Ragnheiður Erla Björnsdóttir er ungt tónskáld sem vakið hefur athygli fyrir tónsmíðar sínar, meðal annars í flutningi listhópsins Hlökk sem hún er einn meðlima í. Ragnheiður lætur þó ekki nægja að semja tónlist hún er einnig með masterspróf í ritlist og segir orðin jafnstóran hluta af verkum sínum og tónana.
Eins og vera ber í upphafi samræðna tveggja Íslendinga sem ekki þekkjast byrja ég á að spyrja Ragnheiði hvaðan hún sé af landinu. „Ég er upprunalega úr Skagafirðinum,“ segir Ragnheiður glaðlega. „En ég ólst upp hér og þar, í Þýskalandi, á Egilsstöðum og í Mosfellsbæ. Pabbi var í dýralæknisnámi í Þýskalandi og varð svo héraðsdýralæknir fyrir austan, þannig að við fluttum mikið vegna vinnu hans.“
Ragnheiður virðist hafa kunnað vel við að flakka milli staða því eftir stúdentspróf lagðist hún sjálf í flakk í nokkur ár. „Ég hef búið á Spáni, í Bandaríkjunum, á Sri Lanka og í Skotlandi, en bý núna í Vínarborg,“ útskýrir hún. „Það hentar mér vel að vera dálítið hreyfanleg.“
Tónlistin það eina sem læknaði grátköstin
Hvernig byrjaði tónlistarferillinn? „Hann byrjaði strax úti í Þýskalandi þegar ég var barn,“ segir hún. „Ég var með mikið exem þegar ég var barn og það eina sem róaði mig þegar ég fékk köstin var að hlusta á tónlist. Ég fékk oft mikil grátköst og klóraði mér ofsalega en ef mamma setti tónlist á fóninn hætti ég, þannig að hún setti mig í öll tónlistarprógrömm sem hún fann. Þannig byrjaði það.“
„Ég fékk oft mikil grátköst og klóraði mér ofsalega en ef mamma setti tónlist á fóninn þá hætti ég…“
Spurð á hvaða hljóðfæri hún hafi lært sem barn segir Ragnheiður að þau hafi nú verið nokkur. „Ég lærði á fiðlu upphaflega,“ segir hún. „Síðan á básúnu og þverflautu og svo glamra ég á píanó pg gítar þegar ég er að semja. Þegar kom að því að fara í háskólanám fór ég í tónsmíðar í Listaháskólanum hjá Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni.“
Flestum hefði sennilega þótt þetta nóg en þegar kom að því að velja mastersnám ákvað Ragnheiður að fara í ritlist í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan í hitteðfyrra. Hún yfirgaf þó ekki tónlistina á meðan. „Ég var að rannsaka tengsl texta og tónlistar,“ útskýrir hún. „Svo var ég í Aberdeen í Skotlandi í skiptinámi sem hluta af náminu í Háskólanum.“
Samdi lög í röðinni í skólanum
En hvenær byrjaðirðu að semja tónlist? „Ég samdi mikið sem krakki,“ segir Ragnheiður. „Alls konar lög. Og ég man eftir mér tíu ára að semja lög og glamra þau á hljóðfærin. Þegar ég beið í röð í skólanum samdi ég alltaf laglínur í höfðinu og setti saman ljóð við þær. Þegar ég byrjaði svo að læra tónsmíðar á háskólastigi um tvítugt lærði ég meira um hvernig maður getur nýtt tæknina til að semja tónlist.“
Spurð hvernig tónlist hún semji hugsar Ragnheiður sig um dálitla stund og segir svo að hún sé af ýmsum toga. „Ég er í alls konar verkefnum,“ útskýrir hún. „Ég hef verið að semja tónlist fyrir stuttmyndir og kvikmyndir, fyrir dansverk og þar fyrir utan sem ég mína eigin tónlist þar sem ég vinn mikið með röddina, bý til raddskúlptúra þar sem ég er að rannsaka íslensku, tek tungumálið í sundur og bý til hljóðsmíðar úr því þar sem ég bræði það aftur saman með aðferðum tónsmíðanna. síðan nýti ég textann til þess að búa til ljóðaspuna og alls konar. Þannig að, já, þetta myndi flokkast undir nútímatónlist.“
Og syngurðu sjálf? „Já, stundum,“ segir Ragnheiður. „Ég er experimental söngkona en ég sem mest fyrir aðra.“
Hulduhljóð, ekki bara tónlistarplata
Fyrir jólin gaf listhópurinn Hlökk sem Ragnheiður myndar ásamt tveimur vinkonum sínum, út plötuna Hulduhljóð sem vakti mikla athygli og hlaut meðal annars Kraumsverðlaunin. Hvernig kom þetta samstarf þeirra þriggja til? „Við erum þrjú tónskáld sem kynntumst í Listaháskólanum,“ segir hún. „Hinar eru þær Lilja María Ásmundsdóttir og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir. Við Ingibjörg vorum að læra tónsmíðar og Lilja á píanó og við bjuggum til listhópinn Hlökk til þess að slaka á og skapa á okkar eigin forsendum án þess að það væri aðalnámsgreinin okkar. Ég söng og Lilja spilaði á fiðlu og Ingibjörg á píanó og við unnum fyrst mikið með þjóðlög. Núna hefur þetta þróast meira í einhvers konar listhóp þar sem við nýtum líka aðrar listgreinar til að miðla tónlist á breiðari hátt. Þá vinn ég mikið með ritlist og Lilja er líka myndlistarkona þannig að við njótum góðs af því. Plötunni Hulduhljóðum fylgir myndræn plata sem byggist að nokkru leyti á hljóðfæri sem Lilja smíðaði og nefndi Huldu. Hljóðfærið Hulda er ljós- og hljóðskúlptúr, ef strengur er plokkaður birtist ljós úr Huldu. Innan í hljóðfærinu getur Lilja stjórnað ljósunum með örtölvu sem er sniðin sérstaklega fyrir Huldu. Platan hefur Huldu í forgrunni, eins og nafnið gefur til kynna, en þar er auðvitað líka spilað á langspil og píanó.“
Einhvern veginn hafði það komist inn í höfuð blaðamannsins að platan héti Hulduljóð og Ragnheiður viðurkennir hlæjandi að það sé algengur misskilningur. „Margt fólk heldur að þetta séu Hulduljóð,“ segir hún. „En það eru sem sagt ljóð eftir mig á plötunni en þau eru ekki hulduljóð, heldur má heyra hljóð frá Huldu, hljóðfærinu, á plötunni.“
Platan fékk mjög góða dóma, eins og áður sagði, og Ragnheiður segir það hafa verið ótrúlega skemmtilegt að hljóta þá viðurkenningu sem Kraumsverðlaunin eru. „Þetta verkefni okkar byrjaði árið 2017 þegar Ingibjörg samdi verk fyrir Huldu, píanó og langspil og síðan hefur þetta þróast í gegnum árin. Við tókum tónlistina upp fyrst og svo bættust ljóðin við og síðan myndræna platan og það gerðist allt bara náttúrulega. Ég myndi segja að platan hafi gengið betur en ég þorði að vona,“ segir Ragnheiður og brosir út að eyrum.
Semur tónlist sem tengist stjarneðlisfræði
Ragnheiður býr í Vínarborg þar sem hún vinnur fulla vinna sem tónskáld og segist kunna alveg svakalega vel við sig. „Ég er í alls konar verkefnum hérna. Sem fyrir alls konar grúppur bæði hér og í Þýskalandi. Svo syng ég líka mikið sjálf,“ segir hún kát. „Núna er ég til dæmis að semja fyrir þýskan háskóla. Það er verkefni sem tengist stjörnufræði og ég vinn það með stjarneðlisfræðingi við að finna einhvers konar brú á milli tónlistar og stjarneðlisfræði. Áhorfendur koma inn, hlusta á hálftímafyrirlestur um stjarneðlisfræði og svo er verkið mitt spilað og síðan fara allir upp á þak að skoða stjörnurnar. Þannig að á meðan verkið mitt heyrist skoðar fólkið sem er að hlusta stjörnurnar í leiðinni.“
„Það er verkefni sem tengist stjörnufræði og ég vinn það með stjarneðlisfræðingi við að finna enhvers konar brú á milli tónlistar og stjarneðlisfræði.“
Spurð hversu stóran þátt ritlistin eigi í vinnudegi hennar, hvort hún sé að skrifa eitthvað fleira en ljóðin sem hún notar í raddskúlptúra og tónverk, dregur Ragnheiður aðeins við sig svarið. „Já, ég skrifa nú ýmislegt,“ segir hún svo. „En ég vinn mest með ljóðin og þá helst á forsendum tónlistarinnar. Ég hef mikið verið að rannsaka sögu texta og tónlistar, líka á taugafræðilegum forsendum, það hvernig tónlist og tungumál virka á heilann og ég hef verið að rannsaka frumtónlist Darwins, hvernig við vorum með frumtónlistarlegt tungumál áður en tungumálið í hefðbundnum skilningi varð til. Hvernig tónlistin hafi mögulega komið á undan tungumálinu og ég vinn mikið með það í verkunum mínum.“
Hefurðu alltaf haft svona mikinn áhuga á vísindum? „Já, eiginlega,“ segir Ragnheiður hugsi. „Mér finnst eiginlega skemmtilegast að skapa út frá vísindalegum forsendum. Þannig að ég byrja á að rannsaka og kveikjan að verkunum mínum verður oftast til út frá því.“
Doktorsnám í tónsmíðum næst á dagskrá
Spurð um sína persónulegu hagi, hvort hún eigi mann og börn og svo framvegis fer Ragnheiður aftur að hlæja. „Nei, ég er bara ein að dingla mér í Vínarborg,“ segir hún. „Ég hef verið mjög tengd Austurríki síðustu sex árin, hef unnið hér í alþjóðlegum tónlistarbúðum fyrir ungt fólk á aldrinum sextán til tuttugu og eins árs þar sem við notum tónlist til þess að sameina fólk og fá það til að tala um samfélagið og vekja samfélagslega hugsun. Þarna er ungt fólk frá fjörutíu löndum sem kemur saman, allt tónlistarfólk og þar hef ég kennt tónsmíðar og söng síðustu sex árin. Þannig að ég ákvað í júní síðastliðnum að flytja bara til Austurríkis fyrst ég var svona mikið hérna hvort eð var.“
Og hvernig kanntu við þig í Vínarborg? „Ég elska að vera hérna,“ segir Ragnheiður glaðlega. „Hér er mjög skemmtilegt listasamfélag, ótrúlega mikið af tækifærum og gott að vera tónskáld hérna og líka gaman að vera flytjandi. Vínarborg er svo ofboðslega falleg borg og mjög þægilegt landfræðilega séð að vera hérna því ég er svo nálægt öllu. Ég get gengið nánast allt sem ég þarf að fara innan borgarinnar og ef ég þarf að taka lest til annars Evrópulands þá er það mjög stutt ferðalag.“
Hvernig eru plönin fyrir nánustu framtíð? „Núna set ég stefnuna á doktorsnám í tónsmíðum hérna í Vínarborg,“ segir Ragnheiður. „Það er næsta stóra verkefni og stefnan er að hefja námið næsta haust en þangað til er ég bara í ýmsum verkefnum, er að semja og semja í ólíkum löndum og reyni líka að ferðast smávegis mér til skemmtunar.“
Mikilvægt að eiga fyrirmyndir
Íslensk tónskáld hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarið þegar Hildur Guðnadóttir sópar til sín hverjum stórverðlaununum af öðrum fyrir kvikmyndatónlist sína, hefur árangur Hildar gert það auðveldara fyrir önnur íslensk tónskáld að koma sér á framfæri? „Það er alla vega mikil innspýting,“ segir Ragnheiður einlæg. „Og innblástur líka. Það er frábært að sjá þegar öðrum gengur vel. Það hvetur mann til dáða og sýnir manni að þetta er hægt. Þannig að það er klárlega eitthvað sem skiptir miklu máli. Enda skiptir öllu máli að hafa fyrirmyndir.“
Væri það eitthvað sem þú gætir hugsað þér að hasla þér völl í? Dreymir þig um að fara til Hollywood og semja tónlistina við margra milljarða króna kvikmyndir sem fá alþjóðlega dreifingu? „Ja, nei, það er ekkert sem ég hef sérstakan áhuga á,“ segir Ragnheiður. „Ég hef alla vega ekkert hugað að því. En maður myndi kannski ekki segja nei við slíku tilboði. Mér finnst það sem Hildur er að gera ótrúlega flott og fagna þessari ótrúlegu velgengni hennar.“
Myndir / Georg Cizek-Graf, Owen Fiene og saLeh roZati