Fimmtudagur 12. desember, 2024
5 C
Reykjavik

Í fréttum var þetta helst – Birgir liðhlaupi, byrlun á B5 og kraftaverk Guðmundar Felix

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í fréttum var þetta helst

Sigmundur gefur lítið fyrir skýringar Birgis: „Við erum ekki að fara að elta hann út í þetta fen“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir skýringu Birgis Þórarinssonar um að liðhlaup hans úr þingflokki Miðflokksins megi rekja til Klaustursmálsins „þriggja ára gamla eftiráskýringu sem haldi ekki alveg vatni.“

Sigmundur er ekki einn um þá skoðun, enda hafa ýmsir, bæði úr þingheimi og utan hans, talið það hæpið að ætla að skella skuldinni á Klaustursmálið, eftir að hafa í heil þrjú ár í kjölfar þess setið sem fastast í flokknum.

Sigmundur segir að á þessum þremur árum sem liðin séu hafi Birgi verið treyst fyrir hinum ýmsu hlutverkum innan flokksins. Eftir fund stjórnar Miðflokksins í gær sagði Sigmundur í samtali við mbl.is að vistaskipti Birgis væru vonbrigði.

- Auglýsing -

Hann telur þó ákvörðun Birgis fyrst og fremst ranga gagnvart því fólki sem unnið hafi hörðum höndum að því að koma honum á þing í Suðurkjördæmi. Það hafi tekist með átta atkvæðum.

Sigmundur segir ákvörðunina vissulega hafa komið á óvart. Hann hafi þó verið varaður við því af fleirum en einum að Birgir myndi fara í bólið með Sjálfstæðisflokknum.

Sigmundur segist hafa neitað að trúa því. Birgir hafi heitið fólkinu í kjördæminu því að hann yrði með Miðflokknum og hafi auk þess lagt mikið á sig til að verða valinn oddviti í kjördæminu.

- Auglýsing -

Öll fréttin: Sigmundur gefur lítið fyrir skýringar Birgis: „Við erum ekki að fara að elta hann út í þetta fen.“

Erna fylgir ekki Birgi – Jón Steinar segir Sjálfstæðisflokkinn siðlausan

 

Erna Bjarnadóttir hefur greint frá því að hún ætli ekki að fylgja Birgi Þórarinssyni yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

Birgir sagði skilið við Miðflokkinn á dögunum, og sagði þá ákvörðun hafa átt langan aðdraganda. Loks hafi hann ákveðið að færa sig yfir um flokk en ákvörðunin byggist meðal annars á Klaustursmálinu um árið.
Í yfirlýsingu Birgis um helgina gaf hann í skyn að Erna myndi fylgja honum yfir í Sjálfstæðisflokkinn.
Erna sagði það ekki ætlun sína í viðtali á Bylgjunni í morgun.

„Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna í Bítinu í morgun.

Þá sagði Erna að rætt hafi verið við hana um að skipta yfir í Sjálfstæðisflokkinn en vildi hún ekki gefa upp hverjir það voru.
Auk þess hafi Birgir sagt henni að upplifun hans væri sú að unnið væri gegn honum innan Miðflokksins.

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði um málið í Morgunblaðinu í dag og ber pistillinn titilinn „Stuðningur við siðleysi“.
Jón Steinar nefnir Birgi ekki á nafn en segir að hann hafi boðið sig fram undir fölsku flaggi.
„Hann var einfaldlega að svindla á kjósendum,“ skrifar Jón Steinar og bætir við að Birgir hafi kosið yfir sig flokk sem hann yfirgaf strax að kjöri loknu. Ástæðurnar hafi þó legið fyrir áður en kosningar fóru fram.

Þá spyr hann hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í þessari háttsemi Birgis.

Mikilvæg skilaboð Elmu eftir skemmtun á B5: „Augun voru alltaf að rúlla aftur á
bak“

Á Twitter í dag má finna mikilvæga færslu Elmu um byrlun. Færsluna skrifar hún sem aðstandandi stúlku sem lenti í því að vera byrlað ólyfjan á skemmtistað.

Elma segir frá því að vinkonurnar hafi verið að skemmta sér á B5, sem nú heitir reyndar Bankastræti Club, þegar atvikið átti sér stað.

„Ég sem ung stelpa vissi ekkert hvernig ég ætti að hjálpa henni,“ segir Elma.

Elma vill, í ljósi reynslu sinnar, að annað ungt fólk geri sér grein fyrir þeim einkennum sem fylgja byrlun svokallaðra „nauðgunarlyfja“ og hvað sé best að gera ef slíkar aðstæður koma upp. Elma segir að um það bil hálftíma eftir að vinkona hennar hafi drukkið skotið með efninu í hafi hún orðið mjög völt og litið út fyrir að vera orðin verulega ölvuð.

„Hún var við það að sofna og gat varla haldið sér standandi. Augun voru alltaf að rúlla aftur á bak og hún átti erfitt með að halda athygli á mér og annarri viðstaddri vinkonu. Hún fann fyrir mikilli ógleði og vissi alls ekki hvað var að koma fyrir sig. Við vissum að hún væri ekki orðin svona full og áttuðum okkur sem betur fer fljótt á aðstæðum.“ Elma segir að þær hafi farið með vinkonu sína á bráðamóttökuna, en þar hafi lítið verið að gert og stúlkunni einfaldlega bent á að fara heim og sofa úr sér.

„Það voru engin test tekin til að finna út hvaða efni var notað og við vitum það ekki ennþá,“ segir Elma. Elma tekur fram að sá sem setti lyf út í drykk vinkonu hennar hafi ekki verið ókunnugur maður, heldur kunningi. „Okkur er alltaf sagt að taka ekki drykki frá ókunnugu fólki en í þessum aðstæðum var það ekki málið.

Ef þið ætlið að þiggja drykki frá einstaklingi, plís farið með þeim upp að barnum og takið sjálf við drykknum frá barþjóninum.“ Elma biðlar til fólks að skilja vini sína og vinkonur aldrei eftir ein. „Ef þið sjáið mjög snögga breytingu á hegðun, takið einstaklinginn inn á bað og tékkið hvort einhver af ofantöldum einkennum séu til staðar.

Ef svo er, fáið hjálp frá dyraverði. Látið hann fylgja ykkur út og komið ykkur heim eða á slysó,“ segir Elma að lokum.

Guðmundur heldur áfram á ótrúlegu bataferli sínu: „Þetta átti ekki að gerast fyrr en eftir tvö ár“

 

Guðmundur gekkst undir aðgerðina í Lyon í Frakklandi fyrir 9 mánuðum. Batinn hefur verið undraverður og á undan áætlun. Í myndbandinu sýnir Guðmundur það nýjasta í bataferlinu.

„Nú eru liðnir 9 mánuðir frá því að ég fékk handleggina og vildi ég gera myndband og segja frá nýjustu þróuninni í ferlinu. Fyrir ykkur sem sáuð myndbandið í maí, að ég held 28. maí, þá gat ég lítillega hreyft tvíhöfðann,“ segir Guðmundur í myndbandinu og hreyfir tvíhöfðann. „En nú get ég gert talsvert meira. Tvíhöfðinn virkar nokkuð vel og svo eykst styrkurinn í öxlunum, tvíhöfðanum og þríhöfðanum með hverjum deginum sem líður.“ Þá segist hann finna fyrir kulda og snertingu í hægri handleggnum, sé þrýst vel á hann.

Svo hlakkar í Guðmundi Felix og hann segir að nýjasta þróunin sé nokkuð merkileg. „Nú get ég hreyft fingurna lítillega, en þetta átti ekki að geta gerst fyrr en eftir tvö ár.“ Því næst gerir hann smá tilraun, tekur upp mandarínubát með hægri hönd og setur upp í sig.

Öll fréttin: Guðmundur heldur áfram á ótrúlegu bataferli sínu: „Þetta átti ekki að gerast fyrr en eftir tvö ár“

Ófremdarástand í Sælukoti og starfsmenn endast aðeins nokkra mánuði: „Búið að vera svona í mörg ár“

„Starfsmenn endast oftast þarna í nokkra mánuði og þetta er búið að vera svona í mörg ár,“ sagði fyrrverandi starfsmaður leikskólans Sælukots í viðtali við Mannlíf.

Mannlíf ræddi við fyrrverandi starfsmann leikskólans, sá starfsmaður hefur óskað nafnleyndar í tengslum við málið.
Móðir barns sem var í leikskólanum hafði sagt frá reynslu sinni af leikskólanum eftir að grunur kom upp um að starfsmaður leikskólans hefði brotið á barni hennar.
Þá taldi móðirin leikskólann hafa brugðist en trúnaðarskýrslur barnaverndar voru sýndar á fundi með foreldraráði.

Mannlíf greindi frá því í gær að starfsmaðurinn hefði sagt starfi sínu við Sælukot lausu og í kjölfarið herjað á borgina í von um að leikskólinn yrði skoðaður.

Starfsmaðurinn segir þá í viðtalinu að hann og fleiri fyrrverandi starfsmenn leikskólans hafi rætt saman og borið saman bækur sínar. Þá telur starfsmaðurinn leikskólann ekki uppfylla nægilega vel kröfur til þess að halda starfseminni gangandi, en meðal annars hafi verið allt of mörg börn á hvern starfsmann.

Þá efast starfsmaðurinn um örvun málþroska barna við leikskólann en hann er gríðarlega mikilvægur þáttur.

„Hver er tungumálakrafa borgarinnar varðandi leikskóla, rekstraraðili talar ekki íslensku og enska er ekki heldur hennar móðurmál og öll samskipti eru mjög flókin.“

Öll fréttin: Ófremdarástand í Sælukoti og starfsmenn endast aðeins nokkra mánuði: „Búið að vera svona í mörg ár“

Önnur móðir lýsir ófremdarástandi á Sælukoti. Tveggja ára börn ein og án eftirlits í lokuðu rými


Mannlífi hafa borist ábendingar er varða leikskólann Sælukot og virðist frásögnunum ekki ætla að linna. Óvíst er hvernig Reykjavíkurborg hafi tekið á málinu að svo stöddu en ljóst er að tilkynningarnar eru orðnar margar.

Í gær sagði önnur móðir reynslu sína af leikskólanum, en í síðasta mánuði hafði móðir stigið fram og sagt sína reynslu. Grunur lék á að barn konunnar hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns. Þá ræddi Mannlíf einnig við leikskólann vegna málsins sem kvaðst hafa sýnt foreldraráði trúnaðargögn frá Barnavernd.

Móðirin segir að hún hafi byrjað að hafa áhyggjur af málþroska barnsins en barninu fór aftur í tali eftir að það byrjaði á leikskólanum.

„Hún kunni að telja og kunni liti, svo fór hún að rugla öllu saman þegar leikskólinn byrjaði. Þegar við vorum að telja sagði hún þá einn, og svo two, three, four.“

Þá segir móðirin að hún hafi spurt út í þetta, og sent tölvupóst. En hún velti því líka fyrir sér hvort nógu margir íslenskumælandi væru við leikskólann, enda mikilvægt fyrir málörvun barnanna. Móðirin segir svarið frá leikskólanum ekki eiga við rök að styðjast. Henni hafi verið tilkynnt að mikil íslenska væri töluð við leikskólann.

„Það væru bara tveir starfsmenn sem töluðu ekki íslensku, sem er bara bull því það voru að minnsta kosti fjórir. Og samkvæmt því þá væru tíu starfsmenn á leikskólanum,“ segir móðirin og bætti við að það gæti hreinlega ekki staðist vegna fjölda barna við leikskólann.

Öll fréttin: Önnur móðir lýsir ófremdarástandi á Sælukoti. Tveggja ára börn ein og án eftirlits í lokuðu rými

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -