxlina, þú átt að nota þennan vöðva.“ Benda mér á einhvern vöðva sem ég vissi ekki að væri til. Allt svona skiptir alveg gríðarlega miklu máli þegar við erum að ná einhverjum árangri með taugavöxt og svona. Að það sé einhver þarna sem getur leiðbeint. Ég er með alveg helling af þeim, helling af sérfræðingum sem koma að þessu. Þessir axlavöðvar og þetta sem er komið í gagnið núna – þetta væri ekkert svona gott ef ekki væri fyrir þetta fólk.“
Langar að hella sér í markþjálfun
Guðmundur Felix segir framtíðina annars líta vel út. Hann hefur ákveðnar væntingar og óskir þegar kemur að handleggjunum og lífinu sjálfu.
„Það sem mig langar mest er að vera sjálfum mér nægur. Að geta borðað, klætt mig, farið í sturtu. Gert þessa hluti sjálfur. Farið á kaffihús og borgað án þess að biðja þjóninn um að fara í vasann og finna kortið mitt. Svona litlir hlutir sem fólk kannski hugsar ekkert um og tekur sem sjálfsögðum. Þá er markmiðinu náð.“
Hann heldur áfram:
„En ég var rafvirki. Ég elska að vinna með höndunum. Ég er ennþá að safna verkfærum, þó ég hafi misst handleggina og geti ekki haldið á einu einasta verkfæri. Ég vonast til að geta gert sem mest.
Mig langar að geta hjólað. Það er rosa þægilegt að vera á reiðhjóli í svona stórborgum. Það er svo mikil umferð hérna, þannig að ég væri alveg til í að geta hjólað.“
Guðmundur Felix hefur mikinn áhuga á að hella sér af fullum krafti út í markþjálfun þegar fram líða stundir.
„Á meðan ég var að bíða lærði ég svolítið markþjálfun. Svo bý ég náttúrulega yfir reynslu sem er ekki hægt að læra, nema bara að ganga í gegnum hana. Þannig að ég held að ég geti gert góða hluti þar. Það gefur mér voða mikið, að geta gefið eitthvað af mér.“