Þing norðurslóða, Arctic Circle, er þessa dagana haldið í Hörpu og það sækir fólk víðs vegar að úr heiminum. Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður segist halda að þingið skipti Íslendinga miklu máli og að tækifæri Íslendinga séu margs konar þegar kemur að málefnum norðurslóða.
„Ég held að það hafi verið mikil framsýni hjá Ólafi Ragnari Grímssyni á sínum tíma þegar hann í rauninni kom þessu af stað – Arctic Circle er að verða risastórt í alþjóðasamhengi. Ég hef einhvern tímann sagt á svona ráðstefnu að það hafi eiginlega verið nördar sem höfðu áhuga á norðurslóðamálum en núna er nördaklúbburinn orðinn risastór og líka rosalega töff. Þess vegna held ég að Arctic Circle skipti okkur mjög miklu máli því með þessu erum við að vinna í því að þeir sjái svolítið Ísland fyrir sér sem eru að velta fyrir sér norðurslóðamálum, hvort sem það er til dæmis á vettvangi viðskipta eða vísinda. Þess vegna held ég að þessi ráðstefna sé algert lykilatriði í því að byggja undir þessa atvinnugrein ef það má orða sem svo, ég held að við eigum mikla möguleika í framtíðinni en það eru norðurslóðafræði, nýsköpun og sjálfbær þróun á norðurslóðum; ég held að Ísland hafi raunverulega möguleika á að vera einhvers konar miðdepill fyrir svona hugvitsdrifinn iðnað, þekkingaryfirfærslu og nýsköpun tengda norðurslóðum. Hér á Arctic Circle koma meðal annars saman stjórnmálamenn, fólk úr vísindasamfélaginu, félagasamtökum og atvinnulífinu til að ræða þessi mál og þarna höfum við raunverulegt tækifæri. Ég á ekki eingöngu við bein viðskiptatækifæri heldur eru líka tækifæri fyrir litla smáríkið Ísland, sem er staðsett á milli austurs og vesturs sitjandi við borðið í sjálfu Norðurskautsráðinu. Það má segja að þetta sé líka ákveðinn vettvangur hvað varðar friðarumleitanir, eða sem „talsmaður“ friðar, og lágs spennustigs á svæðinu þannig að ég held að tækifærin séu gríðarleg. Auðvitað má til dæmis nefna tækifæri á Akureyri sem tengist til dæmis þjónustu ef Grænlendingar ætla að vinna málma og svo er auðvitað umskipunarhöfn alltaf möguleiki ef fólk vill setja fjárfestingar í það og við sjáum tækifæri í því.“
Arctic Circle er að verða risastórt í alþjóðasamhengi.
Talsmaður norðurslóða
Þegar Bryndís settist á þing tók hún sæti í umhverfis- og samgöngunefnd auk þess að sitja í utanríkismálanefnd sem og í Vestnorræna ráðinu; hún situr ekki lengur í umhverfis- og samgöngunefnd.
„Á þeim tíma var Vestnorræna ráðið að sækja um að verða áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu og mér fannst allar þessar þrjár nefndarsetur mínar sameina mig í því að þetta væri áhugaefnið, það er að segja norðurslóðir, af því að þetta er utanríkismál. Þetta er risastórt umhverfismál en þetta er auðvitað líka efnahagsmál. Vestnorrænu löndin – Ísland, Færeyjar og Grænland – eiga auðvitað mjög mikið undir því sem gerist á þessu svæði. Þetta eru eyríki sem eiga allt undir hafinu og sjávarafurðum þannig að þess vegna skipta þessi mál auðvitað mjög miklu máli.“
Vestnorrænu löndin – Ísland, Færeyjar og Grænland – eiga auðvitað mjög mikið undir því sem gerist á þessu svæði.
Bryndísi var falið á síðasta kjörtímabili að endurskoða norðurslóðaáætlun Íslands; leiða þann starfshóp þar sem sátu þingmenn úr öllum þingflokkum. „Okkur tókst með ágætum að koma saman nýrri stefnu sem var svo samþykkt á síðasta þingi. Þannig að ég hef sýnt þessum málaflokki mikinn áhuga. Á vettvangi ÖSE hef ég svo fengið það hlutverk að vera sérstakur talsmaður norðurslóðamála. Þetta er þess vegna svolítið mikið hugðarefni enda finnst mér að við Íslendingar eigum að vera mjög stoltir af því að vera norðurslóðaríki. Við megum ekki gleyma því að það búa um fjórar milljónir manna á norðurslóðum og við á Íslandi erum þar á meðal. Oft er talað um norðurslóðir eins og einhvern garð sem þarf að friða þar sem eru ísbirnir og bráðnandi ís. Það gleymist stundum í umræðunni að þarna býr líka fólk og það þarf að búa til tækifæri fyrir þetta fólk til að búa þar áfram.“
Á vettvangi ÖSE hef ég svo fengið það hlutverk að vera sérstakur talsmaður norðurslóðamála.